Jón S. Þórhallsson fæddist á Sandfelli í Öræfum 11. febrúar 1933. Hann lést á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi 2. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Sveinbjörg Jónsdóttir, f. 5. nóvember 1907, d. 12. janúar 1960, og Þórhallur Jónsson, f. 26. desember 1892, d. 6. júní 1977. Bróðir Jóns er Ragnar Þórhallsson, f. 16. maí 1946.

Jón giftist Þóru Möller, f. 7. júní 1942, hún lést aðeins 27 ára að aldri 14. ágúst 1969. Jón og Þóra eignuðust soninn Ingólf, f. 19. september 1966. Eiginkona hans er Kristjana Hafdís Hreiðarsdóttir, f. 23. desember 1956. Dóttir Ingólfs og Kristjönu Hafdísar er Þóra, f. 12. október 1993. Dóttir hennar er Hafdís María, f. 3. maí 2012.

Jón giftist eftirlifandi konu sinni, Sigríði G. Einarsdóttur (Distu), f. 23. júní 1939, 23. september 1972. Sonur þeirra er Sveinbjörn Þór, f. 18. apríl 1975. Kona hans er Monica Lucia Becerra, f. 8. október 1975. Börn þeirra eru Isabella, Elisabeth og Daniel Þór. Börn Sigríðar frá fyrra hjónabandi eru: 1) Einar S. Björnsson, f. 17. apríl 1960, eiginkona Guðrún Gunnarsdóttir, f. 22. júní 1960. Börn þeirra eru Lára Björg, Daníel Örn og Anna Katrín. 2) Karen Björnsdóttir, f. 27. apríl 1964. Börn hennar eru Birna Rut og Unnur Ýr Viðarsdætur.

Langafabörnin eru orðin fimm.

Jón ólst upp á Svínafelli í Öræfum og bjó þar til 14 ára aldurs en þá flutti hann með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Tvítugur að aldri byrjaði hann að læra til rakara. Hann fór til Hamborgar í ársbyrjun 1959 og starfaði þar sem rakari í eitt ár. Árið 1960 stofnaði hann eigin rakarastofu og starfaði við rakstur til ársins 1969 en þá tók hann sér hlé frá rakstrinum. Hann starfaði í Landsbanka Íslands og við fasteignasölu um árabil eða þar til hann stofnaði aftur rakarastofu sem hann rak einsamall allt til ársins 2019 þegar hann lokaði henni 86 ára að aldri. Síðustu mánuðina dvaldi hann á Hrafnistu í Boðaþingi.

Útför Jóns fer fram frá Garðakirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku afi minn, það er furðuleg tilhugsun að sitja hér og skrifa um þig minningargrein þegar ég í raun og veru fékk bara að eiga þig í nokkur ár. Meirihluta lífs míns voru lítil sem engin samskipti okkar á milli og ég var búin að sætta mig við fyrir löngu að þannig yrði það alltaf.

En eitthvað breyttist fyrir fimm árum, og verð ég ævinlega þakklát fyrir það. Þú komst inn i líf mitt þegar ég þurfti mest á því að halda, og ég gat alltaf leitað til þín og oft var þægilegra að tala og tuða í þér frekar en mömmu og pabba. Ég kveið alltaf fyrir dauða þínum og hélt alltaf að ég hefði lengri tíma með þér og mun það taka einhvern tíma að komast yfir þetta en lífið er víst bara svona og mun tími okkar allra koma einhvern tímann og verðum við að lifa alla daga til fulls.

Takk fyrir að vera afi minn og takk fyrir að hafa alltaf trú á mér, ég mun halda áfram að gera betur og gera þig stoltan af mér.

Þín

Þóra.