Sigríður Sveinsdóttir fæddist í Bræðratungu í Biskupstungum 10. desember 1932. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi 10. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Sveinn Hjörleifsson, f. 14 . september 1904, d. 14. febrúar 1978, og Elín Arndís Sigurðardóttir, f. 12. maí 1904, d. 24. mars 1969.

Systkini hennar eru: Margrét, f. 1931, Ingigerður, f. 1935, d. 1935, Sigurður, f. 1936, Elías Hjörleifur, f. 1938, Hilmar Leifur, f. 1940, Svanhildur, f. 1943.

Sigríður ólst upp í faðmi fjölskyldu sinnar, fyrst í Bræðratungu og síðan flytja þau að Drumboddsstöðum í Biskupstungum. Árið 1935 flytur Sigríður með fjölskyldu sinni á Selfoss þar sem hún bjó allar götur síðan. Sigríður starfaði mestalla tíð við verslunarstörf, lengst af hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi þar sem hún hóf störf 14 ára gömul. Árið 1953 fór hún í St. Kestrup husmandsskole í Danmörku og þremur árum síðar, 1956, fór hún í vist sem stofustúlka í Englandi.

Hinn 1. janúar 1960 giftist Sigríður Lárusi Jóhannssyni, f. 5. maí 1933, d. 5. maí 2015. Þeirra börn eru: 1) Elín Arndís, f. 1956, maki Guðmundur Jósefsson, f. 1956, börn þeirra: a) Jósef Geir, f. 1978, b) Lárus, f. 1981, maki Ingunn Helgadóttir, f. 1987, sonur þeirra Arnar Magni, f. 2016, c) Bjarki Þór, f. 1985. 2) Jónína, f. 1959, maki Sigurður Traustason, f. 1954, börn þeirra: a) Helgi Alexander, f. 1981, maki Sigrún Kristjánsdóttir, f. 1982, börn þeirra: Lukka, f. 2010, og Máni, f. 2012, b) Margrét Lára, f. 1984, maki Maximillian Felix Pel, f. 1988, börn þeirra: Trausti Roland, f. 2019, og Kári Marten, f. 2021. 3) Sveinn Elfar, f. 1962, maki Guðbjörg Eiríksdóttir, f. 1962, börn þeirra: a) Sigríður Elfa, f. 1983, börn hennar: Ane Magdalene, f. 2011, Aron Elfar, f. 2011 og Adrian Alexander, f. 2015, b) Eiríkur Heiðar, f. 1986, maki Ingrid Knutsen, f. 1986, börn þeirra: Saga, f. 2009, Ari, f. 2014, Karl, f. 2018 og Svein Helge, f. 2020, c) Sigurjón Bjarni, f. 1998. 4) Jóhanna, f. 1965, börn hennar: a) Florence Jónína, f. 1999 og Julian Lárus, f. 2002, maki Jóhönnu er Hervé Parage, f. 1958. 5) Ásmundur, f. 1970, maki Matthildur Elísa Vilhjálmsdóttir, f. 1969, börn þeirra: a) Árný Fjóla, f. 1991, maki Daði Freyr Pétursson, f. 1992, börn þeirra: Áróra Björg, f. 2019 og Kría Sif, f. 2021, b) Hannes Orri, f. 1996, maki Marta Stefánsdóttir, f. 1998, sonur þeirra, Ásmundur Helgi, f. 2021, c) Bergsveinn Vilhjálmur, f. 2001, maki Aníta Sigurðardóttir, f. 2000, d) Elín Ásta, f. 2004.

Sigríður og Lárus byggðu sér hús á Kirkjuvegi 31 á Selfossi og bjuggu þar uns Lárus lést árið 2015. Sigríður dvaldi síðustu æviárin á hjúkrunarheimili HSu á Selfossi.

Útför Sigríðar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 13.

Útförinni verður streymt á slóðinni: https://dbe.is/sigridur/

Elsku Sigga.

Ég var svo heppin að verða tengdadóttir þín fyrir mörgum árum. Þegar ég kom inn í fjölskylduna tókst þú svo vel á móti mér að mér fannst ég vera dóttir þín. Alltaf gat ég leitað til þín og fengið ráð og hjálp. Við Svenni bjuggum nálagt þér og Lárusi og það var næstum daglegur samgangur í mörg ár. Við unnum báðar eftir hádegi svo ég kom oft til þín á morgnana og við drukkum kaffi og spjölluðum. Þú varst listakona í höndunum og saumaðir föt á alla fjölskylduna og fyrir vini. Þú málaðir myndir og postulín. Þú varst svo áhugasöm og hafðir alltaf fullt af hugmyndum sem þig langaði að sauma og gera. Ég hef oft hugsað um allt sem þú komst í verk með stórt heimili og vinnu en ég veit að þú gleymdir stundum að sofa þegar áhuginn var sem mestur og einhvern vantaði kjól, helst í gær. Ég man að einu sinni vantaði okkur burðarrúm en fundum ekkert, þá sagðir þú „ég sauma bara burðarrúm, Gugga mín“ sem þú gerðir, Lárus gerði hliðar og botn í það. Svona varst þú alltaf með lausnir.

Þið Lárus komuð oft til Noregs til okkar Svenna eftir að við fluttum þangað sem voru góðar stundir, ekki síst fyrir börnin okkar.

Elsku Sigga mín, ég á svo margar fallegar og góðar minningar um þig og ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Hvíldu í friði.

Þín

Guðbjörg (Gugga).

Þegar Sigríður vinkona okkar hjóna er öll langar mig að minnast hennar með nokkrum þakkarorðum. Það var gott félagslíf hjá okkur sem bjuggum á vesturenda Kirkjuvegar á Selfossi á 6. og 7. áratug síðustu aldar, allt ungt barnafólk, Gummi og Adda, Lárus og Sigga, Leifur og Laufey, Palli og Anna, Magnús og Dísa og Jón og Ninna. Við höfðum þorrablót til skiptis heima hjá okkur, höfðum sumarsamkomur í stóru tjaldi sem við settum upp á leikvellinum sunnan við Kirkjuveg. Leifur var alltaf með gítarinn og lék fyrir söng. Við dreyptum á góðu víni en það var aldrei fyllerí. Nú eru mörg dáin úr þessum hópi.

Sigga missti Lárus fyrir mörgum árum og bilaðist á heilsu hvað líkamskrafta varðar en andlega fannst mér hún halda sér nokkuð vel. Hún var síðustu árin í húsi aldraðra, Móbergi við Árveg. Þar hitti ég hana að máli og við rifjuðum upp gamla daga. Ég las fyrir hana þar sem ég hafði skrifað um fólkið á Kirkjuveginum í minni endurminningabók. Ég fann að hún gladdist af því.

Ég flyt bestu þakkir fyrir áratuga vináttu og efast ekki um að nú er hún búin að hitta Gullu mína í sumarlandinu en hún lést fyrir rúmu ári. Hennar nánustu flyt ég innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Sveinsdóttir.

Hvað er lífið eftir árin

eins og skuggi liðinn hjá.

Æskan, vonin, viskan, tárin

visnað eins og lítið strá.

(Ólöf Jónsdóttir)

Í dag kveðjum við mágkonu mína Siggu sem lést þann tíunda apríl síðastliðinn. Í vorinu og gróandanum kvaddi hún þetta líf, árin voru orðin mörg en hún var alltaf ung í anda og minnug á fólk og atburði.

Hún bjó allan sinn búskap á Selfossi og alltaf var gaman að koma til þeirra Lárusar á Kirkjuveginn og fá spjall í eldhúskróknum. Lífið var gott á Selfossi á þessum árum, vinir og nágrannar kíktu í heimsókn og oft sat einhver í eldhúsinu hjá Siggu ef maður leit inn.

Sigga vann lengi í Kaupfélagi Árnesinga og þar fann maður hana yfirleitt í vefnaðarvörudeildinni, að mæla efnisstranga og eflaust gefa góð ráð. Sigga var snilldarsaumakona og allt varð að fallegum flíkum í höndunum á henni, og hún saumaði mikið, enda fimm börn á heimilinu, og svo hjálpaði hún ýmsum við saumaskap. Hún saumaði dragt á dóttur okkar þegar hún varð stúdent, hún var bláteinótt með rauðu fóðri, einstaklega vönduð, og er hún vel varðveitt.

Síðar saumaði hún á barnabörnin og er mér minnisstætt þegar ég sá eitt sinn barnaburðarrúm sem hún hafði búið til, fóðrað og saumað hátt og lágt, en það hefðu nú ekki margir lagt í svoleiðis saumaskap.

Þegar árin færðust yfir og börnin voru farin að heiman fór hún meðal annars í postulínsmálum og var sama fallega vinnan á hlutunum hennar þar.

Síðustu árin fór heilsan að bila og dvaldi hún þá á hjúkrunardeild á Fossheimum, en alltaf langaði hana heim á Kirkjuveginn og oft var reyndar skroppið þangað, hellt upp á könnuna eða sest út í garðinn hennar.

Við Siggi þökkum Siggu allar góðu samverustundirnar á liðnum árum og sendum börnum og öðrum afkomendum samúðarkveðjur. Blessuð sé minning góðrar konu.

Gunnlaug
Ólafsdóttir.