Ólafur Stefánsson skrifar á Boðnarmjöð: Það þarf stundum ekki nema hnyttna fyrirsögn í Mogga með 1/2-u stríðsletri til að koma af stað rímspuna og ábyrgðarlausum ályktunum: „Aðhald, frestun, eignasala“ er á glærum þar, Hirðir ekki baun í bala um brúarsmíðarnar

Ólafur Stefánsson skrifar á Boðnarmjöð: Það þarf stundum ekki nema hnyttna fyrirsögn í Mogga með 1/2-u stríðsletri til að koma af stað rímspuna og ábyrgðarlausum ályktunum:

„Aðhald, frestun, eignasala“

er á glærum þar,

Hirðir ekki baun í bala

um brúarsmíðarnar.

Bankar seldir, brúm er frestað,

blasir skortur við.

Er það frekar illa nestað,

allt það stjórnarlið.

Þetta má víst krukkspá kallast,

sem kreppu boðar lýð.

á gömlu Brúnku baggar hallast,

í bleytu og ofanhríð.

Hann er kaldur á norðan. Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir:

Út um gluggann áðan leit,

óskup var það dapurt.

Ekki fara út í sveit,

allt er hvítt og napurt.

Það er vonandi að Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson sé sannspár:

Held að snjórinn fari fljótt,

finnur sig ei velkominn.

Sumarið inn sígur hljótt,

senn þá hlýnar vinur minn.

Halldór Halldórsson skrifar: Hríslan mín á holtinu þykist vita að vorið sé á leiðinni, þrátt fyrir að vakna upp við hvíta jörð! Hún þarf ekki nema líta á árhringina sína, til að sjá hvað vorið getur verið stríðið!

Brátt er vor á holti hér,

er hrekkir jurtum stríða;

alltaf lætur eftir sér

ofurlítið bíða!

Gunnar J. Straumland yrkir:

Er þið hlustið heiminn á,

hræðist tungu þjála,

því alhæfingar aldrei ná

innsta kjarna mála.

Gunnar skrifar: Úr mínum nýortu Rímum úr náttúrunnar nafnafræðum dró ég þessa morgunvísu:

Er sólu tunglið togar í,

tófu veiðir lundi,

sauðir stjórna sveit á ný

sveiflar skottið hundi.

Þessi staka er talin vera eftir Gísla Konráðsson og Efemíu Benediktsdóttur konu hans:

Oft eru skáldin auðnusljó

af því fara sögur.

Gaman er að geta þó

gert ferskeyttar bögur.