Guðlaug Helgadóttir fæddist í Ytra-Hrauni í Landbroti í V-Skaftafellssýslu 26. desember 1934. Hún lést á Landakotsspítala 7. apríl 2024.
Hún var dóttir hjónanna Ingveldar Bjarnadóttur húsmóður, f. 3.2. 1897 í Efri-Vík Kirkjubæjarklaustri, d. 2.1. 1973, og Helga Pálssonar bónda f. 3.6. 1907 á Seljalandi, Fljótshverfi í V-Skaftafellssýslu, d. 10.10. 1970. Systkini hennar eru: Helga, f. 7.4. 1936, d. 29.9. 2020, og Bjarni, f. 12.6. 1937, d. 21.9. 2010.
Guðlaug giftist 17.6. 1961 Ívari H. Friðþjófssyni, f. 6.7. 1936, d. 3.9. 2016. Dætur Guðlaugar og Ívars eru: 1) Inga, f. 1.6. 1963, gift Birni Jóhannssyni, f. 15.1. 1961. Synir þeirra eru Ívar Örn, f. 18.3. 1990, maki Sif Pálsdóttir, synir þeirra eru Rúrik og Heiðar. Snorri f. 5.3. 1994, maki Guðfinna Kristín Björnsdóttir. Finnur f. 23.7. 1998, maki Margrét Sjöfn Magnúsdóttir, og Björn Ingi, f. 3.9. 2003. 2) Lilja, f. 28.6. 1965, maki Jónas Gunnar Einarsson, f. 21.3 1960. Dætur Lilju eru María Sól, f. 20.4. 2000. Lóa Mjöll, f. 5.1. 1996, maki Guðjón Þorri Bjarkason, f. 19.2. 1996, dóttir þeirra er Heba, f. 20.5. 2023.
Guðlaug ólst upp í Eystra-Hrauni í Landbroti í V- Skaftafellssýslu. Fjölskyldan flutti búferlum árið 1950 til Kópavogs og byggði sér hús við Álfhólsveg.
Guðlaug lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og starfaði sem ritari við Ríkisútvarpið um tíma. Hún flutti í Garðabæinn ásamt eiginmanni og dætrum árið 1974. Hún stofnaði og rak ásamt eiginmanni sínum fyrirtækið Skrifstofuáhöld hf. í rúm 20 ár. Ásamt rekstri fyrirtækis og heimilis lauk hún stúdentsprófi frá Mennta-
skólanum við Hamrahlíð árið 1983.
Útför hefur þegar farið fram.
Mikið vorum við heppnar með hana ömmu Lóu okkar. Amma var ein mikilvægasta manneskja í okkar lífi. Dugleg og staðföst kona en jafnframt umhyggjusöm og góð. Hún studdi okkur í einu og öllu og hjálpaði okkur að verða sterku konurnar sem við erum í dag.
Við áttum margar góðar stundir með ömmu. Það var gott að tala við hana, hún átti svo auðvelt með að setja sig í spor annarra. Henni þótti nefnilega svo vænt um fólk og við höfum alltaf litið upp til hennar sérstaklega af þessum ástæðum. Fullkomlega fordómalaus, skilningsrík og góðhjörtuð.
Það var áhugavert að hlusta á hana tala um æsku sína. Hún sagði okkur frá því hvernig það var að búa í torfbæ, með engu rafmagni, sjónvarpi, síma eða öðrum hlutum til afþreyingar. Hún sagði okkur að stundum hefði henni leiðst svo mikið að hún grét. Á veturna var lítið sem ekkert að gera á sveitabænum og myrkrið ætlaði engan enda að taka. Okkur sem erum fæddar inn á tæknivædda öld finnst erfitt að ímynda okkur þetta líf.
Amma og afi hringdu stundum í okkur og báðu um hjálp með símana, tölvurnar og sjónvarpið. Þá komum við í heimsókn og skrifuðum niður á blað hvað þyrfti að gera ef vandamálið kæmi upp aftur og þau fylgdu leiðbeiningunum eins og ekkert væri. Amma átti alltaf nýjustu græjur og var ekkert að láta þessa nýju og flóknu tækni stoppa sig. Hún var dugleg á Facebook og okkur fannst svo gott að geta talað við hana reglulega þar inni. Henni fannst þó skemmtilegast að leggja kapal eða spila önnur spil og við spiluðum mikið saman, ekki síst veiðimann og ólsen-ólsen.
Þegar afi og amma fluttu í Mosfellsbæinn fórum við nánast daglega í heimsókn, þar sem grunnskólinn okkar var við hliðina. Þar voru alltaf einhverjar kræsingar í boði og amma átti alltaf til ísblóm í frystinum fyrir okkur.
Amma sagði okkur frá því hvernig það var að stunda nám við Kvennaskólann í Reykjavík á þessum tíma. Hvernig það var að klára stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og útskrifast á sama tíma og elsta dóttir sín og af hverju hún ákvað að taka bílpróf á sextugsaldri. Hún lét ekki margt stoppa sig, enda algjört hörkukvendi.
Elsku amma okkar, við hefðum ekki getað beðið um betri ömmu og fyrirmynd. Þín verður sárt saknað.
Lóa Mjöll og María Sól.