Þórir S. Gröndal
Þórir S. Gröndal
Í dagblöðunum eru oft heilsíðuauglýsingar frá nýjum elliheimilum þar sem státað er af öllum flottheitunum sem þau bjóða upp á.

Þórir S. Gröndal

Hvað á að gera við allt þetta gamla fólk? Það er spurningin sem stendur í mörgum frammámönnum í fjölmörgum löndum heims í dag. Læknavísindin hafa lengt lífið hjá milljónum en gamlingjarnir þurfa stöðugt að gleypa í sig alls kyns lyf til að halda líftórunni. Það gleður lyfjafyrirtækin, sem maka krókinn sem aldrei fyrr. Svo streitast heilbrigðisyfirvöldin við að byggja fleiri elli- og hjúkrunarheimili, sem gengur illa, og allt of mörg gamalmenni fylla rúm spítalanna.

Hér í Ameríku er það næstum eingöngu einkaframtakið sem sér um byggingu og rekstur á elliheimilum. Og gæði þeirra fara skiljanlega eftir því hve dýrt er að búa á þeim. Hérna virðist svo sannarlega ekki vera neinn skortur á plássum fyrir gamlingja. Í dagblöðunum eru oft heilsíðuauglýsingar frá nýjum elliheimilum þar sem státað er af öllum flottheitunum sem þau bjóða upp á. Sagt er að elliheimilabransinn sé feikigróðavænn.

Mitt hús er í litlu fallegu hverfi sem ber nafnið Aldingarður (Orchard). Eins og nafnið ber með sér eru hér fagrir blómagarðar og trjágróður mikill ásamt þremur tjörnum þar sem gæsir verpa. Hér er líka félagsheimili eða klúbbhús þar sem er bókasafn, aðstaða til heilsuræktar og samkomusalur. Þarna fer fram alls kyns afþreying og haldnar eru nokkrar samkomur á ári en því miður ekkert þorrablót.

Hér eru 144 íverustaðir og giska ég á að 80% íbúanna séu yfir 70 ára, mest ekkjur og nokkrir ekklar en líka nokkrar konur sem enn eru með lifandi eiginmenn. Þetta er fólk sem búið er að vinna sitt ævistarf og reynir nú að njóta elliáranna. Ég hefi stundum sagt í gamni að það væru bara tvær leiðir til að yfirgefa Aldingarðinn: Þú getur dáið og ferð þá vonandi til himna, en ef þú ferð héðan lifandi, þá liggur leiðin á elliheimili.

Við ætlum ekki að ræða meira um þá sem fara í himnaferðina því þeir eru satt að segja lausir allra mála. Heldur ætlum við að einbeita okkur að þeim sem enn eru sprelllifandi. Eins og ég nefndi áður, þá er meirihluti elliheimila hér einkarekinn. Fjárfestingasjóðir eiga og reka keðjur af slíkum stofnunum víða um land og græða á þeim stórfé.

Undir samheitinu elliheimili eru þrjár tegundir stofnana. Á öldrunarheimilum dvelja gamlingjar sem enn geta séð sér farborða. Þessar stofnanir eru margar feikiflottar, rétt eins og lúxushótel. Þarna eru matsalir með gengilbeinum, bíó, bókasöfn, leikfimisalir og oft sundlaugar. Stundum eru þar vínbarir og reglulega eru haldnar glaumstundir. Þeir sem ennþá aka eru með sínar eigin bifreiðir. Heimilið er með prívatstrætó sem ekur fólkinu í verslanir og líka er stundum farið með það í dagsferðir. Gestirnir búa í litlum íbúðum og þarna kostar 5-6 þúsund dollara (700.000-840.000 krónur) á mánuði að draga fram lífið.

Þeir sem ekki geta lengur séð um sig sjálfir, klætt sig, baðað og þess háttar fara á ellisjúkrahæli þar sem þeir fá fulla umönnun. Þarna er ekki eins „gaman“ að vera og á öldrunarheimilunum en samt kostar það meira. Þriðja tegund elliheimilanna er fyrir öldunga sem eru með einhvers konar heilahrörnun eins og til dæmis alzheimer. Ég kalla þessar stofnanir heilahæli. Þar er dýrast að dvelja, minnst 10 þúsund dalir (1.400.000 krónur) á mánuði.

Veran í Aldingarðinum endar oft á þann veg að viðkomandi veikist eða dettur og endar á spítala. Byltur og beinbrot eru mjög algengar orsakir spítalavistar hér. Þegar öldungurinn hefir náð bata álykta ættingjarnir oft að hann geti ekki séð um sig sjálfur og búið einsamall. Þá er farið út að skoða elliheimili. Eðlilega eru þau ekki öll eins flott og lýst er hér að ofan. En á langflestum þeirra virðist ekki vera skortur á plássi.

Nokkrir af nágrönnum mínum sem ekki geta lengur búið einir hafa ekki viljað fara á elliheimili. Þess í stað ráða þeir sér hjálparmanneskju sem býr heima hjá þeim og annast um þá. Vandinn er sá að það er ekki auðvelt að finna svona starfsfólk sem kann til slíkra verka og kostnaðurinn er mjög mikill. Örsjaldan heyrir maður um öldruð foreldri, sem flutt hafa inn á heimili barna sinna. Það er ekki alltaf spurning um hvort pláss sé til reiðu heldur eru börnin ekki tilbúin til að hugsa um pabba gamla eða mömmu enda getur það verið bæði erfitt og tímafrekt.

Eins og þið getið séð hér að ofan er mjög dýrt að dvelja á elliheimilum hér. Þær stofnanir sem ég hef lýst eru á svæði þar sem býr að langmestu leyti millistéttarfólk. Hafa ber í huga að allir eldri en 65-70 ára fá ellilífeyri frá ríkinu. Hann er nokkuð mismunandi eftir því hvernig viðeigandi hefur þénað á starfsævinni, 2-4 þúsund dalir á mánuði. Nágrannar mínir sem flutt hafa á elliheimili hafa selt hús sín og dugar andvirðið til að greiða leiguna í nokkur ár. Svo sparast líka matarinnkaup, skattar, rafmagn og margt fleira. Flestir Ameríkanar leggja fyrir fé til elliáranna og eiga því margir digran sjóð þegar að starfslokum kemur. Allt þetta útskýrir að nokkru hvernig þeir hafa efni á að dvelja á elliheimilum.

Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku.

Höf.: Þórir S. Gröndal