[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru nú lóðir undir tæplega 2.800 íbúðir byggingarhæfar í borginni. Upplýsingar um staðsetningar lóða, fjölda íbúða sem má byggja og eigendur má sjá hér fyrir ofan

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru nú lóðir undir tæplega 2.800 íbúðir byggingarhæfar í borginni. Upplýsingar um staðsetningar lóða, fjölda íbúða sem má byggja og eigendur má sjá hér fyrir ofan.

Framkvæmdafélagið Laugavegur ehf. er efst á listanum. Félagið á inni lóðir undir 257 íbúðir á Heklureitnum, en það kallar á niðurrif. Það er nú að steypa upp 186 íbúðir til viðbótar á reitnum. Félagið Safír byggingar er í 4. sæti listans en það á lóð undir 219 íbúðir á Orkureitnum. Það er nú að byggja um 200 íbúðir til viðbótar á Orkureitnum.

Tengsl við Skugga

Tengsl eru milli félagsins og Skugga. Síðarnefnda félagið hefur keypt lóðina Breiðhöfða 15 af Þorpinu vistfélagi eins og Morgunblaðið hefur fjallað um. Skuggi á líka lóðina Breiðhöfða 9. Á Kirkjusandi er félagið 102 Miðborg að reisa 115 íbúðir en það á líka lóð undir 225 íbúðir á svæðinu. Bestla á líka tvær byggingarhæfar lóðir, í Borgartúni 34-36 og á Nauthólsvegi 79.

Tekið skal fram að ekki er alltaf um óbyggðar lóðir að ræða. Þannig þarf að ráðast í niðurrif gamla Íslandsbankahússins á Kirkjusandi til að byggja þar 225 íbúðir. Sömuleiðis var Selásbraut 98 rifin til að rýma fyrir 25 íbúðum – þar voru rúmlega 10 leiguíbúðir fyrir – og fyrirhugað er niðurrif í Borgartúni 34-36 til að rýma fyrir 100 íbúðum. Þá þarf að breyta atvinnuhúsnæði í Brautarholti 16 eða rífa það.

Þá verður núverandi hjúkrunarheimili í Sóltúni 2 stækkað. Loks verður skrifstofum á Rauðarárstíg 27-29 breytt í íbúðir. Sum verkefni eru skammt á veg komin. Til dæmis hefur uppbyggingu stúdentaíbúða við Nauthólsveg 87 verið frestað vegna ytri aðstæðna, ekki síst fjármagnskostnaðar, eins og Morgunblaðið hefur sagt frá.

Annar ekki eftirspurn

En hvað þýðir þetta lóðaframboð í stóra samhenginu? Anna verktakar eftirspurn eftir íbúðum?

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) greindi í vikunni frá nýrri íbúðatalningu. Framkvæmdir voru hafnar á 7.937 íbúðum um allt land í mars sl., samanborið við 8.683 íbúðir í september í fyrra og 8.791 íbúð í mars 2023. Með öðrum orðum fækkaði íbúðum í byggingu milli ára.

Elmar Erlendsson, framkvæmdastjóri húsnæðissviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, bendir á að liðið geti allt að þrjú ár þar til íbúðir á þessum byggingarhæfu lóðum í borginni koma til afhendingar. Uppbyggingin sé misjafnlega vel á veg komin og í sumum tilvikum ekki hafin.

„Hluti af þessum 2.800 íbúðum kemur því ekki á markaðinn fyrr en 2027,“ segir Elmar. Í fyrra hafi 3.079 nýbyggðar íbúðir komið á markað en þá hefði þurft um 4.000 íbúðir til að uppfylla íbúðaþörf. Þá séu rétt rúmlega 3.000 íbúðir að koma á markað í ár en þörfin sé 4.000 til 5.000 íbúðir, að hluta vegna vanda Grindvíkinga.

Vantar yfir 4.000 íbúðir

Á næsta ári sé útlit fyrir að 2.800 nýbyggðar íbúðir komi á markað en HMS áætli að þá verði þörf fyrir 4.000 íbúðir. Samkvæmt áætlun HMS vantar því allt að rúmlega 4.000 nýjar íbúðir á markaðinn þessi þrjú ár til að uppfylla íbúðaþörf. Nánar tiltekið metur HMS stöðuna svo að þörf verði fyrir yfir 9.000 íbúðir árin 2024 og 2025 en að fullbúnum íbúðum muni aðeins fjölga um 5.788. Að sögn Elmars mun fjöldi íbúða sem stofnunin áætlar að komi á markað í ár og á næsta ári því einungis fullnægja rúmlega helmingi af íbúðaþörf.

Langt undir áætlunum

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi stefnt að því að úthluta lóðum undir um 6.000 íbúðir í fyrra, í takt við rammasamning ríkis og sveitarfélaga 2022, en raunin sé sú að aðeins sé byrjað að byggja um 1.800 íbúðir.

„Leggja þarf áherslu á að sveitarfélögin klári úthlutun lóða og útgáfu byggingarleyfa í samræmi við húsnæðisáætlanir þeirra,“ segir Elmar.