Einbeittur Valur á fyrir höndum spennandi verkefni gegn Minaur Baia Mare í undanúrslitum Evrópubikarsins. Björgvin er fullur tilhlökkunar.
Einbeittur Valur á fyrir höndum spennandi verkefni gegn Minaur Baia Mare í undanúrslitum Evrópubikarsins. Björgvin er fullur tilhlökkunar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Evrópubikar Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is „Tilhlökkunin er mikil. Þetta er auðvitað stórt fyrir félagið okkar og íslenskan handbolta líka. Ef okkur tækist að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni væri það eitthvað sem allir myndu græða á,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið.

Evrópubikar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Tilhlökkunin er mikil. Þetta er auðvitað stórt fyrir félagið okkar og íslenskan handbolta líka. Ef okkur tækist að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni væri það eitthvað sem allir myndu græða á,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið.

Valur á fyrir höndum fyrri leik sinn í undanúrslitum Evrópubikarsins þar sem rúmenska liðið Minaur Baia Mare kemur í heimsókn á Hlíðarenda næstkomandi sunnudagskvöld.

„Evrópukvöld á Hlíðarenda hafa verið alvöru síðustu ár. Vonandi getum við sýnt að við Íslendingar séum góðir í handbolta, það væri draumur.

Í átta liða úrslitunum sá maður, í nánast fullu húsi, fullt af leikmönnum úr öðrum liðum styðja okkur. Það hjálpar okkur gríðarlega mikið til að sýna okkur og sanna.

Að komast í úrslit væri draumur. Þetta er hörkulið sem við mætum þannig að við þurfum að taka þetta alvarlega,“ hélt Björgvin áfram.

Ekki séð það oft

Síðari leikurinn fer fram í Rúmeníu sunnudaginn 28. apríl. Spurður hvort Valsmönnum hefði þótt betra að byrja á útivelli sagði hann:

„Það er yfirleitt betra. Það hentar betur að vita nákvæmlega hvað þú þarft að gera þegar þú kemur heim, sérstaklega í ljósi þess að þetta er lið frá Rúmeníu og það verður virkilega erfiður útivöllur.“

Hverju má eiga von á frá liði Minaur?

„Þeir eru með mjög góða leikmenn. Þetta er alvörulið. Þeir skora 35-36 mörk í hverjum einasta Evrópuleik. Það hentar okkur ágætlega held ég, vonandi!

Það verður hraði í þessu og það verða læti. Spurningin er hvort liðið nær að stjórna hraðanum því við ætlum líka að skora helling.

Þeir skoruðu 52 mörk í fyrsta Evrópuleiknum sínum á tímabilinu, ég hef ekki séð það oft! Þetta verður hraður og skemmtilegur leikur en vonandi náum við að stjórna hraðanum og gera þetta á okkar forsendum,“ sagði Björgvin.

Tölum okkur ekki niður

Valur mætti einnig rúmensku liði í átta liða úrslitum Evrópubikarsins, Steaua Búkarest. Minaur er sterkara en Steaua að hans sögn.

„Þeir eru með heilsteyptara lið. Þeir eru með fleiri leikmenn og meiri breidd. Þeir eru líka með góðan heimavöll. Það sést þegar maður skoðar myndböndin. Þarna mætum við liði sem er með 2.000 manns og læti í stúkunni.

Við þurfum að jafna það á okkar heimavelli, skila fullu húsi og góðum úrslitum. Fyrst og fremst er þetta gott lið. Þeir eru með landsliðsmenn sem eiga 40-50 landsleiki fyrir ýmsar þjóðir. Þetta eru reyndir menn sem kunna handbolta. En að því sögðu tölum við okkur sjálfa aldrei niður og ætlum að vinna þetta lið. Það byrjar hérna á heimavelli.“

Bakari og plötusnúður

Hvernig gengur að finna jafnvægi við að spila hér heima og í Evrópubikarnum?

„Þetta er svolítið annað apparat. Þetta er svolítið eins og að vinna sem bakari hálfan daginn og sem plötusnúður seinni partinn. Þetta eru tvö ólík gigg.

Þegar þú kemur inn í Valshöllina á þessum Evrópukvöldum þá er blái dúkurinn kominn á gólfið. Þetta er meiri viðburður, þetta er kannski meira eins og að spila fyrir landsliðið. Það er miklu meira húllumhæ í kringum þetta.

Með fullri virðingu fyrir deildinni hérna heima er það bara allt annað verkefni. Nú erum við að koma inn í þann fasa í deildinni hérna að vera komnir í úrslitakeppni og undanúrslit fram undan.

Það fer að líkjast þessu verkefni. Við erum komnir í undanúrslit í Evrópu, undanúrslit á Íslandsmótinu og erum bikarmeistarar.

Við erum að berjast á ansi mörgum vígstöðvum og við njótum þeirrar forréttindastöðu. Við ætlum að njóta næstu vikna, sem verða geggjaðar fyrir Valsmenn og íslenskan handbolta,“ sagði Björgvin.

Í fótspor Mulningsvélarinnar?

Valur er eina íslenska félagsliðið í boltagrein sem hefur komist í úrslitaleik í Evrópukeppni; gerði það árið 1980 í Evrópukeppni meistaraliða og tapaði þar fyrir þýska liðinu Grosswallstadt.

Markvörðurinn reyndi hefur trú á því að núverandi Valslið geti fetað í fótspor Mulningsvélarinnar frá 1980 og komist í úrslitaleik í Evrópukeppni.

„Ég er bjartsýnn á það. Þetta byrjar þegar flautað er til leiks á sunnudag. Ég held að þetta sé, eins og Óskar Bjarni [Óskarsson þjálfari] orðaði svo skemmtilega, góður 50/50-möguleiki.

Þetta er lið sem við getum unnið ef við spilum okkar leik. Ég tel að við séum betri. Ef við náum upp okkar leik þá vinnum við hann. Það er svo ekkert alltaf auðvelt að ná því, hvort sem við erum á heimavelli eða útivelli.

Við erum með gott lið og erum á heimavelli á sunnudag. Við höfum unnið stór lið í Evrópudeildinni hérna heima og staðið í flestöllum liðum. Við erum bara stórir í okkur,“ sagði Björgvin að lokum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson