[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Náttúra Íslands hafði mest áhrif á að erlendir ferðamenn ákváðu að heimsækja landið í fyrra. 97% svarenda í könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna sögðu náttúruna hafa haft áhrif að miklu eða einhverju leyti á þá ákvörðun að ferðast til Íslands

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Náttúra Íslands hafði mest áhrif á að erlendir ferðamenn ákváðu að heimsækja landið í fyrra. 97% svarenda í könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna sögðu náttúruna hafa haft áhrif að miklu eða einhverju leyti á þá ákvörðun að ferðast til Íslands. Áhugi á norðurslóðum vegur einnig þungt (84,6%) og náttúrutengd afþreying (79,9%).

„Meðmæli vina og ættingja (59,2%), íslensk menning og Íslendingar almennt (55,4%) höfðu enn fremur mikil áhrif,“ segir í umfjöllun á vef Ferðamálastofu um niðurstöðurnar.

Erlendu ferðamennirnir dvöldu að meðaltali í sjö nætur á Íslandi, örlítið styttra en á árinu á undan, en ríflega fjórðungur þeirra var þó lengur á landinu eða níu nætur eða í lengri tíma.

„Langflestir (90,6%) heimsóttu höfuðborgarsvæðið, um fjórir af hverjum fimm (79,9%) Suðurlandið, um tveir af hverjum þremur (65,9%) Reykjanesið, tæplega helmingur (47,2%) Vesturlandið, tæplega þriðjungur (32,4%) Norðurlandið, nærri þrír af hverjum tíu (28,5%) Austurlandið og um 13% Vestfirðina,“ segir um niðurstöðurnar.

Í ljós kemur að þrír af hverjum fimm ferðamönnum notuðu bílaleigubíla sem aðalferðamáta í Íslandsferðinni skv. svörum þátttakenda en skipulagðar rútuferðir voru aðalferðamáti 23% ferðamannanna.

19,7% fóru í hvalaskoðun

Íslandsferðin fór fram úr væntingum tæplega sjö af hverjum tíu og könnunin sýnir einnig að erlendir ferðamenn nýta sér fjölbreytta afþreyingarmöguleika. Þannig sögðust m.a. 56,2% hafa notfært sér náttúruböð, 39,9% spa- og dekurmeðferðir, 34,1% fóru á söfn, 33,2% nefndu skoðunarferðir með rútu og 21% fór í sundlaugar. „Ýmis náttúrutengd afþreying var auk þess nýtt, s.s. skipulagðar göngu- og fjallaferðir (24,0%), jöklagöngur og ísklifur (22,9%), hvalaskoðun (19,7%) og norðurljósaferðir (15,8%),“ segir í umfjöllun Ferðamálastofu.

Ferðamennirnir voru einnig spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir voru með ýmsa þætti með einkunnagjöf á skalanum 0-10. Öryggismál á ferðamannastöðum fengu hæstu meðaleinkunn eða 9,2 en ríflega þrír af hverjum fjórum gáfu öryggismálunum hæstu einkunn. Almennt ástand vinsælla ferðamannastaða fékk einnig háa einkunn eða níu en hins vegar gáfu ríflega tveir af hverjum fimm ástandi vega og öryggi á vegum og í umferðinni miðlungseinkunn eða lægstu einkunn. Fjöldi ferðamanna á ferðamannastöðum fékk lægstu meðaleinkunnina eða 7,7 og gaf fjórðungur svarenda fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum lægstu einkunn í könnuninni.

Höf.: Ómar Friðriksson