Fríður hópur Agnes M. Sigurðardóttir biskup sést fyrir miðri mynd, en þetta er í síðasta skipti sem hún kallar til presta- og djáknastefnu.
Fríður hópur Agnes M. Sigurðardóttir biskup sést fyrir miðri mynd, en þetta er í síðasta skipti sem hún kallar til presta- og djáknastefnu. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Auðunn Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Presta- og djáknastefna var í ár haldin í Stykkishólmi og var þetta í síðasta sinn sem séra Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands kallar til slíks fundar. Prestastefnan var sett með guðsþjónustu í Stykkishólmskirkju þriðjudaginn 16

Gunnlaugur Auðunn Árnason

Stykkishólmi

Presta- og djáknastefna var í ár haldin í Stykkishólmi og var þetta í síðasta sinn sem séra Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands kallar til slíks fundar. Prestastefnan var sett með guðsþjónustu í Stykkishólmskirkju þriðjudaginn 16. apríl sl. Þar predikaði séra Sveinn Valgeirsson dómkirkjuprestur en séra Gunnar Hauksson, sóknarprestur í Stykkishólmi og prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi, þjónaði fyrir altari.

Að lokinni guðsþjónustu flutti séra Agnes ávarp og fór yfir helstu þætti í þeirri þjónustu sem kirkjan veitir um land allt og ýmsar þær breytingar sem orðið hafa í kirkjunni í hennar tíð. Yfirskrift prestastefnu í ár var: „En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu,“ sem er tilvitnun úr Efesusbréfinu.

Á dagskrá prestastefnu var meðal annars vinna við nýja handbók þjóðkirkjunnar og siði sem tengjast helgihaldi, umræða um hlutverk þjóðkirkjunnar innan borgaralegs samfélags, innflytjendamál og fleira. Í prédikun, sem séra Sveinn dómkirkjuprestur flutti í guðsþjónustunni, minnti hann á mikilvægi þeirrar fjöldahreyfingar sem kirkjan er og ræddi brýnt hlutverk hennar nú á tímum.

Að messu og setningu lokinni var prestum og djáknum boðið í gönguferð um Stykkishólm undir leiðsögn bæjarstjórans, Jakobs Björgvins Jakobssonar. Því næst bauð bæjarstjórnin til móttöku í Vatnasafninu í Stykkishólmi.

Prestastefnan stóð í þrjá daga og voru yfir 100 prestar og djáknar mættir til að hittast, fræðast og gleðjast saman í anda kristinnar trúar.

Höf.: Gunnlaugur Auðunn Árnason