Körfuboltinn
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Valur og Þór frá Þorlákshöfn náðu í gærkvöld undirtökunum í einvígjunum við Hött og Njarðvík í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta.
Valsmenn eru komnir í 2:1 gegn Hetti eftir sigur á Hlíðarenda, 94:74, og Þórsarar eru komnir í 2:1 gegn Njarðvík eftir sigur í framlengdum leik í Ljónagryfjunni í Njarðvík, 110:107.
Fjórðu leikir liðanna fara fram á Egilsstöðum og í Þorlákshöfn á mánudagskvöldið kemur og þar geta Valur og Þór tryggt sér sæti í undanúrslitum.
Valsmenn voru í talsverðum vandræðum með Hött lengi vel en sigldu fram úr undir lok þriðja leikhluta og í byrjun þess fjórða. Hattarmenn vantaði breidd til að ráða við Val á lokasprettinum.
Þá missti Höttur David Guardia af velli um miðjan annan leikhluta þegar hann sparkaði í Frank Aron Booker, leikmann Vals, eftir að hafa fallið í gólfið í návígi þeirra. Guardia var rekinn úr húsi og gæti farið í bann.
Kristinn Pálsson skoraði 23 stig fyrir Val, Kristófer Acox skoraði 21 stig og tók 16 fráköst og Frank Aron Booker skoraði 11 stig.
Deontaye Buskey skoraði 25 stig fyrir Hött, Obadiah Trotter 17 og Nemanja Knezevic var með 10 stig og 10 fráköst.
Spennutryllir í Njarðvík
Spennan var mun meiri í Njarðvík þar sem sveiflurnar voru miklar. Þórsarar voru mun sterkari í fyrsta og þriðja leikhluta en Njarðvíkingar fóru á kostum í öðrum leikhluta og unnu hann 38:22.
Þetta leiddi af sér jafnan lokakafla þar sem Dominykas Milka jafnaði, 100:100, í blálokin og tryggði Njarðvík framlengingu. Í lokin var það Tómas Valur Þrastarson sem tryggði Þór sigurinn með tveimur vítaskotum.
Darwin Davis var frábær í liði Þórs, skoraði 30 stig og átti 8 stoðsendingar. Tómas Valur skoraði 25 stig og Jordan Semple 21. Hjá Njarðvík var Milka frábær með 29 stig og 20 fráköst, Chaz Williams skoraði 23 og Veigar Páll Alexandersson 18.
Meistarar úr leik í kvöld?
Grindvíkingar geta í kvöld orðið fyrstir til að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Þeir taka á móti Íslandsmeisturum Tindastóls í Smáranum og hafa unnið sannfærandi sigra í tveimur fyrstu viðureignum liðanna. DeAndre Kane getur leikið með Grindavík á ný eftir að hafa verið í banni í öðrum leik liðanna á Sauðárkróki.
Þá mætast Keflavík og Álftanes í þriðja sinn en þar er staðan 1:1 eftir sannfærandi sigur nýliðanna í öðrum leik liðanna á Álftanesi á dögunum.