Margrét Þorvaldsdóttir fæddist í Hnífsdal 23. september 1928. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 7. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Þorvaldur Pétursson, f. 12.5. 1898, d. 10.1. 1956, sjómaður, og Guðrún Guðjónsdóttir, f. 18.7. 1896, d. 6.7. 1996.

Alsystkin hennar eru: Sesselja Elísabet, f. 1925, Níelsína, f. 1927, d. 2012, Pétur, f. 1930, d. 2014, Finnur, f. 1931, d. 2020, Halldór, f. 1932, d. 2000, Jón Arnór, f. 1933, d. 2012, Gunnar, f. 1934, d. 2020, Jóhanna Stella, f. 1938. Hálfbróðir sammæðra var Guðmundur Skúlason, f. 1921, d. 2005.

Þann 18. júlí 1953 giftist Margrét Bergi Eysteini Péturssyni flugvirkja, f. 8.12. 1926. Hann lést í bílslysi 13.9. 1970. Börn þeirra eru: 1) Guðlaugur Vagn, f. 29.1. 1954. 2) Pétur, f. 8.6. 1955. Kona hans er Friðsemd Rósa Magnúsdóttir, f. 1955. Börn þeirra eru Eysteinn, f. 1980, Magnús, f. 1985, og Fríða Margrét, f. 1989. 3) Hjálmar, f. 1.4. 1957. Kona hans er Ragna Karlsdóttir, f. 1946, og börn þeirra eru Unnur, f. 1982, sonur Bergur Ari, Ari, f. 1982, og Eysteinn, f. 1988, maki Jóhanna Hrund Einarsdóttir, börn þeirra Baldur Breki, Hugrún Ragna og Vigdís Anna. 4) Björg, f. 10.9. 1961. Maður hennar er Hrafnkell V. Gíslason, f. 1960. Börn þeirra eru Margrét Lilja, f. 1989, maki Jóhann Ingi Jóhannsson, dætur þeirra Freyja Vök og Sólveig Birna. Snorri, f. 1993, maki Hekla Sigurðardóttir. Elín Sóley, f. 1998, maki Fannar Pálsson. Eysteinn, f. 1998, maki Alda Lín Auðunsdóttir. 5) Guðrún Lilja, f. 4.1. 1967.

Margrét ólst upp hjá foreldrum sínum til þriggja ára aldurs. Þá fór hún til sumardvalar norður í Furufjörð á Hornströndum til Hjálm-
fríðar Jónatansdóttur og Vagns Guðmundssonar en dvaldist þar í góðu yfirlæti næstu 11 árin. Þá fór hún til Ísafjarðar til fermingarundirbúnings.

Hún var tvo vetur í Reykjaskóla við Djúp. Þaðan fór hún til Reykjavíkur þar sem undirbúið var nám í húsmæðraskólanum að Staðarfelli. Síðan lá leiðin í Hjúkrunarskólann og lauk hún prófi 1.9. 1954. Hún starfaði á Landspítalanum og Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Eftir fráfall Eysteins vann hún hjá Sjúkrasamlagi Kópavogs, Heilsugæslustöð Kópavogs og síðast á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi.

Síðar var Margrét í sambandi við Halldór Bjarnason, f. 7.7. 1930. Hann varð bráðkvaddur 31.7. 1980.

Árið 1961 byggðu Eysteinn og Margrét Hraunbraut 40 í Kópavogi og þar bjó Margrét til ársins 2004. Margrét var einstaklega dugleg kona og stjórnaði heimilinu með miklum myndarbrag.

Í starfi sínu kynntist Margréti vel aðstæðum aldraðra og öryrkja í Kópavogi og vildi vinna að bættri aðstöðu þeirra. Hún var einn af stofnfélögum Soroptimistaklúbbs Kópavogs og vakti athygli klúbbsystra á erfiðum aðstæðum aldraðra í bænum sem m.a. varð til þess að klúbburinn beitti sér fyrir stofnun hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar ásamt öðrum félögum í Kópavogi. Starf Sunnuhlíðar breytti mjög aðstöðu aldraðra í bænum. Hún naut þess að starfa með Soroptimistaklúbbnum og eignaðist þar góðar vinkonur.

Útför Margrétar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 19. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku amma, svo margs er að minnast og margt að þakka fyrir.

Sem manneskja varstu dýrmæt fyrirmynd í lífinu, mjög fylgin þér, seiglan óendanleg, ávallt stutt í húmorinn og góðu ráðin. Þú hafðir sterka lífssýn um að láta gott af þér leiða sem þú sýndir meðal annars í starfi þínu fyrir Sunnuhlíðarsamtökin og með virkri þátttöku í starfi Soroptimistaklúbbs Kópavogs.

Þú varst alltaf mjög áhugasöm um líf okkar barnabarnanna, hlýjan mikil og væntumþykjan skein í gegn.

Ég er þakklát fyrir hvað við áttum alla tíð vel saman og minnist allra heimsóknanna á Kópavogsbrautina þar sem við gátum spjallað lengi. Við höfðum líkan smekk, elskuðum bláan, allt sem er elegant og göngutúra í sólinni á Kársnesinu góða.

Það var þér mikið hjartans mál að fjölskyldan okkar væri samheldin sem hefur skilað sér í góðum hópi og fallegum fjölskylduhefðum.

Það kom því ekki á óvart þegar þú varðst langamma hve gaman þú hafðir af langömmubörnunum þínum. Mér þykir vænt um að dætur mínar fengu að kynnast þér og hvað þið áttuð fallegt samband.

Í heimsókn þinni til Stokkhólms, þegar við tvö af barnabörnunum þínum vorum þar við framhaldsnám, sýndir þú okkur heimsborgarahliðina á þér og við nutum hverrar mínútu. Þarna varst þú 85 ára, lést ekkert stoppa þig og við áttum frábærar stundir sem nú sitja eftir sem dýrmætar minningar.

Karakterinn þinn hélt sér alla tíð og þú komst svo vel að orði þegar þú sagðir að þú værir alltaf sama stelpan þótt aldurstalan hefði eitthvað hækkað.

Með djúpum söknuði vil ég segja hjartans þakkir fyrir allt, elsku amma mín.

Margrét Lilja
Hrafnkelsdóttir.

Amma Margrét var stórkostleg kona. Hún náði einhvern veginn að vera allt í senn, sterk, hlý, þrjósk, skemmtileg, dugleg, stolt, stjórnsöm, eldklár, sjarmerandi, glæsileg og góð, og það yfirleitt allt á sama tíma. Fyrst og fremst var amma þó stuðningsmaður fólksins síns, lagði mikla áherslu á samgang og vináttu innan fjölskyldunnar, gerði bestu kjötsúpuna og hafði ótrúlega lagni á að senda fólk í sólbað nær alveg sama hvernig viðraði, enda örugglega ekki til annar eins sóldýrkandi og amma. Hún hafði líka húmor fyrir sjálfri sér, sem var hægt að nýta til að kippa henni aftur niður á jörðina þegar stjórnsemin tók yfir, sem var yndislegur kostur.

Amma lifði tímana tvenna, ef ekki þrenna, og með ótrúlegum krafti og seiglu flutti hún frá Furufirðinum sínum þar sem hún hafði verið í fóstri, og sem stóð henni ætíð nærri, til að hefja nám. Hún fór í húsmæðraskóla og lærði svo hjúkrun og starfaði við það fag, kom sér upp fallegu heimili á Hraunbrautinni og ól upp fimm börn, að stórum hluta ein eftir sviplegt fráfall afa, þar sem hún missti stoð sína og styttu. Amma ljómaði alltaf þegar hún sagði sögur af þeim afa, og fór ekki á milli mála hversu mikil ást var á milli þeirra og hversu mikið hún saknaði hans.

Amma þurfti að takast á við fleiri áföll en nokkur manneskja á að þurfa að lifa, en hún gafst aldrei nokkurn tímann upp, kunni það ekki, enda var lífsmottóið hennar ætíð að lífið héldi alltaf áfram og það væri val hvort maður fylgdi því eða ekki.

Það voru forréttindi að búa í næstu götu við ömmu nær öll uppvaxtarárin, notalegt að geta bara rölt yfir í heimsókn. Hún lét hlutina svo sannarlega gerast, svo ekki sé meira sagt. Rassakastaðist hægri-vinstri hvort sem það var að fá alla út í kartöflugarð eða taka slátur, hittast í bústað, skella upp grillinu úti í garði og hafa 20 manns í mat eins og ekkert væri sjálfsagðara, hugsa um öll fallegu blómin og svo auðvitað byrjaði hún daginn á að fara í sund, langt fram á tíræðisaldur.

Amma var ein af mínum bestu vinkonum og mér þykir ótrúlega vænt um það hvernig samband okkar þróaðist með árunum. Þegar ég bjó erlendis áttum við regluleg símtöl þar sem var skeggrætt og skrafað um allt milli himins og jarðar og svo var svo gott að sjá hlýja fallega brosið hennar þegar maður var á landinu.

Síðustu árin brást minnið ömmu ætíð meir og meir og að lokum flutti hún inn á Sunnuhlíðina sína sem hún hafði barist fyrir að yrði stofnuð og þótti alltaf svo undurvænt um. Það var því ósköp fallegt að sjá hversu vel hugsað var um hana á Sunnuhlíð og að hún skyldi kveðja þennan heim þar.

Nú þegar komið er að kveðjustund er efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt ömmu að trúnaðarvini, öll samtölin og samverustundirnar, allt uppeldið og hlýjuna og fyrir að hafa átt svona flotta fyrirmynd. Síðast en ekki síst er ég stolt af því að vera afkomandi þessarar glæsilegu og duglegu konu sem mun lifa í hjörtum okkar fjölskyldunnar um ókomna tíð.

Þín nafna,

Fríða Margrét.

Í dag kveðjum við góða konu, Margréti Þorvaldsdóttur, eða hana Möggu Þorvalds, bestu vinkonu mömmu okkar.

Hluti af lífi okkar frá fyrstu tíð.

Þær kynntust við sumarvinnu hvor í sinni versluninni við ofanverðan Skólavörðustíg.

Mamma sagði síðar að það hefðu verið framkvæmdir innarlega í búðinni, þannig að það sumarið hélt hún sig úti á stétt þegar færi gafst. Það var gæfa og þær urðu bestu vinkonur, hún og Magga Þorvalds, út allt lífið.

Magga var mikið hlý, greind, glaðvær og hörkudugleg kona. Hún var að vestan, með takmarkaðan stuðning í borginni. Afi og amma elskuðu þessa frábæru ungu konu og að sjálfsögðu flutti hún inn á Lokastíginn til fjölskyldunnar.

Það var önnur gæfa. Magga byrjaði í hjúkrunarnámi sem hún elskaði og auðvitað fylgdi besta vinkonan, mamma okkar, á eftir. Allt til heilla enda báðar hjúkrunarfræðingar af guðs náð.

Lífinu í Reykjavík var fagnað og farið á Borgina og víðar á dansleiki. Þær voru fjórar nánar vinkonur: Magga Þorvalds, mamma okkar Helga Óskars, Dóra Sigurðardóttir og Kristín Fenger. Stórglæsilegar í blóma lífsins.

Vinkonurnar skelltu sér með strandferðaskipi vestur í Hnífsdal að heimsækja Möggu eitt sumarið. Mikið var hlegið að því í gegnum lífið að ungu stúlkurnar áttuðu sig ekki á því að matur var ekki innifalinn í fargjaldinu vestur. Þær höfðu þegið allan viðgjörning í öll mál. En fjölskylda Möggu bjargaði himinháum reikningi við lok ferðar. Gardínurnar tifuðu þegar drottningarnar gengu um göturnar fyrir vestan. Þær kenndu okkur dýrmæta lexíu um lífið. Þær stóðu svo þétt saman vinkonurnar. Sérstaklega þegar syrti í álinn hjá einhverri þeirra.

Vinátta á erfiðum tímum er fögur. Fegurri en allt.

Með Möggu Þorvalds eru þær allar farnar.

Móðurforeldrar okkar, Óskar Gissurarson og Ingibjörg Ásgeirsdóttir, viðhöfðu sérstaka tóntegund þegar talið barst að Margréti Þorvalds. Sú tóntegund tjáði virðingu og djúpa væntumþykju þeirra og okkar allra. En einnig þakklæti fyrir að þessi sómastúlka úr Furufirðinum varð okkur svo náin og kær.

Að leiðarlokum viljum við þakka fyrir allt hið góða sem hún gaf og var okkur.

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til barnanna hennar og þeirra fólks.

Hvíl í friði, elsku Magga okkar.

Alfreð, Ingibjörg Ósk, Eiríkur og Ferdinand.

Magga nú farin til fundar,

til frelsarans eilífðarstundar.

Hann fagna mun þér,

þig hefur hjá sér,

er lagðist til hinsta blundar.

Þér gefin var seigla og styrkur,

þó stormur þér mætti og myrkur.

Þú áttir þér lind,

varst sterk fyrirmynd

og hugurinn kvikur og virkur.

Þú heilsteypta hjúkrunarkona,

sem hjálpaðir mörgum að vona,

við kveðjumst nú hér

og þökk færum þér,

en lífið það endar víst svona.

(SGS)

Skólasystur úr Hjúkrunarskólanum,

Hjördís Briem, Jónína Níelsen og Sigríður Th. Guðmundsdóttir.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Það var í júní árið 1975 að nokkrar hressar og kátar konur stofnuðu Soroptimistaklúbb Kópavogs. Ein af þessum kjarnakonum var Margrét Þorvaldsdóttir, sem við kveðjum hér í dag.

Á upphafsárum klúbbsins átti klúbburinn stóran þátt í stofnun Sunnuhlíðarsamtakanna og tók Margrét virkan þátt í þeirri stofnun. Hún var hjúkrunarfræðingur og vissi hve þörfin á hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Kópavogi var mikil. Þá var lyft grettistaki í öldrunarmálum í Kópavogi.

Þegar systur í klúbbnum eru spurðar hvers þær minnast um Margréti segja margar að hún hafi tekið svo vel á móti þeim þegar þær gengu til liðs við klúbbinn. Ljúfmennska og brosið hennar var það sem þær minnast.

Margrét hefur lítið getað tekið þátt í starfi klúbbsins undanfarin misseri vegna veikinda en við minnumst allra samverustunda með henni. Starfa fyrir klúbbinn okkar, ferðalaga, gróðursetningar í Systrabotnum, klúbbfunda og SnúSnú-hópsins.

Eftir sitjum við með sorg og söknuð í hjarta. En við eigum góðar minningar um Margréti sem enginn getur tekið frá okkur. Minningarnar um hana eru perlur sem við geymum innst í hjarta. Við þökkum yndislegar samverustundir með henni og biðjum Guð að styrkja börnin hennar og fjölskyldur þeirra.

Fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Kópavogs,

Gunndís,

Hrafnhildur B. og Þóra.