Bandaríska leikkonan Zendaya var viðstödd frumsýningu myndarinnar Challengers sem fram fór á þriðjudaginn í Regency Village-leikhúsinu í Los Angeles. Zendaya hefur vakið athygli fyrir frumlegan fatastíl á rauða dreglinum en hún mætti til að mynda í hælaskóm skreyttum tennisboltum þegar myndin var kynnt í Róm, fyrr í mánuðinum. Í myndinni fer Zendaya með hlutverk Tashi Duncan, fyrrverandi undrabarns í tennis, sem svífst einskis, hvorki innan vallar né utan. Myndin verður frumsýnd hér á landi næsta miðvikudag, 24. apríl. Leikstjóri er Luca Guadagnino. Með önnur aðalhlutverk fara þeir Mike Faist og Josh O'Connor, betur þekktur sem Karl Bretaprins í þáttunum The Crown.