Thorgerd E. Mortensen hjúkrunarfræðingur fæddist 1. apríl 1929 í Fróðba á Suðurey í Færeyjum og ólst þar upp. Hún lést í Hafnarfirði 24. mars 2024.

Foreldrar Thorgerdar voru Daníel Mohr Mortensen, f. 27.10. 1884, kóngsbóndi (kb.) í Kelduni á Hamri í Fróðba, og Amalie Margrethe Mortensen, f. Joensen 27.7. 1891, húsfreyja. Faðir Daníels Mohr var Niels Gustaf Mortensen, f. 1845, kb í Fróðba, sonur Kristins Mortanssonar, f. 1823, kb Fróðba. Hann tók sér ættarnafnið Mortensen skv. tilskipun Dana frá 1831. Móðir Daníels Mohr var Elsebeth Christine Mortensen f. Lisberg. Amalie var dóttir Pouls Joensen útróðrarmanns á Eiði á Austurey í Færeyjum og Maren Malene Joensen f. Joensen. Faðir Maren var Grakaris Joensen, f. 14.12. 1835. Hann tók fyrstur manna kennarapróf í Færeyjum 1871, var túlkur og lögþingsmaður. Bróðir Kristins Mortensen var Johan Mortensen, f. 1816, kaupmaður og útgerðarmaður, stofnandi Mortensensverzlunarinnar á Tvöroyri, sem talin var með stærstu fyrirtækjum í ríki Danakóngs, þegar hæst bar.

Systkini Thorgerdar eru Elsebeth Christine (Tina), f. 18.7. 1919, gift Nybo, húsfr. í Hesti í Færeyjum; Poul Thorvald, f. 30.5. 1921, stýrim., búsettur í Kaupmannahöfn (Khöfn); Niels Gustaf, f. 23.10. 1922, bílst. Tvöroyri; Oda Marie Helena, f. 3.7. 1924, gift Sörensen, húsfr. í Khöfn, öll látin; Anna Wilhelmine Susanne, f. 25.9. 1932, gift Hentze, hjúkr.fr. í Skuvoy.

Thorgerd Elísa ólst upp í Fróðba á Suðurey í Færeyjum. Barnaskólanám í Fróðba og námskeið í verzlunarfræðum á Tvöroyri. Hún lauk hjúkrunarnámi frá Frederiksborg Amts Centralsygehus í Hilleröd 1955. Framhaldsnám í geðhjúkrun við Sindsygehospitalet í Risskov Árósum 1955. Starfaði sem hjúkrunarkona við Sundby Hospital Khöfn, Sjúkrahúsið á Tvöroyri, Frederiksberg og Gentofte Hospital Khöfn 1955-1958, við Heilsuverndarstöðina í Reykjavík (Rvk) 1959, Borgarspítalann 1969-1975, við handl.deild Borgarsp. 1976-1981, við dagvistun aldraðra í Hafnarhúsinu 1982, á Hrafnistu DAS í Hfn. frá 1983, þar af deildarstjóri 1983-1987 og 1989-1994.

Thorgerd giftist 3.1. 1959 Helga G. Þórðarsyni, f. 3.2. 1929, verkfræðingi.

Foreldrar Helga voru Þórður Ólafsson útvegsbóndi í Odda í Ögurvík, síðar

iðnverkam. í Rvk, og Kristín Svanhildur Helgadóttir húsfr.

Börn Thorgerdar og Helga eru: 1) Dr. Þórður, f. 16.6. 1958, verkfr. á Landspítala og dósent við Háskólann í Rvk, búsettur í Hfn., kvæntur Halldóru D. Kristjánsdóttur viðskiptafr. og eiga þau tvo syni. 2) Daníel, f. 16.6. 1960, húsasmiður í Hfn., kvæntur Vigdísi Jónsdóttur hagfr., forst. Virk starfsendurhæfingarsj., og eiga þau þrjú börn og þrjú barnab. 3) Hallur, f. 22.11. 1964, kvikmyndagerðar- og leiðsögumaður, búsettur í Hfn. Sambýlisk. Gyða Gerðarsdóttir fasteignas.; Hallur á tvo syni. 4) Kristín Svanhildur, B.ed., f. 15.5. 1968, verkefnast. á fjármálasviði Háskóla Íslands og nemi, og á hún eina dóttur. Sambýlism. Jón Páll Baldvinsson líffr. Þau eru búsett í Rvk.

Útför Thorgerdar verður gerð frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 19. apríl 2024, klukkan 15.

„Þú verður að vera góður við hana, hún er svo ung“ sagði tengdamamma mín við son sinn fyrir um 40 árum þegar ég og hann vorum að draga okkur saman og hún sá mig ásýndar í fyrsta skipti. Á þeirri stundu þekkti hún mig ekkert en var samt umhugað um að drengurinn hennar yrði mér góður. Mér hefur alltaf þótt þetta vera lýsandi fyrir hana. Hún vildi öllum svo vel og hún lagði sig fram um að sýna umhyggjusemi og góðvild gagnvart öllum sem urðu á vegi hennar í gegnum lífið.

Fyrstu búskaparár okkar Daníels voru á Vesturvangi í kjallaranum hjá Thorgerd og Helga. Á þessum tíma var ég í háskólanámi með lítil börn og Thorgerd og Helgi voru bæði alltaf boðin og búin að aðstoða okkur. Börnin áttu hjá þeim mikilvægt skjól og ef mikið var að gera hjá mér þá var ekki óalgengt að tengdamamma kallaði niður stigann hvort við „vildum ekki bara borða hjá þeim kvöldmat í kvöld?“. Hún var einnig alltaf tilbúin til að rétta mér hjálparhönd bæði við barnagæslu og önnur verkefni ef svo bar undir. Þessi stuðningur var ómetanlegur og fyrir hann er ég ætíð þakklát.

Thorgerd sagði einu sinni við mig að hún liti á það sem bæði stórt og mikilvægt hlutverk í sínu lífi að vera amma. Þetta fundum við vel sem stóðum henni næst og hún bar mikla umhyggju fyrir öllum sínum barnabörnum. Börnin mín áttu alltaf gott og öruggt skjól hjá Thorgerd ömmu og Helga afa og þar var að finna nóg af þolinmæði, tíma, umhyggju og aðstoð.

Við tengdamamma vorum um margt ólíkar en á milli okkar var bæði góð vinátta og gagnkvæm virðing. Hún gat verið nokkuð hreinskilin og átti það til að segja hlutina hreint út án nokkurrar síu. En hún gerði það yfirleitt á skemmtilegan hátt og þótt ég yrði stundum hissa á hve hreinskilin hún var þá skynjaði ég alltaf að á bak við orð hennar var ekkert annað en umhyggja og þörf til að láta gott af sér leiða.

Tengdamamma var hjúkrunarfræðingur að mennt og starfaði við fag sitt nær alla tíð. Ég veit að hún var gríðarlega fær í sínu fagi og hún var bæði ósérhlífin, iðin og dugleg. Ég fékk tækifæri til að vinna með henni eitt sumar á Hrafnistu í Hafnarfirði og ég man alltaf hvað hún lagði ríka áherslu á þarfir skjólstæðinga sinna og mikilvægi þess að þeir upplifðu Hrafnistu sem sitt heimili og skjól.

Nú er komið að leiðarlokum í okkar samfylgd í gegnum lífið. Samfylgd sem nær til um 40 ára. Hún átti langt og gott líf og hafði á sinn hæga og rólega hátt mikil og góð áhrif á sitt samferðafólk í gegnum lífið. Ég er þakklát fyrir að hafa átt hana að í öll þessi ár, þakklát fyrir góðvild hennar, umhyggju og aðstoð og þakklát fyrir hafsjó af skemmtilegum og góðum minningum um góða tengdamóður.

Vigdís Jónsdóttir.

Mig langar að minnast ömmu minnar með nokkrum orðum.

Það var alltaf gott að koma heim til ömmu og afa á Vesturvanginn, þar leið manni vel, alltaf gert vel við mann í mat og drykk og eitthvað skemmtilegt við að vera. Sem barn fór ég í margar ferðir með ömmu og afa um Ísafjarðardjúp, bæði til að gróðursetja tré í landi Djúpmannafélagsins og einnig í berjamó. Þessar ferðir voru ekki bara skemmtilegar, heldur einnig lærdómsríkar, situr eftir þekking um landið og fyrri tíma, sem og kunnátta um að greina mun á bláberjum og aðalbláberjum, hvernig maður ber sig að við sultun og söftun o.fl.

Amma ólst upp í litlu bændasamfélagi í Frodba á Suðurey í Færeyjum, en hafði sem ung kona náð að ferðast talsvert, var á Grænlandi um tíma og lýsti oft fyrir manni erfiðri sjóferð á leið þangað. Auk þess hafði hún starfað í Skotlandi, áður en hún fer til Kaupmannahafnar að læra hjúkrun, en þar kynnast hún og afi. Hún hafði verið afburða heilsuhraust í gegnum ævina og átt langt og gott líf, dó fáeinum dögum áður en hún hefði orðið 95 ára. Á síðustu árum var minnið farið að svíkja, en gat ennþá sagt manni frá gamalli tíð og farið með ýmis kvæði á færeysku sem og þulið upp grænlenska vísu sem hún hafði lært fyrir ríflega 70 árum.

Amma var hlý og góð, var alltaf jákvæð, studdi mann í því sem maður tók sér fyrir hendur, talaði aldrei illa um nokkurn mann. Ég hef verið heppinn að amma hafi verið stór hluti af mínu lífi, fyrir það er ég þakklátur. Minningin lifir um góða konu.

Nils Daníelsson.