Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Hægagangur er í kjaraviðræðum BSRB við ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um endurnýjun kjarasamninga. Flestir samningar á opinbera markaðinum runnu út í lok mars. „Okkar vonir stóðu til þess að við yrðum löngu búin að þessu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.
Sameiginleg mál allra 19 aðildarfélaga bandalagsins eru á borði BSRB í viðræðunum. Kröfur um breytingar á vaktavinnu vega þungt í þeim viðræðum en Sonja segir að vonandi sjáist til lands í þeim. Lengra virðist hins vegar í að niðurstaða náist um að tekin verði markviss skref í jöfnun launa á milli markaða. BSRB-félögin hafa lýst því yfir að samningar verði ekki undirritaðir nema gengið verði frá því með skýrum hætti.
„Við höfum gert það sem forsendu fyrir því að undirrita kjarasamninga að gengið verði frá áfangasamkomulagi varðandi jöfnun launa á milli markaða. Það samtal hefur gengið mjög hægt,“ segir Sonja. Ágreining stéttarfélaganna og opinberra launagreiðenda um hvernig standa eigi að jöfnun launa á milli markaða má rekja allt aftur til ársins 2016 þegar samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda var gert. Í 7. grein segir að unnið verði að því að jafna laun einstakra hópa almenns og opinbers vinnumarkaðar en enn hefur ekki tekist að leiða það til lykta. Sonja segir ganga mjög hægt í viðræðum um jöfnun launa og sýn aðila sé mjög ólík á hvernig eigi að nálgast þetta.
Spurð hvort farið sé að ræða um að vísa viðræðunum til ríkissáttasemjara segir Sonja að ekki sé ennþá komið að því „en ég finn það mjög sterkt að það er orðin meiri ókyrrð hjá aðildarfélögunum að þetta sé að ganga allt of hægt. Það þurfi alla vega að fara að sjá til lands í þessum sameiginlegu málum svo hægt verði að ganga hratt og örugglega frá öðrum. Ef það skýrist ekki þá dregst þetta allt saman og þá verður kannski þetta samtal tekið upp.“
Auk viðræðna um sameiginleg mál eiga aðildarfélögin sjálf í viðræðum við viðsemjendur sína um einstakar kröfur og sérmál.
Meginmarkmið félaganna er að stemma stigu við vaxandi verðbólgu og vöxtum. Sonja segist telja að heilt á litið gangi samtöl aðildarfélaganna við ríkið, sveitarfélögin og Reykjavíkurborg ágætlega.