Í tökum Jana Arnarsdóttir, aðstoðarleikstjóri og framleiðandi, fremst á mynd og fyrir aftan hana leikkonan Edda Lovísa Björgvinsdóttir. Einnig sést í Óskar Þór Hauksson hljóðmann og Aron Braga Baldursson tökumann. Lengst til hægri er leikstjórinn Sigurður Anton Friðþjófsson en Einskonar ást, sem frumsýnd er í vikunni, er hans fjórða kvikmynd.
Í tökum Jana Arnarsdóttir, aðstoðarleikstjóri og framleiðandi, fremst á mynd og fyrir aftan hana leikkonan Edda Lovísa Björgvinsdóttir. Einnig sést í Óskar Þór Hauksson hljóðmann og Aron Braga Baldursson tökumann. Lengst til hægri er leikstjórinn Sigurður Anton Friðþjófsson en Einskonar ást, sem frumsýnd er í vikunni, er hans fjórða kvikmynd.
Einskonar ást nefnist fjórða kvikmynd leikstjórans Sigurðar Antons Friðþjófssonar sem frumsýnd er í vikunni og skrifaði hann einnig handritið og klippti myndina. Fyrsta kvikmynd Sigurðar, Webcam, var frumsýnd fyrir níu árum og sú næsta, Snjór og…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Einskonar ást nefnist fjórða kvikmynd leikstjórans Sigurðar Antons Friðþjófssonar sem frumsýnd er í vikunni og skrifaði hann einnig handritið og klippti myndina. Fyrsta kvikmynd Sigurðar, Webcam, var frumsýnd fyrir níu árum og sú næsta, Snjór og Salóme, kom út um tveimur árum seinna. Sú þriðja, Mentor, var frumsýnd árið 2020.

Sigurður hefur leikstýrt, skrifað handrit og klippt allar kvikmyndir sínar. Hann er spurður hvort því fylgi ekki aukið álag og ábyrgð að sjá um svo margar hliðar kvikmyndagerðarinnar. Jú, hann segir svo vera en það sé þó hans aðferð, þ.e. að skrifa, leikstýra og klippa. Þannig vilji hann hafa það. „Þessi mynd er framleidd af Kisa, Júlíusi Kemp og þeim. Hann hafði sína skoðun og ég tók punkta og svona,“ segir Sigurður.

Sjálflærður í listinni

Einskonar ást er fyrsta kvikmynd Sigurðar sem hlotið hefur styrk úr Kvikmyndasjóði og sú dýrasta í framleiðslu af hans myndum hingað til, að hans sögn. Sigurður er sjálflærður kvikmyndagerðarmaður sem segist hafa lært af því að horfa á kvikmyndir og vera með fólk í kringum sig sem veit hvað það er að gera. Fólk sem hægt sé að læra af.

Sigurður er spurður hvort hann eigi sér ákveðnar „hetjur“ eða fyrirmyndir í leikstjórnarlistinni. „Í fljótu bragði myndi ég segja Nicolas Winding Refn, hann er danskur og gerði Pusher-myndirnar, Drive og fleiri. Síðan er Martin Scorsese mikil hetja og líka leikstjóri sem heitir Joe Swanberg. Hann gerði fullt af „low budget“-myndum áður fyrr en er í dag orðinn „mainstream“-leikstjóri, gerði t.d. þætti á Netflix sem heita Easy,“ svarar hann.

Ástarsaga

„Ég myndi segja að þetta væri ástarsaga. Ég myndi flokka þetta sem rómantíska gamanmynd, þetta er gamanmynd og hún er um ástarmál,“ segir Sigurður, spurður að því í hvaða flokk kvikmynda Einskonar ást falli.

Í lýsingu sem blaðamaður fékk í tölvupósti segir að myndin fjalli um fjórar ungar konur sem séu að reyna að fóta sig í flóknum ástarsamböndum og Sigurður bætir því við að aðalpersónan sé ung kona að nafni Emilý, leikin af Kristrúnu Kolbrúnardóttur. Emilý sé í opnu fjarsambandi við pólska konu sem vilji flytja til Íslands og þarf Emilý þá að líta í eigin barm og velta framtíðinni fyrir sér. Hún kynnist Kríu nokkurri, sem leikin er af Eddu Lovísu Björgvinsdóttur, en Laurasif Nora Andrésdóttir leikur samstarfskonu Kríu.

Ungar konur eru því í aðal- og burðarhlutverkum og segir Sigurður að Emilý hafi verið fyrsta persónan sem birtist honum við handritsskrifin. „Ég skrifa mikið þannig að ég byrja með einhvern upphafspunkt, einhvern karakter, og sé svo hvað gerist,“ útskýrir hann fyrir blaðamanni.

Með grínið í genunum

Edda Lovísa fyrrnefnd er barnabarn Eddu Björgvinsdóttur leikkonu og dóttir leikarans Björgvins Franz Gíslasonar, sonar Eddu. Hún á því ekki langt að sækja leiklistarhæfileikana eða góða tilfinningu fyrir grínleik.

Sigurður er spurður hvort eitthvað í leik Eddu minni á ömmu hennar og föður. „Já, en aðallega bara það að hún er ótrúlega fyndin. Hún er það bæði sjálf náttúrulega, gerir kannski eitthvað fyndið sem var ekki skrifað þannig og það sem átti að vera fyndið þarf aldrei að segja henni að hafi átt að vera það,“ segir Sigurður kíminn.

Frekari upplýsingar um sýningarstaði og -tíma Einskonar ástar má finna á kvikmyndir.is.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson