Pálmi V. Jónsson
Heilbrigðisþjónusta er fyrir alla, unga sem aldna. Hún er eins konar samtrygging sem á að vera til staðar þegar þörf fyrir slíka þjónustu gefur sig til kynna. Tímabært aðgengi að heilbrigðisþjónustu skiptir sköpum fyrir fullorðna, sem eru líklegri til að þjást af langvinnum sjúkdómum og þurfa reglulega læknisaðstoð. Margt er vel gert á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar en hönnun hennar og mannafli hefur ekki tekið mið af nýjum staðreyndum: fjölgun eldra fólks sem er í grundvallaratriðum ólíkt miðaldra fólki svo og margvíslegum tækniframförum. Borðleggjandi gagnleg úrræði vantar og önnur anna ekki eftirspurn. Þannig geta tækifæri til bættrar færni, lífsgæða og sjálfstæðrar búsetu tapast.
Langur biðtími eftir læknisheimsókn, meðferð eða skurðaðgerð getur haft veruleg áhrif á líkamlega heilsu eldra fólks. Sú töf í tilfelli langvinnra sjúkdóma getur leitt til fylgikvilla. Árangursrík meðferð við bráðum sjúkdómum verður oft aðeins veitt í þröngum tímaramma. Ef meðferð næst ekki innan tímamarka getur það leitt til óafturkræfs skaða eða kallað á ífarandi meðferð sem hefði verið ónauðsynleg með skjótu viðbragði.
Óvissa og streita í tengslum við langan biðtíma eftir meðferð eða aðgerð getur tekið verulegan andlegan toll af fólki. Kvíði, þunglyndi og minnkað sjálfstraust sést oft hjá þeim sem neyðast til að bíða eftir læknisaðgerðum. Þessi sálræna vanlíðan dregur ekki aðeins úr almennri vellíðan heldur getur hún einnig haft áhrif á líkamlega heilsu, sem skapar vítahring versnandi heilsu.
Nokkrar skurðaðgerðir eru í hópi inngripa með hvað mesta lífsgæðaaukningu í för með sér sem þekkist. Það á við um liðskiptiaðgerðir á mjöðmum, hnjám og augasteinaskipti. Það hafa myndast biðlistar eftir þessum aðgerðum, mislangir eftir tímabilum. Það er allra hagur, skjólstæðinga og heilbrigðisþjónustunnar, að aðgerð sé framkvæmd á réttum tíma. Það er nauðsynlegt að aðgerðarábendingar séu samræmdar milli allra þeirra sem veita þjónustuna og að aðgerðin sé hvorki gerð of fljótt né of seint. Í tilviki liðskiptiaðgerða, þá kann að vera að líftími þeirra sé skemmri en einstaklingsins, sem þá getur kallað á enduraðgerð. Flestir sem bíða liðskiptiaðgerða hafa verki við álag eða í hvíld og sumir eru með umtalsvert skerta hreyfifærni. Ef fólk sefur ekki vegna verkja eða er komið með það mikla verki að ópíóðar eru næsta þrep verkjalyfja má ekki bíða lengur. Aukaverkanir og áhætta ópíóða á fíkn eru ljósar. Fólk á tíræðisaldri getur haft jafn mikið gagn og yngra fólk af liðskiptiaðgerðum. Ekki má útiloka fólk frá slíkum aðgerðum vegna aldurs eins og sér. Framkvæma þarf vandað heildrænt mat fyrir aðgerð til að útiloka frábendingar frá aðgerð og einnig til að undirbúa fólk svo vel sem verða má fyrir aðgerð, stundum með endurhæfingu fyrir aðgerð.
Eldra fólk sem leggst inn á sjúkrahús er undir fjórföldu álagi, það er af aldurstengdum breytingum líkamans, fjölda sjúkdóma, bráðaveikindum og rúmlegunni sem dvölinni fylgir.
Þumalfingurregla segir að einn dagur í rúmi kalli á tvo daga í endurhæfingu, aðeins til að vinna upp rúmleguna. Þannig kalla tvær vikur í rúmi á einn mánuð í endurhæfingu. Sá sjúkdómur sem knúði á um innlögn getur aukið á þörfina fyrir enn lengri endurhæfingu. Takmarka þarf rúmlegu með öllum tiltækum ráðum og skapa aðstæður til viðeigandi endurhæfingar. Ef fólk er útskrifað heim þróttlítið án endurhæfingar eða án þess að ljúka eðlilega langri endurhæfingu í ljósi aðstæðna vex áhætta á slysum, svo sem byltum, eða frekari veikindum með enn frekari afleiðingum. Enn aðrir ljúka meðferð og endurhæfingu en komast ekki viðstöðulaust heim þar sem það er bið eftir heimastuðningi. Þá er hætt við að manneskjan koðni niður líkamlega og andlega.
Einstaklingar og fjölskyldur bera oftar en ekki aukin fjárútlát af hvers konar bið innan heilbrigðisþjónustunnar og þau útgjöld geta verið tilfinnanleg. Fjárhagsleg áhrif tafa í heilbrigðisþjónustu eru einnig afar mikil fyrir ríkissjóð, þar sem meðferð og aðgerðir geta orðið flóknari og sjúkrahúslegur lengri. Aðrir einstaklingar tapa færni og möguleika á búsetu heima með miklum kostnaði fyrir ríkissjóð.
Flöskuhálsar vegna tafa í starfsemi sjúkrahúss leiða til skertra afkasta miðað við fjárfestingu og hafa áhrif á aðra sem bíða mikilvægrar meðferðar eða aðgerða. Rótargreina þarf orsakir slíkra flöskuhálsa og þá ekki síst að líta upp eftir þjónustukeðjunni og skoða stöðu fólks og þjónustu fyrir komu á sjúkrahúsið með það fyrir augum að styrkja þann hluta þjónustukeðjunnar. Ef engu er breytt verður niðurstaðan ævinlega sú sama. Bið eftir heilbrigðisþjónustu þarf að lágmarka og ætti það að vera ein af lykilhönnunarforsendum fyrir endurreisn heilbrigðisþjónustu eldra fólks.
Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands.