EM Íslenska liðið spilar sína leiki í Innsbruck í Austurríki.
EM Íslenska liðið spilar sína leiki í Innsbruck í Austurríki. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik mætir Hollandi, Úkraínu og Þýskalandi í F-riðli lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem fer fram í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi dagana 28. nóvember til 15. desember

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik mætir Hollandi, Úkraínu og Þýskalandi í F-riðli lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem fer fram í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi dagana 28. nóvember til 15. desember.

Ísland, sem tekur þátt í sinni fyrstu lokakeppni EM í tólf ár, leikur fyrst við Holland 29. nóvember, þá við Úkraínu 1. desember og loks við Þýskaland 3. desember. Riðillinn er leikinn í Innsbruck í Austurríki.

Tvö efstu lið riðilsins komast áfram en hin tvö hafa lokið keppni.

Ljóst er að við ramman reip er að draga en lið Hollands og Þýskalands hafa endað í sjötta og sjöunda sæti á tveimur síðustu Evrópumótum.

Holland varð í 6. sæti á báðum þessum mótum, 2020 og 2022, varð í 9. sæti á HM 2021 og 5. sæti á HM 2023.

Þýskaland varð í 7. sæti á EM 2020 og 2022, líka í 7. sæti á HM 2021 og í 6. sæti á HM 2023.

Á heimsmeistaramótinu sem fram fór í lok síðasta árs tapaði Holland fyrir Noregi, 30:23, í átta liða úrslitum og Þýskaland tapaði fyrir Svíþjóð, 27:20.

Úkraína hefur hins vegar aðeins komist á eitt þessara stórmóta og endaði í 23. sæti á HM í lok síðasta árs, tveimur sætum fyrir ofan Ísland. Úkraína vann Kasakstan en tapaði gegn Brasilíu, Spáni, Tékklandi, Hollandi og Argentínu, oftast með miklum mun.

Ísland endaði í 25. sæti á HM 2023 eftir töp gegn Frakklandi, Slóveníu og Angóla, en fór í Forsetabikarinn og vann þar alla sína leiki.