Jórunn Guðný Helgadóttir fæddist í Vestmannaeyjum 11. júní 1929. Hún lést á Hraunbúðum 3. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Helgi Björgvin Benónýsson frá Háafelli í Skorradal, f. 1900, d. 1985, og Nanna Magnúsdóttir, f. 1905, d. 1975.

Systkini Jórunnar eru Magnús, f. 1930, d. 1931, Magnús Eggert, f. 1932, d. 2023, Jóhannes Þorsteinn, f. 1934, Guðmunda Rósa, f. 1936, drengur, f. 1938, d. 1938, og Hannes, f. 1941.

Jórunn giftist 31. maí 1952 Gunnari Þorbirni Haraldssyni, f. 21. apríl 1928, d. 30. desember 2010.

Börn þeirra eru: 1) Helgi Benóný, f. 1952, giftur Jarþrúði Kolbrúnu Guðmundsdóttur, dóttir þeirra er Jónína Jórunn, fósturdóttir Sæunn Klara Breiðfjörð og uppeldisdóttir Hildur Björk Rúnarsdóttir. 2) Haraldur Þorsteinn, f. 1956, giftur Kristínu Gunnarsdóttur, börn þeirra eru Hrefna, Eyrún og Gunnar Karl (d. 2021). 3) Matthildur, f. 1958, gift Jóni Gunnari Hilmarssyni, synir þeirra eru Hilmar Smári og Gunnar Bjarki. 4) Nanna Björk, f. 1962, dóttir hennar er Hanna Guðný.

Langömmubörn Jórunnar eru sjö.

Jórunn fæddist á Vesturhúsum í Vestmannaeyjum þar sem hún ólst upp ásamt systkinum sínum. Þegar hún var níu ára gömul fór hún í sveit á Háafell í Skorradal til ömmu sinnar og afa þar sem hún dvaldi í eitt og hálft ár. Eftir það sneri hún aftur til Vestmannaeyja þar sem hún lauk gagnfræðaskólaprófi. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Varmalandi veturinn 1948-1949.

Jórunn og Gunnar hófu sinn búskap á Grímsstöðum við Skólaveg og fluttu síðar á Illugagötu 9 þar sem þau bjuggu fram að gosi. Lá þá leiðin upp á land þar sem þau festu kaup á íbúð í Kópavogi. Haustið 1974 sneru þau aftur til Vestmannaeyja og byggðu sér hús á Dverghamri 30. Árið 1994 fluttu þau á Áshamar 33 þar til að Jórunn flutti í þjónustumiðstöð við Eyjahraun árið 2011. Síðustu mánuðina bjó hún á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum.

Í gegnum ævina vann Jórunn ýmis störf, t.d. á skrifstofu Neytendafélagsins í Vestmannaeyjum, Mjólkurbúðinni og í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja.

Hún var ötul í félagsmálum í Vestmannaeyjum þar sem hún sat í stjórn Slysavarnafélagsins Eykyndils í mörg ár og í stjórn Félags eldri borgara.

Útför Jórunnar verður gerð frá Landakirkju í dag, 19. apríl 2024, og hefst athöfnin kl. 14. Beint streymi verður á
www.landakirkja.is/streymi-utfara/.

Elsku mamma, nú kveð ég þig eftir 70 ára samveru. Það hefur verið dýrmætur tími í lífi mínu. Það var alltaf gott að eiga þig að. Vesthúsin voru þitt æskuheimili og þaðan áttir þú góðar minningar. Á efri árum rifjaðir þú upp þegar þú varst að reka kýrnar suður fyrir Helgafell og vestur fyrir það. Þú varst gagnfræðingur frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Eftir það fórstu í Húsmæðraskólann á Varmalandi í Borgarfirði. Þegar þú varst níu ára fórstu í vist hjá Benóný afa og Guðnýju ömmu þinni á Háafelli í Skorradal og varst í 15 mánuði. Eftir þennan tíma elskaðir þú Skorradalinn og talaðir mikið um hann. Halda átti jólahátíð að Lundi í Lundarreykjadal. Þá langaði þig að fara með og þú spyrð ömmu þína hvort þú megir fara með, svarið er nei. Eftir smá rell segir amma þín: Spurðu afa þinn. Hann hugsar sig um og segir já. Þá stekkur þú upp um háls hans og segir: Ef ég eignast dreng skíri ég hann Benóný. Af því heiti ég Helgi Benóný, eftir afa og langafa.

Mamma og pabbi byrjuðu að búa á Grímsstöðum (Skólavegi 27). Byggðu svo hús á Illugagötu 9. Fluttum þangað 1957. Leikskólinn var hraunið vestur frá og botninn, eiðið og fjöllin. Var mamma alltaf til taks ef eitthvað bjátaði á. Áttum heima þar til 23. janúar 1973 þegar eldgosið á Heimaey byrjaði. Um nóttina stóðum við á bryggjunni í Þorlákshöfn. Fjölskyldan hittist aftur 17. júní 1973. Komum aftur heim til Eyja tveimur árum seinna og byrjuðum að búa á Heiðarveginum á meðan verið var að byggja Dverghamar 30. Þú vannst á skrifstofu, í MS-búðinni og íþróttamiðstöðinni. Þú varst í Slysvarnafélaginu Eykyndli og í stjórn þess, fyrir hönd þess í stjórn Bása og varst líka í félagi eldri borgara og stjórn þess. Það væri meira að segja frá, læt þetta nægja að sinni.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir fjölskyldu mína, elsku mamma og tengdamamma.

Kærar kveðjur.

Helgi og Jarþrúður.

Kæra tengdó.

Þá er komið að leiðarlokum hjá okkur eftir tæplega 47 ára kynni.

Ég var svo heppin að koma inn í fjölskylduna ykkar þegar ég kynntist Halla þínum. Sagt er að maður velji sér maka en ekki fjölskyldu en þar var ég svo sannarlega heppin.

Jórunni þótti vænt um börnin og barnabörnin og hafði gaman af að fylgjast með þeim úr fjarlægð þar sem flest þeirra hafa búið uppi á landi. Hún var ávallt tilbúin til að rétta okkur hjálparhönd með börnin okkar þegar á þurfti að halda. Ég veit að hún var mjög trúuð kona og baðst fyrir á hverju kvöldi fyrir hverjum og einum. Gerðum stundum góðlátlegt grín að því hvað það tæki langan tíma.

Hún var mikil félagsvera og starfaði og var í stjórn Slysavarnafélagsins Eykyndils í Vestmannaeyjum og í stjórn eldri borgara. Hún hafði gaman af að spila á spil og fór á ófá spilakvöld hjá eldri borgurum. Svo tók hún oft í spil með Ástu Haralds og Halla og vil ég þakka Ástu sérstaklega fyrir mikla tryggð við Jórunni.

Níu ára gömul fór Jórunn í sveit til ömmu sinnar og afa að Háafelli í Skorradal og var þar í eitt og hálft ár.

Hún talaði mjög oft um þessa dvöl og hvað henni leið vel og upplifði margt. Þar sá hún t.d. tré og fossa í fyrsta skipti níu ára gömul.

Jórunn var svo rétt hugsandi kona. Þegar Gunnar tengdapabbi dó í desember 2010 sá hún fljótlega að húsið væri of stórt fyrir hana. Hún tók þá ákvörðun að sækja um þjónustuíbúð fyrir aldraða og fékk þar litla íbúð. Sl. haust ákvað hún að sækja um inni á Hraunbúðum dvalarheimili þar sem hún fann að heilsu hennar var farið að hraka. Þessar ákvarðanir tók hún algjörlega sjálf.

Hún þakkaði oft fyrir hvað hún hafði átt góða ævi og verið heilsuhraust. Hún var tilbúin að kveðja og ég er þakklát fyrir okkar kynni sem engan skugga bar á.

Elsku Jórunn, ég veit að Gunnar þinn og Gunnar Karl hafa tekið vel á móti þér í sumarlandinu.

Hvíl í friði, elsku Jórunn.

Þín tengdadóttir,

Kristín Gunnarsdóttir.

Það var alltaf jafn yndislegt að koma til ömmu og afa í Eyjum.

Við barnabörnin eyddum gæðastundum í ömmu og afa húsi, þar sem við perluðum, lásum bækur og spiluðum. Amma sá svo um að strauja allt perlið okkar. Amma passaði einnig upp á það að við töluðum fallega hvert til annars og bærum virðingum hvert fyrir öðru.

Amma var alltaf dugleg að spila við mig og eyddi heilu kvöldstundunum í að spila við mig bæði í Eyjum og í öllum ferðalögunum sem við fórum saman. Hún var einnig góður hlustandi og vissi ég að ég gæti alltaf leitað til hennar. Hún hringdi reglulega þar sem við fórum yfir hvað væri að frétta svo hún vissi alltaf hvað væri að gerast í kringum mig.

Ég sendi þér fallegt ljóð:

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Takk fyrir allt saman, amma mín.

Kveðja,

Jónína Jórunn Helgadóttir.