Hallgrímur Óskarsson og Christiaan P. Richter
120 MW af íslenskri raforku eru notuð í rafmyntargröft í gagnaverum, mesta magn á höfðatölu í veröldinni. Þjóðhagslegur ávinningur af rafmyntargreftri er ekki mikill því starfsmenn á Íslandi eru fáir og ávinningur ríkis og sveitarfélaga takmarkaður. Hagnaður verður til í rekstri en óvíst hvar hann endar því flest þessara fyrirtækja eru í eigu erlendra aðila. Fyrirtæki í rafmyntargreftri hafa reynt að nefna tvennt jákvætt við sína iðju: Að þau borgi hátt verð fyrir rafmagn og geti tekið við breytilegu magni af raforku (meiri nýtni orkunnar). En ef þetta er skoðað nánar þá eru til mun betri kostir fyrir nýtingu á okkar dýrmætu auðlind, kostir sem eru mun þjóðhagslega hagkvæmari og auka ávinning allra.
Hvað ef 120 MW færu í græna eldsneytisframleiðslu?
Hægt væri að ná fram stórum skrefum í orkuskiptum ef þessi 120 MW færu í verkefni sem gera gagn í orkuskiptum. Orkuskipti ganga hægt af því að það tekur tíma að breyta innviðum og fjölga rafknúnum samgöngutækjum. En það er hægt að flýta orkuskiptum með því að nota grænt eldsneyti á skipaflota og í flug og byrja þá á fiskiskipaflota og innanlandsflugi því það telur sem samdráttur í losun sem er á beinni ábyrgð Íslands, nokkuð sem íslensk stjórnvöld eru búin að skuldbinda sig til að standa við. Grænt eldsneyti er því nauðsynlegt til að ná fram orkuskiptum, enda verða fiskiskip í langförum seint rafknúin, vegna fjarlægðar frá höfnum.
Grænt eldsneyti fyrir fiskiskipaflotann
Með 120 MW orku mætti framleiða 40% af því græna eldsneyti sem íslenski fiskiskiptaflotinn þarfnast. Og ef við bættum við vindorku frá 1-2 meðalstórum vindorkugörðum (sem gætu verið á fáförnum stöðum) þá væri hægt að framleiða allt það græna eldsneyti sem fiskiskipaflotinn þarfnast og að auki að útvega allt það eldsneyti sem innanlandsflugið þarfnast.
Stórkostlegur ávinningur fyrir Ísland
Þannig gildir að ef græn eldsneytisframleiðsla fengi sama orkumagn og rafmyntargröftur myndi þetta verða ávinningur Íslands:
Ísland myndi spara 120 milljarða í gjaldeyristekjur með því að hætta kaupum á innfluttu jarðefnaeldsneyti.
Ísland yrði óháð öðrum löndum um orku til að knýja skip og önnur samgöngutæki, vinnuvélar, dráttarvélar o.þ.h. tæki. Óvissa með eldsneyti t.d. vegna stríðsástands yrði þá ekki lengur áhyggjuefni fyrir Ísland. Hægt væri að knýja helstu þætti atvinnulífs á grænu eldsneyti sem framleitt væri innanlands, jafnvel þó að algjör orkuskortur yrði í nágrannalöndunum.
Ísland yrði fyrsta landið í heiminum sem myndi alfarið hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi myndi styrkjast verulega og gæti hæglega farið í þann flokk að vera skynjað sem grænasta land veraldar. Gera mætti ráð fyrir fjölgun ferðamanna vegna þessa.
Græn innlend eldsneytisframleiðsla getur tekið við breytilegu orkumagni, aukið framleiðslu þegar mikið er í uppistöðulónum (og þegar vindur blæs) og minnkað framleiðslu með litlum fyrirvara. Þannig er hægt að framleiða grænt eldsneyti án þess að hefðbundin orkufyrirtæki þurfi að leggja til fulla jöfnunarorku. Þannig myndi græn eldsneytisframleiðsla bæta nýtingu á raforku í kerfum og nýta breytilega glatorku sem nú fer fram hjá kerfum. Geta til að nýta breytilega orku er meiri þegar grænt eldsneyti er framleitt í samanburði við aðra orkufreka framleiðslu.
Græn eldsneytisframleiðsla getur gert Ísland kolefnishlutlaust. Ef Ísland vill ná markmiðum um samdrátt í losun og orkuskipti þá er framleiðsla á grænu eldsneyti hraðasta og grænasta leiðin að því markmiði. Ísland hefur skrifað alþjóðaskuldbindingar um ábyrgð um að minnka losun um 40%-55% fyrir 2030 (sjá aðgerðaáætlun í loftslagsmálum). Erfitt er að sjá að þetta markmið náist nema með framleiðslu á grænu eldsneyti því stærstu notendur sem telja í loftslagsbókhaldið eru fiskiskip, flutningatæki og innanlandsflug sem þurfa að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í grænt. Mikið er í húfi að þetta náist, t.d. að Ísland nái að sleppa að miklu eða öllu leyti við að borga fyrir losunarheimildir. Að óbreyttu gæti Ísland þurft að greiða tugi milljarða ef samdráttur í losun verður ekki að veruleika.
Græn eldsneytisframleiðsla myndi skila mörgum störfum á landsbyggðinni og enn fleiri afleiddum störfum. M.v. ofangreint framleiðslumagn mætti gera ráð fyrir skattspori fyrir ríki og sveitarfélög sem væri um 20 milljarðar króna.
Tveir möguleikar
Stóru alþjóðamarkmiðin um samdrátt í losun, sem ríkisstjórnin hefur skrifað undir, nást varla nema með grænu eldsneyti. Ísland hefur því aðeins tvo möguleika: Að framleiða grænt eldsneyti innanlands eða flytja það inn. Innflutt grænt eldsneyti mun kosta mun meira en ef sambærileg vara er framleidd innanlands og er því mikið í húfi fyrir sjávarútveg, samgöngu- og flutningatæki, innanlandsflug o.fl. að umbreyta yfir í grænt eldsneyti á hagstæðu verði.
Ábati af rafmynt er lítill fyrir Ísland
Rafmyntagröftur skilar ekki ábata í orkuskipti, hjálpar ekki til við að uppfylla skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, hjálpar ekki með kolefnishlutleysi Íslands og gerir ekkert í því að Ísland nái að verða óháð erlendri orku. Af því að orka er takmörkuð auðlind getur rafmyntargröftur tafið um langa hríð að græn eldsneytisframleiðsla nái hér fótfestu með þeim margvíslega ábata sem hér er að ofan lýst. Að taka ákvörðun um að setja orku í rafmyntargröft er því að taka ákvörðun um að velja eitthvað annað en orkuskipti fyrir Ísland.
Jákvæð afleidd áhrif
Græn eldsneytisframleiðsla uppfyllir það sem hagfræðingar kalla jákvæð afleidd áhrif (e. positive externality), þar sem jákvæðu áhrifin koma fram hjá almenningi og skattgreiðendum frekar en hjá orkuframleiðendum. En þegar orkufyrirtæki velja í hvað eigi að setja orkuna þá eru þau yfirleitt að horfa bara þröngt á eina breytu, sem er hagnaður þeirra. Þau horfa ekki á jákvæð afleidd áhrif.
Eigendastefna dregur línuna í sandinn
Til er samþykkt plagg frá ríkisstjórn sem er eigendastefna ríkisins og þar segir í grein nr. 6 að félög í eigu ríkisins skuli vinna að þeim samfélagslegu markmiðum sem ríkið hefur lagt út með. Ríkisvaldið hefur ítrekað sett fram samfélagsleg markmið um orkuskipti til að geta staðið við skuldbindingar um samdrátt í losun. Þegar þetta tvennt er lesið saman þá geta orkuframleiðendur, sem horfa til eigendastefnu ríkisins, ekki horft fram hjá því að það eigi að horfa á heildarávinning fyrir Ísland (horfa á jákvæð afleidd áhrif) þegar ákvörðun er tekin um það hvort það sé betra fyrir Ísland að setja orkuna í rafmyntargröft eða í græna eldsneytisframleiðslu. Það sem leysir orkuskipti ætti að njóta mesta forgangs.
Hallgrímur er er verkfræðingur og stjórnarformaður Carbon Iceland. Christiaan P. Richter er tæknistjóri Carbon Iceland og prófessor í efnaverkfræði við HÍ.