„Atvinnuveganefnd ræddi þetta mál við starfsmenn matvælaráðuneytisins og fór yfir það. Það er óvenjulegt að svona lagað komi upp, ég hef ekki heyrt um það áður að ráðherra setji ofan í við löggjafarvaldið,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson formaður nefndarinnar í samtali við Morgunblaðið.
Fulltrúar ráðuneytisins mættu á fund nefndarinnar í gær til að ræða bréf sem fyrrverandi matvælaráðherra sendi nefndinni, þar sem breyting á búvörulögum sætti gagnrýni og m.a. kvartað yfir því að sérfræðingar ráðuneytisins hafi ekki verið ekki kallaðir á fund nefndarinnar við afgreiðslu málsins þar.
„Á fundinum komu fram ábendingar en engar efnislegar athugasemdir og heldur ekki gerðar neinar athugasemdir við málsmeðferðina,“ segir Þórarinn Ingi.
Var þá ekki meiri innistæða fyrir gagnrýninni en þetta?
„Greinilega ekki,“ segir hann, en nefnir að þó hafi verið bent á misræmi í lagatexta og lögskýringagagni í nefndaráliti sem hann segir vera „smotterí“. Málinu segir Þórarinn Ingi lokið af hálfu atvinnuveganefndar og matvælaráðuneytisins og ekkert meira um það að segja. Spurður álits á að matvælaráðuneytið hafi sent nefndinni tóninn vegna þessa máls sagðist Þórarinn Ingi ekkert skilja í því.
„Það verða aðrir að svara því hver tilgangurinn með þessu var. Þetta hefur ekki gerst áður og okkur þótti mjög sérstakt að þetta kæmi upp,“ segir Þórarinn Ingi. oej@mbl.is