Björg Ragnheiður Sigurðardóttir fæddist í Streiti í Breiðdal 9. febrúar 1940. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 31. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Sigurður Guðmundsson, f. 8. maí 1914, d. 9. apríl 2002 og Þórey Birna Runólfsdóttir, f. 28. september 1919, d. 20. janúar 1998. Systkini Bjargar eru Sigfríð Ólöf Sigurðardóttir, f. 12. apríl 1941, maki Tómas Ólafsson. Rannveig Hjördís Sigurðardóttir, f. 27. janúar 1945, maki Óskar Björgvinsson. Þór Sævar Sigurðsson, f. 17. júlí 1948, maki Halldóra Guðmundsdóttir.

1. ágúst 1959 giftist Björg Ásgeiri Einarssyni, f. 11. desember 1936. Foreldrar Ásgeirs voru Einar Ásgeirsson, f. 16. ágúst 1902, d. 30. júlí 1996 og Margrét Þórðardóttir, f. 22. ágúst 1907, d. 6. janúar 1999.

Börn Bjargar og Ásgeirs eru: 1) Þórey Birna, f. 1958, maki Vignir Baldursson og börn þeirra eru Björg Ragnheiður, f. 1980, maki Trausti Þorgeirsson, Arna, f. 1984, sambýlismaður Sveinn Baldvinsson, Katrín, f. 1990, maki Lárus Jón Björnsson, Margrét, f. 1993, sambýlismaður Gústaf Þór Másson. 2) Einar, f. 1959, maki Þórdís Dröfn Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Ásgeir Ingi, f. 1985, Kristján Ingvi, f. 1985, Eydís Inga, f. 2000. Sonur Einars er Daði Freyr, f. 1981, maki Dagbjört Jóhannesdóttir. 3) Margrét, f. 1962, maki Gunnar Guðjónsson. Börn þeirra eru Arnar Elí, f. 1992, Daníel Ingi, f. 1995, Ragnheiður Erla, f. 1998. Sonur Margrétar er Birgir Þór Gylfason, f. 1982, maki Jórunn S. Gröndal. 4) Ásgeir, f. 1972, maki Hilde Søvik. Dóttir Hilde er Malin Søvik. Börn Ásgeirs frá fyrra hjónabandi eru Dagmar Sif, f. 1998, Örn, f. 2000, Ásgeir Þór, f. 2004. Langömmubörn Bjargar eru 17 talsins.

Björg stundaði nám í Laugarnesskóla. Lengst af var hún heimavinnandi húsmóðir. Starfaði um skeið hjá Samvinnutryggingum, Almennu verkfræðistofunni og við veisluþjónustu.

Útför Bjargar fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 19. apríl 2024, kl. 13.

Elsku Björg.

Þú þurftir aldrei mikinn undirbúning fyrir þín fjölmörgu ferðalög í gegnum tíðina. Eins var það nú þegar síðasta ferðin var farin, enginn aðdragandi, þú bara lagðir í hann.

Ég man að ég var kvíðinn að hitta þig fyrst, hafði heyrt sögur af erfiðum tengdamæðrum. En það reyndist ástæðulaust því ljúfari og yndislegri manneskja er vandfundin. Þú tókst mér strax vel og alla tíð áttum við mjög gott samband.

Ung kynntist þú Ásgeiri þínum og þar hófst ykkar langa samferð. Þið voruð aldeilis ekki að tvínóna við hlutina. Þegar þú ert 22 ára eruð þið komin með þrjú börn. Strax var hafist handa við að búa þessari fjölskyldu gott heimili, það kunnir þú svo sannarlega. Fyrst á Sogavegi 100 en síðar í Vorsabæ 12. Þar áttuð þið ykkar bestu ár. Heimilið og ekki síst garðurinn voru glæsileg enda ófá handtök og umhyggja þar að baki. Ætíð var gestkvæmt á ykkar heimili enda þið höfðingjar heim að sækja. Þegar árin fóru að segja til sín fluttuð þið ykkur í Árskóga 6. Heilsubrestur ykkar beggja leiddi ykkur loks á Hrafnistu Laugarási. Þar leið ykkur vel. Gaman var að sjá þegar litla netta höndin þín leitaði ósjálfrátt í stóru krumluna hans Ásgeirs og þannig genguð þið tignarleg, hönd í hönd, um gangana, þannig að eftir var tekið.

Oft er talað um að lifa lífinu lifandi, það var enginn skortur á því hjá ykkur Ásgeiri. Ferðagleðin ótrúleg, ekki stoppaði það ykkur að vera með lítil börn, þau voru tekin með. Síðar keyptir ferðavagnar, húsbílar, hjólhýsi og flestar helgar sumarsins nýttar. Harmonikkan var þá oft dregin fram og sungið og jafnvel dansað. Dansinn var ykkar yndi alla tíð og vandfundið glæsilegra par á gólfi. Á veturna var það svo Kanarí. Í yfir 40 ár var farið, yfirleitt með góðum vinum. Við, hluti barna þinna og tengdabarna, vorum svo lánsöm að vera með ykkur í síðustu ferðinni þangað. Þar fagnaðir þú 80 ára afmæli þínu. Gaman var að sjá hvað ykkur leið vel þar, þekktuð hvern krók og kima og ljómuðuð þegar þið rifjuðuð upp gamlar minningar þaðan.

Elsku Björg, takk fyrir allt.

Vignir.

Til þín, amma.

Náttborðið með öllum fallegu skartgripunum, gullskórnir þínir og allar fallegu stytturnar í stóru brúnu hillunni inni í stofu í Vorsabæ. Þú að skera brauð með heimagerðri kæfu á innbyggða brettinu, kökusneið og framandi nammi frá útlöndum inni í búri. Ferðalag með ykkur afa á jeppanum og ég, Arna systir og Birgir frændi í skottinu að syngja lag með Lynn Andersen á hæsta. Sólbað á bak við hús í Vorsabæ og rósailmur frá gróðurhúsinu. Matarboðin á barnaborðinu og þú og afi að dansa á teppinu með stóra rósamynstrinu.

Svona man ég eftir þér elsku amma og nafna mín.

Þín

Björg Ragnheiður.

Felldu ekki tár þó að hún sé farin

brostu því hún lifði

Lokaðu ekki augunum í þeirri von að hún komi aftur

opnaðu augun og sjáðu allt sem hún skildi eftir

Sýndu ekki depurð þó að þú sjáir hana ekki

fylltu hjartað af þeirri ást sem hún gaf okkur

Snúðu ekki baki við morgundegin um og lifðu ekki í eftirsjá

fagnaðu morgundeginum vegna upplifana gærdagsins

Mundu ekki aðeins að hún sé farin

hlúðu að minningu hennar og veittu henni líf

Gráttu ekki né lifðu í tómlæti og þögn.

Gerðu það sem hún hefði viljað:

brostu, opnaðu hjartað, elskaðu og njóttu lífsins.

(David Harkins – þýtt og stílfært á íslensku)

Í dag kveðjum við elsku ömmu okkar. Við erum þakklát fyrir þær góðu stundir sem við áttum með henni og þá umhyggju sem hún sýndi okkur. Hún var lífsglöð, skemmtileg og naut sín best umvafin ástvinum. Síðustu árin var líkami ömmu okkar lúinn og núna fær hún þá hvíld sem hún verðskuldaði.

Elsku amma, þín verður sárt saknað en við munum varðveita hlýjar og góðar minningar um einstaka konu. Elsku afi, hugur okkar er hjá þér.

Hvíl þú í friði amma.

Daði Freyr, Kristján Ingvi, Ásgeir Ingi, Eydís Inga.

Elsku amma.

Það var alltaf svo hlýlegt að koma til þín, tókst alltaf svo vel á móti öllum. Ég gat alltaf treyst á að fá marmaraköku, kryddbrauð og djús hjá þér.

Minningarnar eru óteljandi, ég mun aldrei gleyma því þegar ég gisti hjá ykkur í Vorsabæ og þú nuddaðir lappirnar á mér með heitum þvottapoka þangað til ég sofnaði og þegar við fengum að gista í húsbílnum með ykkur. Þú dekraðir við alla í kringum þig.

Þú varst alltaf svo fín og flott, alveg fram á síðustu stundu. Ég átti svo sannarlega glæsilegustu ömmu í heimi.

Minningarnar munu hlýja mér um hjartarætur alla tíð og mun ég segja strákunum mínum frá því hversu yndisleg amma þú varst!

Elska þig.

Margrét Vignisdóttir.

Elsku amma, sem bakaði bestu pönnukökurnar, bjó til ljúffengustu heimagerðu kæfuna og ræktaði fallegustu og best ilmandi bleiku rósirnar í gróðurhúsinu sínu, er farin frá okkur.

Allar góðu minningarnar ylja mér um hjartað. Þú varst einstaklega gestrisin, tókst alltaf vel á móti öllum, fólk kíkti rétt við hjá ykkur afa og þér tókst að framreiða kaffihlaðborð með glæsilegum veitingum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þú varst alltaf svo róleg og yfirveguð með góða nærveru og öllum leið vel í kringum þig.

Þín verður sárt saknað.

Þín

Arna.

Elsku besta amma.

Ég á svo notalegar minningar úr Vorsabænum þegar ég kom til þín og afa. Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur, lagðir fínan dúk á borðið, settir alls konar góðgæti í fallegar skálar og svo sátum við og kjöftuðum um hitt og þetta.

Sérstaklega var gaman að koma til ykkar þegar sólin skein og við sátum fyrir utan hjá ykkur, fengum að vökva inni í gróðurhúsi, lékum okkur í kringum gerviálfana í beðunum og kíktum í skúrinn til afa.

Strákarnir mínir voru líka heppnir að hafa fengið að kynnast þér. Þeim fannst alltaf svo gott að koma til þín.

Elsku amma, takk fyrir alla hlýjuna, knúsin og fallegu orðin. Ég trúi því heitt og innilega að þú fylgist áfram með okkur öllum í fallegum kjól á góðum stað.

Þín verður sárt saknað.

Katrín og strákarnir.