Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Við erum mjög langt komin og ég veit að það hefur verið sagt áður. Þetta hefur tafist og það eru ýmsar skýringar á því, en við ætlum að klára þetta sem allra fyrst,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu, í samtali við Morgunblaðið.
Ragnhildur er í fyrirsvari fyrir starfshóp sem hefur með höndum að uppfæra samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en í honum sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta og sveitarfélaga. Hún segir að í næstu viku verði farið yfir fjármálaálætlun ríkisstjórnarinnar og fjárhagsramminn þar með skýrari.
„Það eru ýmsar framkvæmdir í gangi á grundvelli sáttmálans og það renna fjárframlög til hans,“ segir hún en þar sem kostnaðaráætlanir hafi farið hækkandi hafi verið ráðist í að uppfæra sáttmálann.
„Við erum að búa til viðauka við sáttmálann, en erum bundin af efni hans og erum ekki að breyta honum. Við förum hins vegar í tímaþáttinn og framkvæmdahraðann, en fjármögnunin er eitt af því sem við höfum rætt mikið,“ segir hún, „en við erum mjög langt komin.“
Uppfærsla sáttmálans hefur tafist mjög, en henni átti upphaflaga að ljúka í júní 2023.