Samningur Vinnubúðirnar eru þægilegar fyrir notendur, með góðri einangrun, vídd, lofthæð, hljóðvist, lýsingu og kyndingu.
Samningur Vinnubúðirnar eru þægilegar fyrir notendur, með góðri einangrun, vídd, lofthæð, hljóðvist, lýsingu og kyndingu.
Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) munu í vor og í sumar fá afhentar sérmerktar vinnubúðir frá Stólpa Gámum vegna stórra framkvæmda sem eru fram undan. Einingarnar eru framleiddar af samstarfsaðila Stólpa Gáma til margra ára, austurríska fyrirtækinu…

Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) munu í vor og í sumar fá afhentar sérmerktar vinnubúðir frá Stólpa Gámum vegna stórra framkvæmda sem eru fram undan. Einingarnar eru framleiddar af samstarfsaðila Stólpa Gáma til margra ára, austurríska fyrirtækinu Containex, en skrifað var undir samning um afhendingu á vinnubúðunum í vikunni.

Börkur Grímsson, framkvæmdastjóri Stólpa Gáma, segir í samtali við Morgunblaðið að ÍAV hafi gert verðkönnun í aðdraganda samningsins. Hann segir að gæði eininganna og sveigjanleiki til að bregðast hratt við hafi ráðið miklu. Það komi meðal annars fram í því að einingarnar verði merktar með litum ÍAV, í tilefni af 70 ára afmæli félagsins á árinu. Samningurinn felur einnig í sér að Stólpi mun þjónusta ÍAV með vinnubúðaeiningar vegna verkefna á öllum sviðum mannvirkjagerðar.

Aðspurður segir Börkur að samningurinn sé stór á íslenskan mælikvarða, þar sem ÍAV séu með mikil umsvif í stórum verkefnum hér á landi, bæði í mannvirkja- og gatnagerð. Hann vill þó ekkert fullyrða um fjölda eininga en segir að að gera megi ráð fyrir að þær verði taldar í hundruðum.

Jafnast á við íbúðarhúsnæði

„Það hefur átt sér stað mikil þróun í vinnubúðum af þessu tagi, frá því að þær voru nánast kuldalegir vinnubúða-gámar. Gæðin eru hins vegar orðin þannig að þetta eru vel einangruð hús og allur frágangur að innan jafnast á við íbúðarhúsnæði,“ segir hann spurður nánar um gæðin.

Að hans sögn er aðalbreytingin frá því sem áður var að vinnubúðir nú til dags hafi meiri vídd, lofthæð og betri hljóðvist.

„Þessar vinnubúðir hafa ekki neinar hitasveiflur eða neitt slíkt sem gæti gert vistina óþægilega, enda þurfa eigendur að nota þær yfir margra ára tímabil á alls konar vinnusvæðum. Einnig uppfylla þessar húseiningar allar eðlilegar kröfur sem gerðar eru til þeirra. Hafa góða lýsingu, kyndingu og hljóðvist,“ segir Börkur að lokum. arir@mbl.is