Löng saga Saga Tónskóla Sigursveins nær 60 ár aftur í tímann. Á myndinni eru þáverandi nemendur á tónleikum í Hörpu árið 2015.
Löng saga Saga Tónskóla Sigursveins nær 60 ár aftur í tímann. Á myndinni eru þáverandi nemendur á tónleikum í Hörpu árið 2015. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kris@mbl.is Forsvarsmenn tónlistarskólanna í Reykjavík eru orðnir þreyttir á erfiðu starfsumhverfi. Samningarnir við Reykjavíkurborg eru framlengdir til eins árs í senn og því erfitt að gera áætlanir til framtíðar. Enn verra þykir þeim þegar framlögin liggja ekki fyrir fyrr en á sumrin þegar mjög stutt er í veturinn eða kennslutímabilið. Snúið sé að skipuleggja skólastarf með jafn stuttum fyrirvara.

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Forsvarsmenn tónlistarskólanna í Reykjavík eru orðnir þreyttir á erfiðu starfsumhverfi. Samningarnir við Reykjavíkurborg eru framlengdir til eins árs í senn og því erfitt að gera áætlanir til framtíðar. Enn verra þykir þeim þegar framlögin liggja ekki fyrir fyrr en á sumrin þegar mjög stutt er í veturinn eða kennslutímabilið. Snúið sé að skipuleggja skólastarf með jafn stuttum fyrirvara.

Fundað var með skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar á mánudaginn og segjast viðmælendur blaðsins ekki hafa fyllst bjartsýni eftir þann fund. Þau segja að starfsfólk tónlistarskólanna í borginni hafi rætt málin sín á milli og sé uggandi vegna stöðunnar. Erfitt sé að sjá hvernig halda eigi úti tónlistarnámi með sama áframhaldi. Klipið sé bæði ofan og neðan af starfseminni en um leið sé ætlast til að skólarnir stækki.

„Núna er ég til dæmis að huga að starfinu næsta vetur en ég veit ekki hversu marga kennara ég get verið með eða hversu marga nemendur,“ segir Róbert Þórhallsson skólastjóri Tónlistarskóla FÍH.

Kom hart niður á FÍH

„Niðurskurðurinn kom hart niður á okkar skóla en hann er öðruvísi upp settur en flestir aðrir tónlistarskólar. Við búum að gamalli hefð þar sem fólk á ólíkum aldri blandast saman í náminu og við höfum tekið þátt í að búa til stjörnur. Við tökum oft við nemendum sem koma úr öðrum skólum og eðli málsins samkvæmt eru nemendur orðnir eldri þegar þeir koma til okkar. Niðurskurðurinn varð til þess að vísa þurfti nemendum úr skólanum til að halda velli og við erum að reyna að jafna okkur eftir þetta þunga högg,“ segir Róbert en framlögin til Tónlistarskóla FÍH drógust saman um tæp 40%. Að sögn Róberts tókst að minnka það um helming eftir að skólinn gerði athugasemdir sem borgin tók til greina.

Reykjavíkurborg telur ekki að styðja þurfi við fagnám fullorðinna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata lögðu til að mynda fram eftirfarandi bókun á fundi ráðsins:

„Mikilvægt er að hafa í huga að ábyrgð skóla- og frístundasviðs snýr fremur að tónlistaruppeldi barna og ungmenna frekar en fullorðinsfræðslu og starfstengdu námi en mikill vilji er fyrir því að sem flest börn njóti tónlistarmenntunar sem er að verða órjúfanlegur þáttur bæði náms og félagsþroska. Með þessum breytingum á að styrkja þetta svið í menntun barna og ungmenna, ásamt því að styrkja tónlistarskóla þar.“

Róberti þykir slík túlkun undarleg. „Þótt við séum með fólk sem er eldra en tvítugt þá erum við ekki endilega að búa til kennara. Við erum að búa til flytjendur og tónlistarunnendur. Hér fara ekki eingöngu fagmenn í gegn. Einnig er rétt að nefna að tónlistarnámið er ekki lánshæft í námslánakerfinu.“

Óréttmætur niðurskurður

„Á miðju skólaári 2022-23 var tekin ákvörðun í borgarráði um að hætta að greiða kennslukostnað fullorðinna nemenda. Á miðju skólaári geta skólarnir ekki brugðist við því. Í júní var tilkynnt um niðurskurð hjá okkur, Tónlistarskóla FÍH og fleiri tónlistarskólum fyrir næsta skólaár, byggðan á fjölda fullorðinna nemenda í grunn- og miðnámi árið 2022-23. Hvað sem fólki finnst um þessa ákvörðun þá var alla vega ekki rétt að framkvæma hana með þessum hætti. Reykjavíkurborg stóð illa og virðist hafa talið að þarna væri heppilegt að skera niður,“ segir Júlíana Rún Indriðadóttir, skólastjóri Tónskóla Sigursveins.

„Þetta er óréttmætur niðurskurður að mínu mati vegna þess að við höfum ekki notað fé frá Reykjavíkurborg til að greiða fyrir nám fullorðinna nemenda, þar sem við kennum miklu fleiri nemendum en framlag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir og langt umfram þann stundafjölda sem okkur ber samkvæmt þjónustusamningum. Auk þess áttu að gilda sólarlagsákvæði sem ekki var tekið tillit til þegar niðurskurðurinn var ákveðinn,“ segir Júlíana.

Langir biðlistar í borginni

Hún segir að semja þurfi til lengri tíma. „Það versta er að verið sé að skera niður stundir sem maður fær ekki til baka. Stundafjöldinn sem okkur er úthlutaður skiptir svo miklu máli og mikilvægt að hann minnki ekki til frambúðar. Þjónustusamningar við tónlistarskólana hafa bara verið framlengdir um eitt ár í senn frá 2020 og því fylgir óöryggi. Maður myndi gjarnan vilja að samið væri til næstu þriggja ára eða til að hægt væri að gera áætlanir. Við þurfum helst að skipuleggja starf næsta skólaárs í maí og því er afleitt að skrifa undir samninga í ágúst.“

Júlíana telur að Reykjavíkurborg sé eftirbátur annarra sveitarfélaga þegar kemur að stuðningi við tónlistarkennslu.

„Ef við horfum til fólksfjölgunar í borginni þá er ekki eðlilegt að ekki hafi verið bætt í kennslumagnið sem úthlutað er til skólanna í því ljósi. Enda eru langir biðlistar í tónlistarskólum í borginni.“

Höf.: Kristján Jónsson