Þórunn Laufey Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 25. desember 1951. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. apríl 2024.

Foreldrar Þórunnar voru Sigurður Runólfur Sigurðsson, f. 6. júní 1929, d. 3. október 2003, og Guðbjörg Óskarsdóttir, f. 29. maí 1930, d. 17. maí 1994.

Systkini Þórunnar eru: Óskar Már, f. 27. júní 1949, kvæntur Eddu Ragnarsdóttur, f. 4. október 1949. Sigríður, f. 16. ágúst 1953, gift Ragnari Erni Péturssyni, f. 8. maí 1954, d. 29. apríl 2016. Birgir, f. 24. júní 1959, kvæntur Svövu Einarsdóttur, f. 15. ágúst 1965.

Þórunn var gift Sigurði Péturssyni, f. 26. nóvember 1948, og eignuðust þau þrjú börn. Fyrir átti Sigurður Ólaf, f. 7. nóvember 1967. Leiðir þeirra skildi árið 1997. Börn Þórunnar og Sigurðar eru: 1) Guðbjörg Ýr, f. 22. mars 1980. 2) Friðrik Pétur, f. 27. maí 1981, maki Auðbjörg Garðarsdóttir, f. 4. maí 1979. 3) Styrmir Páll, f. 26. mars 1989, kvæntur Viktoríu Kr. Guðbjartsdóttur, f. 4. mars 1992. Barnabörn Þórunnar eru sjö talsins, þau eru: Garðar Valur, Jóhann Styrmir, Marta Evelyn, Úlfhildur Ísafold, Valgerður Sara, Alexander Hrafn og Bjartur Steinn.

Þórunn sleit barnsskónum í húsi stórfjölskyldunnar á Baldursgötu 1 í Reykjavík. Eftir almenna skólagöngu sótti hugur hennar til framandi landa og dvaldi hún á húsmæðraskóla í Danmörku og ílengdist þar í nokkur ár. Síðar var hún við nám og störf í Köln í Þýskalandi sem var henni kær tími sem hún talaði oft um. Eftir heimkomu vann hún við verslunarstörf en seinna varð hún skrifstofustjóri hjá Flugfélaginu Vængir, þar sem tungumálakunnátta hennar kom að góðum notum. Hún hafði mjög ákveðnar skoðanir og stóð föst á sínu sem ekki allir kunnu að meta en hún reyndist mörgum samt mjög vel. Meðal annarra hluta sem Þórunn tók sér fyrir hendur var að læra fallhlífarstökk. Hún hafði þörf fyrir útrás og nýjungagirni og réð sig sem matráðskonu á togara, en hún var snilldarkokkur.

Þórunn bjó ásamt Sigurði meðal annars á Rifi, í Mosfellsbæ, Sandgerði og lengst af í Ólafsvík. Hún bjó áfram í Ólafsvík eftir skilnað allt til ársins 2013 þegar hún flutti í Kópavoginn og bjó hún þar allt til síðasta dags. Þórunn vann lengst af við skrifstofustörf.

Útför hennar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 19. apríl 2024, klukkan 13.

Ástkær mamma og tengdamamma okkar, Þórunn Laufey, er fallin frá 72 ára að aldri eftir tveggja ára baráttu við krabbamein.

Þórunn hafði ákveðnar skoðanir og stóð föst á þeim, hún hafði mjög gaman af því að tala um stjórnmál og önnur málefni líðandi stundar. Hún var mikil tungumálamanneskja og nýtti öll tækifæri sem gáfust til að tala bæði dönsku og þýsku. Þórunn var ekki þekkt fyrir stundvísi og aldrei var stress fyrr en út í bíl var komið, þá var eins og himinn og jörð væru að farast og keyrði hún nú ansi hratt og fékk því nokkrum sinnum yfir ævina blá ljós í baksýnisspegilinn.

Hún var ævintýragjörn og var alltaf til í að ferðast um heiminn. Árið 1997 fór Þórunn ásamt sonum sínum Friðriki Pétri og Styrmi Páli til Þýskalands þar sem þau ferðuðust víða, fóru svo yfir til Frakklands, Belgíu og Hollands. Í Frakklandi heimsóttu þau m.a. Disneyland í París. Til New York var svo haldið árið 2019 með sonum og tengdadætrum, sú ferð var skemmtileg og skilur margt eftir í minningabankanum okkar.

Þórunn átti stórafmæli í desember 2021 þegar hún varð sjötug, í tilefni þess fórum við fjölskyldan saman til Tenerife í afmælisferð. Siggi fyrrverandi eiginmaður Þórunnar var einnig með í ferðinni og áttum við góðar stundir saman þar. Ferðin var góð og munu barnabörnin sem voru með í ferðinni muna hana vel.

Það var mikil breyting í lífi Þórunnar þegar hún missti Lindu vinkonu sína úr sama illvíga sjúkdómnum fyrir fimm árum, missirinn var Þórunni og okkur sár.

Elsku mamma og tengdamamma, nú ertu eflaust komin til Lindu þinnar og trúum við ekki öðru en að þið hafið gaman saman eins og var alltaf hjá ykkur.

Hvíl í friði elsku mamma og tengdamamma.

Friðrik, Auðbjörg, Styrmir og Viktoría.

Laufey var engri annarri lík og hennar á ég eftir að sakna. Við tvær lentum í ótal ævintýrum saman á okkar yngri árum, hún var yndisleg í alla staði og ein af mínum bestu vinkonum.

Við höfðum þekkst frá því við vorum stelpur í Miðbæjarskólanum 1958-66, þaðan lá leið okkar og fleiri skólasystra í saumadeild Lindargötuskólans 1966-68 þar sem vinkvennahópurinn stækkaði. Árið eftir útskrift höfðu nokkrar okkar, þær Kata, Þurý og seinna Mæja og hennar vinkona Níní, fengið vinnu á Skodsborg-heilsuhælinu norður af Kaupmannahöfn. Við Laufey fengum ekki leyfi foreldranna til að fara til útlanda að vinna en máttum fara til Danmerkur á Als-húsmæðraskólann. Við flugum til Kastrup seint í febrúar 1969. Gunna frænka og hennar maður Ásmundur tóku á móti okkur, var þetta mikið ævintýri fyrir okkur vinkonurnar og í fyrsta skipti sem við höfðum farið út fyrir landsteinana.

Eftir nokkurra daga dvöl hjá Gunnu og Ásmundi flugum við áfram til Suður-Jótlands þar sem vel var tekið á móti okkur við komuna í skólann. Þar fengum við stöllur saman lítið herbergi og mig minnir að við hefðum báðar smá heimþrá til að byrja með. Forstöðukona og stofnandi skólans var fröken Johanne Hansen, fædd 1890, og fagnaði hún okkur vinkonunum frá Íslandi. Hún var væn hæglát kona með silfurlitað hár og var orðin blind. Við vissum ekki þá að hún hafði verið virk í andspyrnuhreyfingu Dana, var handtekin af Gestapo og slapp naumlega frá aftöku í Ravensbruck-útrýmingarbúðum Þjóðverja. Fyrir okkur var hún bara frekar öldruð fröken Hansen.

Kennsluefni sem eftirminnilegast var fyrir okkur að læra var að vefa á stóra fótstigna vefstóla, auk þess höfðum við hannyrðir, saumaskap, matreiðslu, húsverk alls konar og samfélagsfræði. Laufey var vandvirk í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og í vefnaði gerði hún falleg verk.

Við höfðum báðar ánægju af söng sem var í hávegum hafður í skólanum og fánahylling var reglulega, þá drógu nemendur að húni norrænu þjóðfánana og sungu þjóðsöng hvers lands fyrir sig. Við áttum líka góðan tíma utan skólans með öðrum nemendum.

Að þremur mánuðum liðnum kvöddum við fröken Hansen og aðra með þakklæti og gleði í huga eftir húsmæðraævintýri okkar og tókum lest inn til Kaupmannahafnar, við höfðum fengið þar vinnu á hóteli með hjálp fröken Hansen en þar líkaði okkur ekki vistin og vorum því fljótlega sameinaðar vinkonunum og farnar að vinna á Skodsborg okkur til gæfu og gleði. Þar var ýmislegt brallað utan vinnutíma á þessum yndislega stað við Eyrarsund. Í tvígang fórum við Laufey sjóleiðina á milli staða frá Skodsborg; við syntum í norður 4 km til þorpsins Vedbæk og keyptum okkur ís og í hitt skiptið syntum við nær 3 km í suður að Strandmöllekránni þar sem við fengum okkur hressingu, hvar voru föt og peningar? Hlýtur að hafa verið á höfðinu. Á Skodsborg fórum við tvær í minnisstæða róðrarferð á lygnum sjó frá lítilli bryggju á litlum bát, við rerum til skiptis og plönuðum framtíðina.

Laufey var einstök og þakka ég henni samfylgdina. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu hennar.

Guðrún Nielsen.

Elsku Laufey, það er komið að kveðjustund um óræðan tíma. Bestu þakkir til þín fyrir að vera ógleymanlegur karakter, fyrir það minnist ég þín ofar öllu öðru.

Við vorum svo lánsamar að innritast ásamt 18 öðrum blómarósum í handavinnudeild Lindargötuskóla árið 1966 og útskrifuðumst þaðan gagnfræðingar árið 1968. Þarna varð til samstilltur hópur sem hefur haldið tengslum æ síðan. Ári eftir útskriftina miklu héldum við á vit ævintýranna og fórum að vinna við ræstingar á Skodsborg-heilsuhælinu í Danmörku. Þetta voru ólýsanlega skemmtilegir tímar og mikil gæfa að fá að upplifa. Eftir þessi dásamlegu ár tók við vinna og barneignir eins og gengur.

8. desember 1972 vaknaði ég upp um miðja nótt og mér fannst móta fyrir hópi af fólki í herberginu mínu nema stúlka sem stóð í miðjum hópnum skar sig úr og horfir beint framan í mig … og það varst þú. Svo hvarf þessi sýn. Ég hef oft pælt í hvers konar tákn þetta gæti hafa verið, en fyrir margs konar skrítnar tilviljanir hafa leiðir okkar legið saman í gegnum tíðina, fyrst í Lindó, svo í Ólafsvík, í Byggðarholtinu, svo ég tali nú ekki um hannyrðaklúbbana mín kæra. Já, það er margs að minnast og mikið verið talað. Á einum stað stendur: „Gleði vex af gleði. Þegar við rifjum upp góðar minningar verður til önnur gleðistund og svo koll af kolli.“ Það hefur aldrei skort hjá þessum hópi að rifja upp gleðistundir.

Takk Laufey fyrir að vera besti bókarinn í bænum, ungleg, greind og hrukkulaus. Fyrir að segja skoðanir þínar á mönnum og málefnum umbúðalaust þótt þær féllu ekki endilega í góðan farveg. Hjarðhegðun var þér ekki að skapi. Undir þetta myndir þú glöð kvitta.

Alveg varstu ómissandi þegar rifjaðar voru upp minningar gamalla tíma. Þú, stálminnuga Laufey, komst með nöfn, staðsetningar, hvað hver sagði við hvern og um hvað, eins og fletta upp í bók.

Þú sýndir aðdáunarvert æðruleysi í veikindum þínum, gerðir lítið úr þeim ef eitthvað var, og þegar þér leið sem verst gastu á þinn hátt yfirfært sársaukann yfir á annars hið frábæra lækna- og hjúkrunarlið, en sem fékk 0 í einkunn hjá þér þá stundina, nema Agnes læknir sem þú hafðir í dýrlingatölu frá fyrsta degi.

Þú varst alger nagli.

Að leiðarlokum bið ég Guð að geyma þig og leiða um nýjar slóðir í sumarlandinu góða. Þín verður sárt saknað elsku Laufey mín.

Þín vinkona,

Þuríður.

Margar minningar koma upp í hugann. Ég nýflutt, þá birtist kona inni í stofu og býður okkur velkomin í hverfið. Kemur hávær kona blaðskellandi og spyr hvort ég eigi ekki tómatsósu. „Mamma, konan sem talar svo hátt kom (ég var ekki heima).“ Sterk er minningin þegar ég heimsótti Þórunni í fyrsta skiptið í Mosfellsbænum. Mér brá svolítið. Konan var hávær og gat jafnvel verið orðljót. Ég hugsaði nei ég get ekki farið til þessarar konu með litlu börnin mín. Hún hafði sterkar skoðanir á pólitík og því sem var að gerast í þjóðfélaginu og hækkaði róminn. Hún sagði hreint út sína skoðun og var örugglega ekki allra fyrir vikið en ég held að henni hafi verið alveg sama.

Bak við þetta leyndist yndisleg kona sem gaf lífinu lit. Hún gat verið mikið kamelljón. Hvað hún var glæsileg þegar hún var búin að klæða sig upp í bláu kápuna og setja upp hattinn. Var ekkert að hafa miklar áhyggjur þótt það væri ekki allt í röð og reglu á heimilinu.

Einnig en minnisstætt þegar ég heimsótti tvær ömmusystur Þórunnar, þær Döddu og Gógó. Ég var að passa Friðrik Pétur og Þórunn bað mig að fara með hann í heimsókn til þeirra. Þær tóku mér, ókunnri konunni með nokkur börn, opnum örmum og öllu var tjaldað til. Börnin fengu ís og kók í gleri. Þær voru svo þakklátar fyrir þessa heimsókn.

Við erum búnar að þekkja hana í meira en fjörutíu ár. Kynntumst henni í Mosfellsbænum en hún var úr Reykjavík en hafði búið á Þingeyri og Ólafsvík áður en hún flutti til okkar. Seinna flutti hún í Sandgerði, síðan aftur í Ólafsvík en endaði svo í Kópavogi. Við ungu konurnar vorum nánar og börnin okkar léku öll mikið saman. Stofnuðum saumaklúbb sem er enn starfandi. Höfum farið í nokkrar utanlandsferðir sem Þórunn setti mark sitt á. Þórunn sýndi mikla þrautseigju í veikindum sínum og hamaðist oft sárlasin við vinnu sína sem hún stundaði meðan stætt var.

Hún var einstakur karakter sem er missir að. Við komum allar til með að sakna hennar.

Þau ljós sem skærast lýsa,

þau ljós sem skína glaðast

þau bera mesta birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

En skinið loga skæra

sem skamma stund oss gladdi

það kveikti ást og yndi

með öllum sem það kvaddi.

Þótt burt úr heimi hörðum

nú hverfi ljósið bjarta

þá situr eftir ylur

í okkar mædda hjarta.

(Friðrik Guðni Þórleifsson)

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Þórunnar.

Díana, Edda, Ellý, Hrönn, Kristín,Sólveig og Unnur.

hinsta kveðja

Ástkær Þórunn amma.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Fyrir hönd ömmubarnanna,

Garðar Valur.