Jónína Þóra Einarsdóttir fæddist á Ísafirði 5. september 1941. Hún lést 25. mars 2024 á Landspítalanum í Fossvogi.
Foreldrar Þóru voru Einar Guðbjartsson, f. 1.1. 1901 á Kollsá í Grunnavíkurhr., N-Ís., d. 15.6. 1991, og Sigrún Jóna Einarsdóttir, f. 26.4. 1907 á Dynjanda í Grunnavíkurhr. N-Ís., d. 17.3. 1994. Systkini Þóru voru Ingi Dóri Einar, f. 29.5. 1939. d. 9.5. 2009, og Guðbjört Jóhanna Guðrún, f. 13.5. 1952.
Einar giftist Karólínu S. Jónsdóttur, f. 21.3. 1903, , d. 10. júní 1932, og eignaðist með henni tvö börn; Sigurgísla Jörgen, f. 15.4. 1930, d. 27.1. 1993, og Ragnheiði Ingibjörgu, f. 30.1. 1932, d. 29.3. 1998.
Eiginmaður Þóru var Ægir Ólason, f. 27.1. 1938 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Óli Guðmundsson, f. 28.6. 1914 í Höfða í Vallahr. S-Múl., d. 26.9. 1995, og Lilja Guðrún Sigurðardóttir, f. 26.8. 1912 á Háarima í Þykkvabæ, d. 12.5. 1983.
Ægir og Þóra gengu í hjónaband 21. maí 1960 og eignuðust fjórar dætur, þær eru: 1) Lilja Hjördís. Maki Guðmundur Jón Helgason. Börn þeirra Ægir, maki Ásta Guðmundsdóttir. Börn Veigar Már, Guðmundur og Ingibjörg Lilja. Bryndís Hildur, maki Joel Wray Sugars, dóttir þeirra er Lilja Rae Sugars. 2) Sigrún Kristín, sambýlismaður Hafþór Júlíusson. Börn: Þór Sigurðsson, maki Hildur Edda Grétarsdóttir. Börn Darri, Kolbrún Gígja, Sigurður Grétar og Finnbogi Þór.
Jónína Þóra, maki Arnar Páll Skúlason. Börn Róbert Þór og Sigrún Birta. Bjarki Már Ólafsson. Maki Estefanía Betancur. Ólafur Ægir Ólafsson, maki Ragnhildur Eir Stefánsdóttir. Börn Emil Óli og Ólafur Marel. Börn Hafþórs eru Rebekka og Benedikt Axel. 3) Hafdís, maki Jan Erik Hougaard. Börn Unnar Ari Baldvinsson, maki Sandra Ýr Dungal. Börn Urður Ylfa og Úlfar Dýri. Aron Elí Baldvinsson. Elísa Margrét Baldvinsdóttir, maki Davis Israel Chavez. Sonur Davis er Davis Israel. Börn Jans eru Nanna Pind Hougaard og Sarah Pind Hougaard. 4) Þóra Guðný, maki Guðjón Kristinsson. Börn Karen, maki Camilo Brito. Agnar, maki Ada Kozicka. Dagur, maki Helga Brynja Árnadóttir, sonur þeirra óskírður. Ragnheiður Ingibjörg.
Þóra vann ýmis verslunarstörf, lengst af hjá gjafavöruverslun Hjartar Nielsen í Templarasundi. Eftir það hóf hún störf hjá Seltjarnarnesbæ þar sem hún starfaði sem félagsmálafulltrúi og kom m.a. að æskulýðsmálum og málefnum eldri borgara sem voru henni afar hugleikin. Hún var virk í félagsstörfum; var í Selkórnum, í kvenfélaginu Seltjörn, kvenfélaginu Öldunni á árum áður og var stofnfélagi slysavarnadeildarinnar Vörðunnar á Seltjarnarnesi þar sem hún sat í stjórn og nefndum til fjölda ára. Þóra sat í fulltrúaráði Eirar frá stofnun þess og fram til dánardags. Hún var í stjórn félags eldri borgara á Seltjarnarnesi sem og í öldungaráði Seltjarnarness. Hún tók auk þess virkan þátt í félagsstarfi Sjálfstæðisfélags Seltjarnarness og gegndi þar formennsku tvö kjörtímabil.
Þóra verður jarðsungin frá Seltjarnarneskirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 15.
Kveðja frá stelpunum þínum.
Ég minnist þín, ó móðir,
þó mér nú sértu fjær.
Þig annast englar góðir
og ungi vorsins blær.
Ég man þær mætu stundir,
er mig þú kysstir hlýtt,
sem vorsól grænar grundir,
og gerðir lífið blítt.
Í faðmi þínum fann ég,
þann frið, er bestan veit,
því það var allt, sem ann ég
þín ástin móður heit.
Þar huggun fann ég hæsta
frá hjarta' er aldrei brást,
því konu gerir glæsta
hin göfga móðurást.
(Eva Hjálmarsdóttir)
Þínar dætur,
Lilja, Sigrún,
Hafdís og Þóra Guðný.
Elsku amma mín.
Þegar ég hugsa til baka um allar þær stundir sem við áttum saman upplifi ég svo mikið þakklæti. Það sem þú skilur eftir þig hjá okkur barnabörnum þínum er mikilvægi fjölskyldunnar. Mikilvægi samverunnar og þess að gefa hvert öðru góðan og dýrmætan tíma. Það er ekkert dýrmætara í æskuminningum mínum en að koma í heimsókn til ykkar afa.
Maður gat gengið að því vísu að hjónabandssælan væri á borðum og allur tíminn í heiminum fyrir þá stund sem við áttum saman. Það var aldrei neitt sem gat truflað samverustundina né nokkuð sem gekk fyrir okkur.
Eins mikið og það hryggir mig að geta ekki kíkt í kaffi til þín framar eða tekið upp símann og hringt í þig bara til að segja þér frá því sem drifið hefur á dagana, þá stekkur bros á vör þegar ég hugsa til síðasta símtalsins okkar og sömuleiðis þegar ég hugsa til síðustu heimsóknarinnar minnar til þín.
Það er nefnilega það sem stendur upp úr. Þessar björtu minningar sem lýsa upp svartnættið sem fylgir sorginni að missa þig.
Daginn sem þú fórst labbaði ég að gangbrautinni við Kirkjubraut á Nesinu þar sem við Óli Ægir gátum alltaf gengið að því vísu að sjá þig veifa til okkar frá skrifstofunni þinni þegar við löbbuðum í Mýrarhúsaskóla forðum daga. Takk fyrir að passa upp á okkur og vera alltaf til staðar fyrir okkur.
Daginn áður sagði ég við Jónínu systur mína þar sem við horfðum á bjartan norðurljósahimininn að nú væru englarnir komnir að sækja þig. Þeir hafa tekið vel á móti þér og leitt þig inn í himnaríki þar sem þú munt vaka yfir okkur öllum. Við hugsum til þín alla daga og lifum í þakklæti fyrir allt það sem þú varst okkur og kenndir. Fjölskyldan er okkur allt. Að rækta tengslin og að gefa okkur tíma til þess að njóta samveru hvert annars er það sem mestu máli skiptir.
Ég elska þig amma. Hvíldu í friði.
Hjónabandssælan fær að bíða þangað til næst.
Bjarki Már Ólafsson.
Elsku heimsins besta amma mín.
Ég er enn að átta mig á því að þú sért farin frá okkur og mér finnst þetta allt mjög óraunverulegt. Núna ert þú fallegasti engillinn á himnum.
Í þessu sorgarferli upplifi ég svo mikið þakklæti fyrir það sem við áttum amma. Samband okkar var einstakt. Það verður erfitt og skrítið að halda áfram með lífið og hafa þig ekki með þar sem þú varst svo stór partur af mínu daglega lífi. Það leið oftast ekki dagur þar sem við töluðum ekki saman og ef það leið einn dagur þá svaraðir þú símanum „jih ég hef ekki heyrt í þér síðan í fyrradag“. Í hvern á ég að hringja og spjalla við á leiðinni heim úr vinnunni núna? Spjallstundirnar okkar voru þær allra bestu og ég geymi þær í hjartanu um ókomna tíð.
Elsku amma mín, þú varst svo einstök, þú varst svo miklu meira en bara amma. Þú varst besta vinkona mín, límið í fjölskyldunni og ástæðan fyrir þeirri ómetanlegu samheldni sem stóra fjölskyldan okkar býr yfir. Þú varst ljósið í lífi okkar og vildir taka svo mikinn þátt í lífi okkar allra. Þú varst svo umhyggjusöm og góð og vildir allt fyrir alla gera og settir sjálfa þig sjaldan (ef einhvern tímann) í fyrsta sæti.
Ég er svo þakklát fyrir vinskapinn okkar, allt spjallið okkar og allar minningarnar. Ég er svo þakklát fyrir að vera alnafna þín og ber nafnið þitt mjög stolt. Róbert Þór og Sigrún Birta tala svo fallega um ömmu Tótu sína og ég er þakklát fyrir að þau eigi minningar af þér og að þau hafi fengið að elska þig. Ástin og kærleikurinn sem þú sýndir þeim var ómetanlegur. Þau hafa alla tíð og munu alla tíð dýrka ömmu Tótu sína eins og mamma þeirra því það er enginn eins og þú.
Á svona tímum er svo fallegt að renna yfir minningarnar í huganum og það er svo margt sem kemur upp eins og samverustundir í Tjarnó og síðar Hrólfsskálamel, fellihýsaferðirnar á sumrin, Spánarferðin sem við fórum saman í til Murcia, þegar þú heimsóttir okkur í Danmörku og allt spjallið þar sem við gátum hlegið og röflað um allt mögulegt.
Þér fannst aldrei vandamál að taka hvíta þvottinn sem ég gat ekki þvegið eins vel og þú því allir sem þig þekktu vita að þú varst töfrakona með hvíta þvottinn og ég tala nú ekki um með straujárnið. Enginn bakar hjónabandssælu eins og þú bakaðir og enginn gerir rækjusalatið eins gott og þú gerðir það. Fallegasta hefðin af þeim öllum er fjölskylduvaggan sem þú undirbjóst fyrir fæðingu nánast allra barna sem hafa fæðst í fjölskyldunni frá því að ég fæddist. Alltaf var amma Tóta klár með borðana (bláa eða bleika), búin að stífpressa öll klæðin utan um vögguna og vaggan stóð alltaf klár á heimilinu þegar komið var heim með nýfætt barn.
Elsku amma mín, ég er svo þakklát fyrir það að hafa fengið að halda í höndina þína síðustu dagana en ég átti ekki von á því að þetta kæmi svona fljótt.
Ég elska þig amma og mun alltaf gera. Minningin um elsku ömmu Tótu okkar mun lifa á mínu heimili um ókomna tíð.
Guð geymi þig, besta vinkona mín.
Jónína Þóra Einarsdóttir.
Elsku amma.
„Ómissandi“ var orðið sem kom mér til hugar þegar við barnabörnin vorum beðin að lýsa þér fyrir 80 ára afmælið þitt. Ekki óraði mig fyrir því að tveimur og hálfu ári síðar sæti ég við hlið þér á Landspítalanum og héldi í hönd þína í síðasta skiptið. Mér þykir enn óraunverulegt að þú sért farin frá okkur og stend mig oft að því að taka upp símann til að hringja í þig og spjalla um allt og ekkert eins og við gerðum svo oft.
Við höfum átt gott og fallegt samband og þá sérstaklega síðustu árin. Þú varst afskaplega dugleg kona en þurftir stundum aðstoð við ýmsa hluti. Ef ég hjálpaði ykkur afa við eitthvað þá þökkuðuð þið alltaf innilega fyrir ykkur. Þegar ég svaraði og sagði „það var ekkert“ svöruðuð þið mér alltaf á móti „jú þetta var heilmikið mál fyrir okkur“. Maður gleymir því oft í dagsins önn hvað litlir hlutir geta skipt miklu máli fyrir annað fólk, en þið, amma og afi, voruð dugleg að minna mig á það.
Við áttum margar góðar stundir saman sem ég mun minnast að eilífu og er virkilega þakklát fyrir. Laufabrauðsgerð í bílskúrnum á Tjarnó, afmælisveislur með púðursykurstertum og hjónabandssælu, öll jólin og áramótin sem við áttum saman, brúðarkjólamátunin mín, brúðkaupsmorgunninn á stofunni hjá Diggu og allar stundirnar sem við áttum saman síðustu mánuði með litlu dóttur minni.
Jólagjafaleiðangrar síðust ára standa einnig upp úr. Þá skelltum við okkur tvær, nú síðast þrjár með dóttur minni, í Smáralindina að kaupa jólagjafir fyrir börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin. Fengum okkur hádegismat og alltaf fékkst þú þér það sama, fisk og franskar. Það verður skrítið að gera það án þín. Það verður svo margt skrítið án þín. Ég er sorgmædd yfir því að hafa þig ekki lengur hjá mér og að dóttir mín fái ekki tækifæri til að kynnast þér, bestu ömmu Tótu, þegar hún eldist. Á sama tíma er ég þakklát fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Ég er þakklát fyrir það að Joel hafi fengið að kynnast þér og fyrir það hvað þér þótti vænt um okkur litlu fjölskylduna.
Ég sakna þín, elsku amma mín, og ég elska þig að eilífu.
Bryndís.
Nú er komið að kveðjustund. Með þakklæti og hlýhug vil ég minnast Þóru Einarsdóttur fyrrverandi tengdamóður minnar. Ég kynntist Þóru þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir 34 árum og skynjaði strax hversu einstök og alúðleg manneskja Þóra var. Hún var kletturinn sem alltaf var til staðar enda mótuð af uppeldi foreldra sinna og átti ættir að rekja að Kolsá og Dynjanda í Grunnavíkurhreppi í Jökulfjörðum.
Það var alltaf notalegt að koma í Tjarnarbólið og síðar á Hrólfsskálamelinn til Þóru og Ægis og taka spjall þar sem málin voru rædd og skipst á skoðunum. Þóra var mjög virk í samfélagsmálum Seltjarnarness og starfaði þar til fjölda ára sem félagsmálafulltrúi og sá síðar um félagsstarf aldraðra þar til hún lauk störfum 67 ára að aldri. Hún tók einnig virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins á Nesinu og sat í nefndum á vegum bæjarins.
Fjölskyldan var Þóru allt og áttu barnabörnin ávallt öruggt skjól hjá ömmu og afa. Ég vil þakka fyrir allar samverustundirnar og ferðalögin sem við fórum saman. Sérstaklega er minnisstætt ferðalag sem við fórum á ættarslóðir Þóru til Grunnavíkur þar sem haldið var ættarmót afkomendanna frá Dynjanda. Þá er mér hugleikin ferð sem við fjölskyldan fórum til Toskana á Ítalíu í tilefni sextugsafmælis Þóru og ferðuðumst við saman vítt og breitt um héraðið.
Að leiðarlokum vil ég þakka Þóru fyrir samfylgdina og allt sem hún var mér og mínum börnum. Um leið votta ég Ægi, dætrunum, barnabörnum og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð. Megi minningin um yndislega konu, Jónínu Þóru Einarsdóttur, lifa.
Dýpsta sæla og sorgin þunga,
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra mál ei talar tunga,
tárin eru beggja orð.
(Ólöf frá Hlöðum)
Ólafur Már Sigurðsson.
Með sorg í hjarta en þakklæti í huga kveð ég Þóru Einarsdóttur.
Vináttan við Þóru og fjölskyldu kviknaði strax í æsku þegar ég og elsta dóttir hennar og Ægis urðum vinkonur.
Það er rúm hálf öld síðan ég fór að venja komur mínar á Tjarnarból 15 og alltaf var mér tekið opnum örmum.
Á þessum árum stofnuðum við vinkonurnar saumaklúbb og ekki að spyrja að Þóru, hún bakaði fyrir okkur púðursykurstertuna góðu sem allir í kringum hana þekkja.
Þóra var félagslynd og tók þátt í ýmsum félagsstörfum bæði hér í bæjarfélaginu sem og annars staðar. Hún starfaði lengi fyrir Seltjarnarnesbæ sem tómstundafulltrúi og síðar öldrunarfulltrúi og sat í ýmsum nefndum fyrir bæinn.
Hún var söngelsk með afbrigðum og var ein af stofnendum kórs kvenfélagsins Seltjarnar sem síðar varð vísirinn að stofnun Selkórsins, en þar sungum við saman í nokkur ár. Margar góðar minningar eru tengdar söngnum, eins og gamlárskvöldin og svo að eitthvað sé nefnt þá var lagið góða Strollan í miklu uppáhaldi hjá Þóru, enda komið frá hennar æskuslóðum.
Þóra átti ættir að rekja til Jökulfjarða og eftir eina af ferðum hennar og fjölskyldunnar á ættarmót í Flæðareyri í Grunnavík komu þau hjón ásamt Lilju og Jónda til okkar í Steinhúsið í Aðalvík. Áttum við þar saman góða daga.
Sumt fólk verður samofið æsku manns og uppvexti og margs að minnast.
Að eiga hlýjar og góðar minningar um góða konu er dýrmætt.
Ég þakka Þóru minni fyrir allt og það sem hún var mér og fjölskyldu minni.
Það er vor í lofti og sumarlandið mun taka vel á móti henni.
Guðrún B. Vilhjálmsdóttir.
Kær vinkona hefur nú kvatt þennan heim. Þóra, eins og ég kallaði hana alltaf, hafði ekki gengið heil til skógar undanfarið. Þóra var mörgum Seltirningum að góðu kunn. Hún starfaði sem öldrunarfulltrúi hjá Seltjarnarnesbæ þegar hún lét af störfum vegna aldurs.
Ég kynntist Þóru í gegnum starf Sjálfstæðisfélagsins á Seltjarnarnesi en hún var mikil sjálfstæðiskona. Hún var yndisleg manneskja, ávallt tilbúin að leiðbeina og hlusta. Hún sá um tómstunda- og félagsstarf aldraðra á Nesinu til margra ára þar sem hún lagði áherslu á fjölbreytni og að ná til fólksins á Nesinu, hún var ávallt hrókur alls fagnaðar.
Ávallt var hægt að leita til hennar um málefni Seltjarnarnesbæjar, hún þekkti samfélagið mjög vel og hafði tekið virkan þátt í að byggja það upp. Hún hafði sterkar skoðanir á málefnum bæjarins. Árið 1990 var hún kjörin í félagsmálaráð, þá sat hún í mörg ár í fulltrúaráði Eirar hjúkrunarheimilis sem fulltrúi bæjarstjórnar og nú síðast í öldungaráði bæjarins. Hún hafði þann eiginleika að kunna að hlusta, því var svo gott að leita til hennar með ýmis mál.
Hún bar hag íbúanna fyrir brjósti. Fólki leið vel í návist Þóru, hún var hæggerð og hógvær, gamansöm og skipti lítt skapi. Mér er þó efst í huga núna mannúðin og góðmennskan, en þessi einkenni voru svo áberandi í fari hennar. Þóra lét sér annt um samborgara sína, ávallt spurði hún um líðan móður minnar þegar við hittumst. Þá var hún ötull sjálfboðaliði í slysavarnadeild Vörðunnar þar sem hún lét sig öryggismál barna og aldraðra varða. Þegar Félag eldri borgara á Seltjarnarnesi var stofnað árið 2015 var hún kosin í varastjórn félagsins, síðan í aðalstjórn og gegndi hún því starfi til ársins 2023.
Þau hjónin bjuggu sér fallegt heimili, fyrst á Tjarnarbóli þar sem þau ólu upp dætur sínar og nú síðast á Hrólfsskálamel. Þrjár dætur þeirra búa á Nesinu. Þetta er samheldin fjölskylda sem hefur látið sig málefni bæjarins varða, það fer ekkert á milli mála hverra manna þær systur eru, heiðarleikinn og hjartahlýjan umvefur þær eins og foreldra þeirra.
Þegar ég tók við starfi bæjarstjóra árið 2009 hvatti hún mig til dáða. Hún aðstoðaði mig við ýmis mál, því hún bjó yfir mikilli reynslu sem fyrrverandi starfsmaður Seltjarnarnesbæjar þar sem hún hafði séð um ýmis störf hjá fjölskyldusviði, meðal annars sá hún um málefni eldra fólksins, sumarstörf unglinga og leikjanámskeið fyrir börnin á sumrin svo eitthvað sé nefnt. Leiðsögn hennar og hvatning er mér nú efst í huga. Við störfuðum saman í stjórn fulltrúaráðsins árið 1994 og þegar hún var síðar kjörin formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga. Ég þakka Þóru samfylgdina, megi góður Guð geyma hana.
Að leiðarlokum minnist ég Þóru með miklum hlýhug og sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Ægis og fjölskyldunnar. Hún lætur eftir sig hlýjar og þakklátar minningar.
Blessuð sé minning Þóru.
Ásgerður Halldórsdóttir.
Það varð mér til happs fyrir meira en 40 árum að ganga til liðs við Sjálfstæðisfélagið hér á Seltjarnarnesi því þar kynntist ég Þóru vinkonu minni, eða Jónínu Þóru Rannveigu, eins ég kallaði hana við hátíðleg tækifæri.
Þóra var tómstundafulltrúi á Seltjarnarnesi þegar ég tók við sem formaður tómstundaráðs og sá hún um félagsstarf ungra sem og eldri borgara. Hún var nokkurs konar kynslóða-brúarsmiður. Sama hvort viðkomandi var 13 ára eða 85 ára, hún átti gott samband við alla.
Þóra var mjög virk í félagsmálum. Sat í stjórn Sjálfstæðisfélags Seltjarnarness og formaður þess í nokkur ár. Hún sat í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi, kjördæmisráði Reykjanes- og síðar Suðvesturkjördæmis og í flokksráði Sjálfstæðisflokksins. Þegar Hjúkrunarheimilið Eir var stofnað var hún kosin í fulltrúaráð Eirar og sat þar allt til dauðadags. Þóra kom að stofnun Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi og sat í stjórn þess þar til á síðasta aðalfundi. Hún sat fyrir hönd félagsins í Öldungaráði Seltjarnarness.
Þóra var ein af stofnendum Slysavarnardeildar kvenna á Seltjarnarnesi, nú Slysavarnadeildin Varðan. Hún sat í stjórn og/eða nefndum alla tíð og var ötul í fjáröflunum deildarinnar og slysavarnaverkefnum. Margar ferðir fórum við í tengslum við slysavarnarmál og var hún hrókur alls fangaðar, kunni að njóta samverunnar með vinum.
Það sem stóð Þóru næst og var henni kærast var fjölskyldan. Hún vildi helst hafa þau öll í kringum sig sem oftast. Fjölskyldubönd okkar tengdust sterkt fyrir meira en þrjátíu árum þegar börnin okkar, Þóra Guðný og Guðjón, fóru að draga sig saman og síðan höfum við eignast saman fjögur barnabörn og eitt barnabarnabarn sem kom í heiminn viku eftir að hún fór í sumarlandið.
Það er stórt skarð höggvið í okkar hóp. Við Þóra vorum nánast í daglegu sambandi og hafa því síðustu dagar verið tómlegir. Ég á eftir að sakna hennar mikið en verð ævinlega þakklát fyrir vináttu hennar.
Elsku Ægir, Þóra Guðný, Lilja, Sigrún, Hafdís og fjölskyldur, ykkar missir er mikill en minningin um einstaka eiginkonu, mömmu, tengdamömmu, ömmu og langömmu er dýrmæt. Við Kiddi og börnin okkar sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur. Megi góður Guð umvefja ykkur.
Farðu í friði, kæra vinkona.
Petrea Ingibjörg
(Peta).
Stjórn Félags eldri borgara Seltjarnarnesi þakkar fyrir það ómetanlega starf sem Þóra innti af hendi í þágu aldraðra á Seltjarnarnesi um áratuga skeið. Ásamt föstu starfi sínu fyrir Seltjarnarnesbæ sat hún í hinum ýmsu stjórnum og ráðum tengdum eldri borgurum. Hún var stjórnarmaður í Félagi eldri borgara Seltjarnarnesi frá stofndegi 2015 og allt fram til þess síðasta. Eins sat hún í öldungaráðinu frá stofnun þess og í fulltrúaráði Eirar fyrir hönd okkar félags. Við sem kynntumst Þóru í gegnum félagsmálin og unnum með henni getum vitnað um einlægan áhuga og vilja hennar til að gera líf eldri kynslóðarinnar líflegra og betra.
Við í stjórn FEBSEL sendum öllum ættingjum Þóru okkar innilegustu samúðarkveðjur.
F.h. stjórnar Félags eldri borgara Seltjarnarnesi,
Kristbjörg Ólafsdóttir.
Þóra blessunin hefur kvatt þennan heim. Við störfuðum náið saman í yfir 20 ár hjá Seltjarnarnesbæ. Þóra var léttlynd að eðlisfari og sá oft ljósu hliðarnar við það sem við vorum að sinna. Hún var næm á þarfir fólks og reyndi að sjá til þess að veitt væri sú aðstoð sem kæmi að notum fyrir fólk með skerta færni. Oft reyndist okkur erfitt að ráða fólk til að sinna aðstoð og þrifum á heimilum. Ein samstarfskona okkar hafði á orði að Þóra væri svo dugleg að ráða fólk nýflutt til landsins í störf að fiskvinnslan mætti fara að vara sig á samkeppninni um vinnuaflið. En hvað um það, hún gaf ekkert eftir og heimsótti oft heimili sem fengu aðstoð. Varð henni stundum tíðrætt um að hún væri eins og landafjandi út um allt Nes þegar hún kom vindbarin inn úr næðingnum sem oft ríkti á hæðinni. Þóra sá einnig um félags- og tómstundastarf eldri borgara af miklum myndarskap og gætti þess að hafa það eins fjölbreytt og efni stóðu til. Í pólitíkinni var hún mjög virk og var fulltrúi í ýmsum nefndum og ráðum. Stundum ofbauð henni samt framtakssemi bæjarstjórnarinnar í hraðahindrunum og taldi að réttast væri að kalla bæjarfélagið Bungunes. Við áttum oft hressilegt spjall yfir kaffibolla um lífið og tilveruna og þar voru hin ýmsu mál krufin. Nú síðast hitti ég hana skömmu fyrir jól í kaffispjalli á bókasafninu og ræddum við þar ástandið í bæjarfélaginu frá okkar bæjardyrum séð. Þótti okkur oft hafa verið betri bragur á bæjarpólitíkinni hér á árum áður. Í lok spjallsins sagði hún mér frá veikindum sínum en virtist taka því af æðruleysi. Ég votta Ægi, dætrum og fjölskyldum þeirra samúð mína.
Snorri Aðalsteinsson.
Elsku Þóra vinkona okkar og Vörðukona. Nú er komið að kveðjustund og viljum við þakka þér fyrir ógleymanlegan og skemmtilegan tíma í félagsskapnum okkar. Þóra var einn af stofnendum Slysavarnadeildarinnar Vörðunnar á Seltjarnarnesi 15. nóvember 1993 og starfaði af fullri virkni í stjórn og/eða nefndum alla tíð. Þau eru mörg verkefnin sem hún tók þátt í á vegum deildarinnar, forvarnaverkefni sem og slysavarnaverkefni að ógleymdum skemmtiferðum hér og um landið.
Þóra vann af mikilli alúð og tryggð við deildina sína og kom með margar hugmyndir til velfarnaðar sem og ný verkefni til fjáröflunar eins og jóladagatalapökkunina sem er stórt og skemmtilegt verkefni. Einnig má nefna spilakvöldin með heldri borgurum á Skólabrautinni sem hún hélt alveg utan um. Þóra var líka potturinn og pannan í mörgum skemmtiverkefnum og eigum við henni margt að þakka í þeim flokki.
Elsku Þóra, það er komið stórt skarð í okkar litla félagsskap og við söknum þess að heyra ekki í þér eða sjá á fundum en við vitum að Sumarlandið hefur tekið vel á móti þér og fært þér ný og göfug verkefni.
Vottum Ægi, dætrum og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð og biðjum Guð að blessa þau og styrkja.
Fyrir hönd Slysavarnadeildarinnar Vörðunnar,
Þórdís K. Pétursdóttir fyrrv. formaður.