Sigursteinn Þórsson fæddist á Akureyri 7. nóvember 1954. Hann lést 8. apríl 2024.
Foreldrar hans voru Þór Steinberg Pálsson húsasmiður og Hrefna Sigursteinsdóttir. Systkini hans eru Ásta, búsett á Akureyri, og Björgvin, búsettur í Eyjafjarðarsveit.
Sigursteinn, sem var alltaf kallaður Siddi, var í sambúð með Agnesi Eyfjörð og átti með henni einn son, Rúnar Þór, giftur Regínu Margréti Gunnarsdóttur. Þau eiga þrjá drengi sem eru Gunnar Sölvi, Elías Orri og Eyþór Atli.
Seinni kona Sidda var Margrét Sveinbjörnsdóttir, þau giftust í desember 1986 en skildu síðar. Þau áttu saman þrjá drengi: 1) Hrannar Örn. Hann á einn son, Hrannar Orra. 2) Arnar Þór, giftur Örnu Arnardóttur. Þau eiga þrjú börn sem eru Örn Kató, Þór Leví og Birta Lív. 3) Sigursteinn Unnar, giftur Hafdísi Ölmu Einarsdóttur. Þau eiga tvær dætur sem eru Elísa Arney og Eydís Ylfa.
Siddi bjó á Akureyri mestallt sitt líf. Hann gekk í Barna- og Gagnfræðaskólann á Akureyri og fór svo í Iðnskólann þar sem hann lærði rafvirkjun og síðar bifvélavirkjun. Hann vann m.a. á Smáranum við rafvirkjun og síðar við bifvélavirkjun hjá Bifreiðaverkstæði Bjarna Sigurjóns. Hann rak um tíma Rafós, Bílvirkja á Akureyri, Sagaplast og Afl húsbílaþjónustu og Afl.
Siddi hafði alla tíð mikinn áhuga á bílum og byrjaði hann að rétta og gera við leikfangabíla sem hann beyglaði sjálfur svo hann gæti gert við þá. Hann var einn af stofnendum Bílaklúbbs Akureyrar árið 1974 og var gerður þar að heiðursmeðlimi árið 2017. Hann keppti í torfæru og sandspyrnu um nokkurra ára tímabil og aðstoðaði syni sína við viðgerðir á bílum þeirra og keppni í kvartmílu alla tíð. Hann eignaðist um ævina marga merkilega bíla sem hann ýmist keypti hér eða flutti inn frá Ameríku og átti hann um ævina hundruð bíla. Síðustu ár hafði hann mikinn áhuga á Ford Mustang og öllu tengdu því og hann sem aðaldrifkrafturinn ásamt sonum sínum eignaðist nýjan Shelby GT500 og nýjan Mustang Cobra Jet-spyrnubíl ásamt því að eiga 1969 Ford Mustang Mach 1 Cobra Jet sem hann var að gera upp. Fram til síðasta dags vann hann við smíði á Mustang-spyrnubíl ásamt bróður sínum sem þeir stefndu á að keppa á í sumar.
Síðustu árin bjó hann í húsi sem hann byggði að Klettaborg 41 og starfaði sem rafvirki hjá Afli.
Útför Sigursteins fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 13.
Elsku afi Siddi.
Það var gott að búa hjá þér í Klettaborginni fyrstu fjögur árin mín. Manstu þegar við bjuggum alltaf til kaffi saman í Klettaborginni? Manstu þegar við horfðum saman á Christmas vacation fyrir öll jól og þegar hann renndi sér ofurhratt og endaði inni í Walmart? Okkur fannst það mjög fyndið. Manstu þegar við skreyttum jólatréð saman? Manstu þegar við fórum í jólagjafaleiðangur fyrir síðustu jól? Manstu þegar við púsluðum saman Mjallhvíti og dvergana? Manstu þegar þú komst til okkar í mat þegar við vorum í útilegu í Ártúni síðasta sumar? Manstu þegar við tíndum blóm saman í sveitinni hjá Bróa frænda?
Eftir að við fluttum í Bakkahlíðina var alltaf gott að fá þig í heimsókn eða koma í heimsókn til þín afi. Þú varst alltaf svo duglegur að leika við okkur Eydísi. Ég ætla að hjálpa Eydísi að muna eftir þér og öllum góðu stundunum okkar. Ég mun aldrei gleyma þér. Nú geymi ég þig í hjartanu og tek þig með mér hvert sem ég fer. Leyfi þér að sjá heiminn með bláu augunum mínum/þínum. Ég elska þig og sakna þín afi.
Þín afastelpa,
Elísa Arney.