Heimir Svavarsson fæddist í Reykjavík 1. maí 1950. Hann lést 7. apríl 2024 á Hjúkrunarheimilinu Hömrum, Mosfellsbæ.

Heimir var sonur hjónanna Agnesar Helgu Hallmundsdóttur, f. 1920, d. 2009, og Svavars Erlendssonar, f. 1913, d. 1988. Heimir var næstyngstur fjögurra bræðra, yngstur var Hallberg, f. 1. mars 1956, d. 30. nóvember 2022, eftirlifandi bræður eru Erlendur, f. 29. maí 1942, og Kristinn, f. 15. desember 1947.

Hinn 29. nóvember 1969 giftist Heimir eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu S. Frederiksen, f. 15. mars 1946. Foreldrar hennar voru Theódóra Frederiksen, f. 1910, d. 1988, og Edward Frederiksen, f. 1904, d. 1971.

Dóttir Heimis og Guðrúnar er Eva Sif, f. 13. febrúar 1969, eiginmaður Ólafur Gísli Hilmarsson, f. 12. febrúar 1967, börn: 1) Alma Karen, f. 1996, sambýlismaður Jón Pétur, f. 1992, sonur Þorsteinn Flóki, f. 2022. 2) Daníel Þór, f. 1997, sambýliskona Elva Margrét, f. 2001. 3) Eva Kristín, f. 2010. 4) Emma Guðrún, f. 2011. Heimir og Guðrún eignuðust son 4. mars 1973 sem dó í fæðingu. Fóstursonur Heimis er Arnar Berg, f. 15. febrúar 1965, eiginkona Marie Andersson, f. 28. maí 1962, börn: 1) Viktor Berg, f. 1987, eiginkona Berglind Ösp, f. 1989, börn Viktoría, f. 2018, Eyjólfur, f. 2020. 2) Patrik, f. 1987, unnusta Alice, f. 1996, sonur Colin, f. 2021. 3) Jimmy, f. 1989, eiginkona Josefine, f. 1991, dætur Lea, f. 2015, Ella, f. 2018. 4) Emelie, f. 1994, unnusti Ludvig, f. 1994, börn Adrian, f. 2019, Alva, f. 2022. 5) Alexandra, f. 1999, unnusta Tindra, f. 2000. 6) Björn, f. 2001.

Heimir ólst upp í Smáíbúðahverfinu, stundaði nám í Breiðagerðisskóla og síðar í Réttarholtsskóla þar sem hann lauk gagnfræðaprófi. Hann nam dans í Dansskóla Hermanns Ragnars og starfaði þar við danskennslu meðfram ýmsum öðrum störfum. Heimir hóf vinnu við bílamálun í lok 7. áratugarins og nam síðar við Iðnskólann í Reykjavík, og lauk þaðan meistaraprófi í bílamálun 1981. Hann sat um tíma í stjórn félags bílamálara og rak meðal annars eigið fyrirtæki, Bílaprýði, ásamt Ægi Péturssyni.

Heimir tók virkan þátt í félagsstarfi og var meðal stofnenda frjálsíþróttadeildar Leiknis, síðar í félagsstarfi frjálsíþróttadeildar ÍR þar sem dóttir hans æfði og keppti. Í lok 9. áratugarins létu Heimir og Guðrún gamlan draum rætast og fluttu til Svíþjóðar þar sem Heimir vann við bíla- og húsamálun til starfsloka. Heimir var virkur í Íslendingafélaginu í Stokkhólmi og sat um tíma í stjórn félagsins. Eftir það fóru þau að sinna öðrum áhugamálum, þar á meðal golfi og ferðalögum víða um heim auk reglulegra ferða til Íslands þar sem þau ferðuðust um með Evu og fjölskyldu. 1991 keyptu hjónin hús í Bålsta skammt frá Stokkhólmi og gerðu það upp með aðstoð sonar og tengdadóttur og bjuggu þar þar til þau fluttu heim til Íslands árið 2015 eftir 26 ára búsetu í Svíþjóð og settust að í Mosfellsbæ. Síðustu árin átti Heimir við erfið veikindi að stríða en mætti þeim með þolinmæði og æðruleysi.

Útför Heimis fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 13.

Þau eru ótalmörg minningabrotin sem koma upp í hugann nú þegar þú hefur kvatt okkur, elsku pabbi, allt frá stóra faðminum og hökuskeggbroddunum sem ég nuddaði litlu handarbaki við í kúri hjá þér, danskennslu standandi á ristunum á þér í holinu heima, sængurhorninu sem lyftist alltaf upp þegar lítil trítla kom í hurðina til ykkar mömmu þegar ég gat ekki sofnað, útilegum, berjatínslu og alls kyns bralli og grallaragangi í æsku, til oft á tíðum ótrúlegrar þolinmæði og umburðarlyndis þegar unglingsárin brustu á og alltaf voru vinirnir velkomnir heim og ófá skiptin sem þú stríddir okkur og grallaraðist í okkur, svo ég tali ekki um skiptin þegar kom að því að einhverjir strákar fóru að hringja heim og þú svaraðir símanum í minni óþökk og bullaðir glottandi í þeim með mig kafrjóða fyrir framan þig.

Þegar við Guðbjörg vinkona byrjuðum að æfa frjálsar með ÍR varst þú klár í slaginn, óþreytandi við að skutla og sækja þegar þurfti og sinntir sjálfboðastarfi á flestum mótum sem við kepptum á, auk þess sem þið mamma tókuð okkur í ferð til Þýskalands þar sem þið þvældust með okkur á milli borga og bæja á hin ýmsu frjálsíþróttamót sem við kepptum á, ferð sem við Guðbjörg munum aldrei gleyma.

Þú fórst ófáar ferðirnar með mér upp í fáfarin iðnaðarhverfi um helgar þegar ég var að læra að keyra, leyfðir mér að æfa mig og kenndir mér að bakka í stæði og skipta um dekk. Það vildi svo vel til að þú rakst bílasprautunarverkstæði á þessum tíma og við keyptum tjónabíl, lítinn sætan Daihatsu með kýrauga, og gerðum upp og þú sprautaðir hann í lit að mínu vali, snilldarbíll sem nýttist mér heldur betur vel á menntaskólaárunum.

Þegar ég lenti í aftanákeyrslu nýkomin með bílpróf gerði ég mér lítið fyrir og sagði strákunum sem ég keyrði á að elta mig bara, pabbi væri með bílaverkstæði og hann gæti örugglega reddað þessu! Ekki klikkaði það, ég mætti inn á gólf hjá þér á verkstæðið með tjónþolana og reddaði þér þar ærinni óborgaðri helgarvinnu og reyndi af veikum mætti að borga aðeins fyrir það með tiltekt á kaffistofunni hjá þér.

Þegar þið mamma fluttuð til Svíþjóðar og ég ákvað að verða eftir var söknuðurinn mikill, en við redduðum okkur, þið keyptuð gamalt faxtæki og ég sömuleiðis og ófáir metrarnir af skilaboðasendingum runnu þar á milli auk þess sem ferðirnar til Svíþjóðar urðu fleiri en ég hef tölu á, ekki síst eftir að Alma Karen, Daníel Þór, Eva Kristín og Emma Guðrún fæddust auk ferðanna ykkar mömmu hingað heim.

Þú varst yndislegur afi, með krumluna sem kitlaði krílin og alltaf stutt í grallarann. Fjarlægðin gerði samverustundirnar færri en ella, en fyrir vikið voru þær líka nýttar vel og ófáar ljúfar minningar þar. Eftir að þið mamma fluttuð heim var ætlunin að ferðast um landið og njóta, en því miður fékkstu alltof stuttan tíma til þess. Eftir ótrúlega þrautseigju og æðruleysi í gegnum erfið veikindi síðustu ár hefurðu nú kvatt okkur. Þið mamma áttuð einstakt samband og var hún þín stoð og stytta í veikindunum.

Ég mun sakna þín sárt, elsku pabbi, takk fyrir allt.

Eva Sif Heimisdóttir.

Það var alltaf stutt í drenginn í afa, stutt í spaugið og sprellið. Afi var formaður leynifélagsins Rauða drekans. Það tilkynnti hann okkur systkinunum eitt sinn þegar við vorum í heimsókn hjá þeim ömmu í Bålsta. Hann sýndi okkur einkennisklæðnað meðlima sem var svört satínskikkja með stórum rauðum dreka bróderuðum á bakið. Raunar var þetta baðsloppur sem afi hafði keypt í sólarlandaferð á Taílandi en sögusegjarinn sem afi var vildi meina annað.

Afi var afi í yngra lagi og hann var alltaf til í leik og grín og glens. Þegar ég var barn bjuggu þau amma í Bålsta í Svíþjóð og eigum við ófáar minningar þaðan. Við systkinin fórum reglulega í heimsókn til þeirra og eyddum flestum sumarfríum, mörgum vetrarfríum og einhverjum jólafríum hjá þeim í Svíþjóð. Við eltum uppi broddgelti og héra, tíndum jarðarber og misstum aldrei af ísbílnum! Margar minningarnar eru líka úr nammibúðinni góðu í Bålsta Centrum enda var afi mikill nammigrís. Afi og amma voru líka dugleg að koma í heimsóknir til Íslands og voru alltaf mætt þegar eitthvað stóð til og ætluðu sko ekki að missa af neinu hjá barnabörnunum. Þau fluttu heim þegar ég var á menntaskólaaldri og það hefur verið gott að hafa hann nær okkur síðastliðin ár.

Ég tók mín fyrstu skref beint í fangið á afa Heimi og nú fylgi ég honum hans hinstu. Við sem eftir erum í leynifélaginu Rauða drekanum höldum heiðri hans á loft um ókomna tíð. Takk fyrir allt elsku afi minn.

Þín

Alma Karen.

Heimir var fæddur á hátíðardegi verkalýðsins 1. maí 1950 og fór einkanlega vel á því. Þegar hann flutti átta ára gamall inn á Sogaveg 34 féll hann strax inn í stóran hóp jafnaldra í nærliggjandi húsum, einn af þeim er ég. Í þann tíma snerist tilveran mest um eltingaleik, sto, feluleik og fallin spýtan. Þegar tók að skyggja söfnuðumst við saman undir einum af fáum ljósastaurum við Sogaveginn og sögðum sögur. Sogavegurinn var gósenland fyrir krakka á uppvaxtarárum Heimis, knattspyrnuvöllur rétt fyrir utan eldhúsgluggann á heimilum okkar, grasi gróinn. Handan við Sogaveg og Miklubraut kartöflu- og matjurtagarðar svo langt sem augað eygði. Aðrar eins rófur og þar uxu áttum við Heimir aldrei eftir að smakka. Nú er Wembley löngu orðinn að skrúðgarði, þar býr frelsið ekki lengur, og Sogamýrin svo þéttsetin af fyrirtækjum og verslunum að ekki hefst þar við einmana rófa.

Eftir veru okkar í Gaggó Rétt minntumst við Heimir oft með hlýju og lítillæti hvernig við áttum hlutdeild í að stundakennarar okkar hurfu hver af öðrum til kennslustarfa í „æðri“ menntastofnunum s.s. menntaskólum og HÍ. Svo langt gekk upphefð þessara manna að aðalkennari vor varð kjörinn biskup yfir Íslandi.

Heimir var einstakur vinur, aldrei fjölyrti hann um hlutina né gagnrýndi, aldrei brást hann í neinu og þegar ég sagði: Af hverju segirðu það Heimir? Þá var svarið: Af því ég þekki þig og þess vegna erum við vinir.

Þýtur í stráum þeyrinn hljótt.

Þagnar kliður dagsins.

Guð er að bjóða góða nótt

í geislum sólarlagsins.

(Trausti Árnason Reykdal)

Guðrúnu ástkærri eiginkonu Heimis og börnum þeirra votta ég samúð mína.

Árni Þorvaldsson.