Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Eng­inn var til að tryggja að eft­ir­lit væri nægj­an­legt þannig að ekki væri verið að stofna til út­gjalda eða greiðslur væru innt­ar af hendi án þess að sann­ar­lega lægi fyr­ir samþykki stjórn­ar fyr­ir þeim

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Eng­inn var til að tryggja að eft­ir­lit væri nægj­an­legt þannig að ekki væri verið að stofna til út­gjalda eða greiðslur væru innt­ar af hendi án þess að sann­ar­lega lægi fyr­ir samþykki stjórn­ar fyr­ir þeim. Bæði á þetta við um greiðslur úr fé­lag­inu sjálfu sem og ólík­um sjóðum þess,“ seg­ir Sig­ríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, BÍ.

Vísar hún þar til úttektar KPMG á fjár­mál­um fé­lags­ins árin 2014-2023 sem kynnt var á aðalfundi þess í vikunni. End­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­ið tel­ur að víða hafi verið pott­ur brot­inn þegar kemur að innra eft­ir­liti með fjár­mál­un­um.

Meðal ann­ars kom fram á fund­in­um að Hjálm­ar Jóns­son, fyrr­ver­andi formaður og fram­kvæmda­stjóri BÍ, hefði alls milli­fært á sjálf­an sig 28 sinn­um og nefnt það fyr­ir­fram­greidd laun. Milli­færsl­urn­ar voru sagðar vera um níu millj­ón­ir króna í heild á sjö ára tíma­bili og upp­hæð þeirra á bil­inu 100 þúsund til 1,5 millj­ón­ir króna. Milli­færsl­urn­ar end­ur­greiddi hann í öll skipt­in, án vaxta, en mest liðu sjö mánuðir þar til hann greiddi til baka. Hvorki fyr­ir­fram­greiddu laun­in né end­ur­greiðslur komu fram á launa­seðli, að sögn end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­is­ins.

Eins kom fram í út­tekt­inni sem kynnt var á fund­in­um að Hjálm­ar hefði keypt tíu tölv­ur og átta síma á tíu ára tíma­bili án þess að feng­ist hefði fyr­ir því samþykki. Hjálm­ar var sagður hafa einn haft aðgang að því að samþykkja reikn­inga og greiða þá. Að sögn Sig­ríðar Dagg­ar verður stjórn fé­lags­ins falið að vinna málið áfram og meta réttu viðbrögðin við því sem kom í ljós.

„Það var allt með eðli­leg­um hætti,“ sagði Hjálm­ar þegar hann var spurður um málið í gær. Í kjölfar þess að frétt birtist um málið á mbl.is í gær sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem hann tók fram hann hefði aldrei millifært á sig fé heimildarlaust.

„Ég hef ekki enn fengið, ótrúlegt en satt, skýrslu KPMG þar sem tekin eru saman atriði úr rekstri BÍ síðastliðin tíu ár, en hef gert ráðstafanir til að fá hana til að geta svarað ásökunum sem á mig eru bornar lið fyrir lið,“ sagði Hjálmar sem kvað þær upplýsingar sem bornar voru undir hann í fréttinni vera mun ítarlegri en hann hefði greint á aðalfundinum.

Hjálmar kvaðst vissulega hafa greitt sér og öðrum laun fyrir fram í einangruðum tilfellum ef á hefði þurft að halda. Það bæri góðum atvinnurekanda að gera. Hann hefði ekki fengið akstursstyrk aukalega en sérstaklega hefði verið greitt fyrir akstur vegna þjónustu við orlofshús félagsins. Þá hefði ekkert verið athugavert við kaup á tölvum fyrir formann og verkefnastjóra. „Málefnafátæktin ríður ekki við einteyming og þau atriði sem nefnd eru eru svo fáfengileg að engu tali tekur og eru sannarlega kaldar kveðjur eftir 35 ára árangursríkt starf í þágu félagsins.“

Höf.: Viðar Guðjónsson