Oddný Elísa Eilífsdóttir fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1944. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 4. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Guðný Sverrisdóttir, f. 11. október 1900, d. 5. janúar 1982, og Eilífur Lönning, f. 7. janúar 1896, d. 19. febrúar 1985.

Þau voru búsett á Nýbýlavegi 22 í Kópavogi lengst af, þar til foreldrar hennar
létust og hún stofnaði fjölskyldu með Þorgilsi Gunnarssyni, f. 10. júní 1944. Saman eignuðust þau Guðnýju, f. 26. september 1985, og Gunnar Kristin, f. 24. október 1989.

Oddný lauk gagnfræðaprófi, vann framan af við skrifstofustörf. Eftir að börnin fæddust gerðist hún dagmamma. Síðar gekk hún til starfa í býtibúrinu á Hrafnistu í Hafnarfirði en síðustu árin á vinnumarkaði var hún við heimilishjálp á Sólvangi.

Útför hennar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 11.

Elsku mamma.

Núna er þessu lokið hjá þér. Það eru svo mörg ár síðan einkenni sjúkdómsins komu fram.

Ég vildi óska að ég gæti sest niður með kaffibolla og rætt við þig.

Fullorðin kona við fullorðna konu.

Móðir við móður.

Fullorðin dóttir við fullorðna móður.

Kannski myndir þú gefa mér ráð, hvernig best væri að gera hitt og þetta með fullt hús af börnum.

Kannski myndir þú fussa og sveia yfir samfélagsmiðlunum og hvað allt væri ruglað í pólitíkinni.

Kannski myndir þú bjóða mér í vöfflur og segja mér að það væri líka mikilvægt að taka tíma fyrir sig án barnanna.

Kannski myndir þú spyrja hvenær við kæmum næst í heimsókn. Segja mér svo hvað það væri gaman að hafa krakkana mína á Norðurvanginum.

Kannski myndir þú setja klút um hálsinn á mér eða lána mér jakka þegar þér finnst ég fara of illa klædd út í vorveðrið.

Kannski myndir þú segja mér að vera ekki of stressuð. Jólin koma samt þótt það sé ekki allt tilbúið.

Kannski myndir þú segja að Birkir væri svo fjörugur, alveg eins og ég var þegar ég var lítil.

Kannski myndir þú segja mér hve flottur hann Arnþór væri og hve gaman væri að spjalla við hann þótt þú skildir ekkert í þessum tölvuleikjum.

Kannski myndir þú segja mér að passa vel upp á Freyju og hlæja að henni þegar hún segir eitthvað krúttlegt.

Kannski myndir þú faðma mig og segja mér að þú sért stolt af mér og Gunnari og að þú vitir að við erum að gera okkar besta.

Kannski …

Hvíldu í friði, elsku mamma, og takk fyrir allt.

Guðný Þorgilsdóttir.

Elsku frænka var einstök kona, umhyggja fyrir öðrum var alltaf einkennandi fyrir hana. Hún ræktaði sambönd við ættingja sína og var iðin við að færa frændsystkinum sínum minjagripi frá fjarlægum slóðum. Seinna sagði Oddný mér að það hefði verið gert til að kynna okkur sveitabörnin fyrir heiminum. Hversu lýsandi var þetta fyrir heimskonuna Oddnýju.

Ung var hún útivinnandi ofurkona, hugsaði um fullorðna foreldra sína af ást og alúð, tók á móti gestum sem voru margir er sóttu fjölskylduna heim á Nýbýlaveginn. Samverustundir í garðinum þar eru eftirminnilegar, Oddný í essinu sínu að bera fram allslags veitingar og alltaf ís, ekki má gleyma því. Stundum fékk maður að hreinsa rifsber því það stóð til að sulta. Árið 1984 ruglaði hún saman reytum með sínum kæra Gilla og bjuggu þau saman á Nýbýlaveginum og síðar í Norðurvangi í Hafnarfirði en þar bjuggu þau í mörg ár eða þar til Oddný flutti á hjúkrunarheimili eftir að hafa misst heilsuna. Oddný var þá greind með Lewy body-sjúkdóminn sem hafði mikil áhrif á lífsgæði hennar síðustu árin.

Ég og krakkarnir mínir eigum margar góðar minningar með Oddnýju og fjölskyldu þar sem leikið var í garðinum nú eða skoðaðar myndir inni og sagðar sögur. Allir sem þekktu Oddnýju muna áhuga hennar á ljósmyndun og voru þær ófáar ljósmyndirnar sem duttu úr jólakortum frá henni í gegnum árin.

Oddný var alla tíð femínisti, hún var óhrædd við að segja meiningu sína á mönnum og málefnum oft við litla hrifningu „lítilla karla í of stórum jakkafötum“ en hún lét það ekki stoppa sig og hafði sína sterku skoðun og skýru sýn á lífið.

Frænku minni þakka ég samfylgdina en nú á seinni árum áttum við sameiginlegt áhugamál sem var að tala um Haugesund og Noreg en faðir Oddnýjar var norskur og varð henni tíðrætt um norsku fjölskylduna sína sem hún hélt góðu sambandi við meðan hún hafði heilsu til. Við gátum alltaf talað um Lofoten og norsku konungsfjölskylduna nú eða bara skoðað myndir og brosað. Sagan af ferð þeirra Gilla með krakkana sína til Lofoten var henni afar kær og hafði hún mjög gaman af að rifja hana upp enda ferðin örugglega verið algjört ævintýr.

Elsku Gilli, Guðný, Gunnar og fjölskyldur, minning um góða konu lifir.

Jóna Lísa Gísladóttir.