Gunnlaugur Rögnvaldsson fæddist í Reykjavík 13. júní 1961. Hann lést á Landspítalanum 19. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Rögnvaldur Ragnar Gunnlaugsson, f. 1920 , látinn 1998, og Hulda Ósk Ágústsdóttir, f. 1931, látin 2022. Gunnlaugur átti tvær systur, Önnu Rögnvaldsdóttur, f. 1953, látin 2014, og Rögnu Rögnvaldsdóttur, f. 1957. Hálfsystur samfeðra eru Sigríður Steina Rögnvaldsdóttir, f. 1941, Þórdís Teresa Rögnvaldsdóttir, f. 1944, látin 2023, og Sigríður Bára Rögnvaldsdóttir, f. 1947.

Gunnlaugur gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Fjölbraut Ármúla. Hann starfaði m.a. við blaðamennsku, ljósmyndun og þáttagerð er laut að bílaíþróttum.

Útför Gunnlaugs verður gerð frá Háteigskirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 15.

Gulli frændi.

Þegar ég byrjaði að skrifa þessi orð um þig mundi ég hvernig þú settir eigin orð í ljóð. Þá birtist þessi bálkur á blaðinu mínu. Til þín, um þig, frá þér. Takk og takk. Hvíldu í ljósinu.

Þú óræða vera

Sem svanurinn sterkur

blakar út vængjum

og sýnir ákveðni og þor

þegar verja þarf

systur, börn, af holdi eða sálu

Þú horfna sál

Á flakki um heim

að heiman og handan

ystu skóga

lagðir höfuð á kodda

vina og frænda

Þú brothætta blóm

Viðkvæmt og eitt

úr sviðsljósi augna

í öruggu skjóli

rafrænna lína

sendir rafrænt ljós og yl

Þú ljós og engill

Með enga vængi

með kærleika og ást

munt fylgja og leiða

líkt og aðrir

fylgdu þér, sagðir þú

Þú brot af mínu broti

Í þér er fólkið mitt

og í fólkinu mínu ert þú

Lærdómur þinn

er lærdómur minn

lífsins ljós og skuggi

Harpa Ósk Valgeirsdóttir.

„Gulli flakkari“. Það var það sem ég kallaði oft frænda minn þegar ég var yngri. Enda var hann oft á flakki á ævintýralegum ferðum og skaut upp kollinum hér og þar. Hann var eins og Pétur Pan, glaðlegur, fullur af hugmyndum og gladdi marga, en aldrei of lengi á sama stað. Hann var einnig ávallt að leita eftir ást og kærleik, rétt eins og Pétur gerði, en þó svo að hann hafi gefið öllum í kringum sig eins mikinn kærleik og hann gat þá náði hann aldrei að snerta þann loga sjálfur, aldrei alveg. Rétt eins og Pétur þá var hræðsla og tómleiki innra með honum sem kom í veg fyrir að hann yrði raunverulega fullorðinn og gæti upplifað þær hliðar á lífinu sem gefa annars konar og dýpri hamingju og ást. Líkt og Pétur var hann í stöðugri baráttu við skuggann sinn, baráttu sem hann gæti aldrei unnið því hann var að kljást við sjálfan sig. Sú barátta fylgdi honum alla tíð eins og eðli skuggans er. Kærleikurinn sem Gulli miðlaði eins og Skellibjalla dansaði í kringum hann og gaf öðrum
ljós og birtu. Nú hefur hann sagt skilið við skuggann og fylgir ljósinu og kærleiksloganum og hristir af sér þungar byrðar þessa heims. Hann mun án efa heimsækja okkur milli svefns og vöku, hvísla í eyrað á okkur og spyrja hvort við viljum fara með honum á vit ævintýranna.

Ragnheiður Ásta
Valgeirsdóttir.

Það var mikill fengur fyrir okkur á Sam-útgáfunni að fá Gulla sem liðsmann á fyrstu árum Samúels. Hann var ekki orðinn tvítugur þegar hann kom á ritstjórnina og bauðst til að taka myndir og skrifa um bíla og akstursíþróttir. Því boði var tekið fegins hendi enda kunnu útgefendurnir lítið meira en skipta um gír. Fljótlega voru ljósmyndir og greinar Gulla fastur liður í blöðum útgáfunnar og það samstarf stóð yfir í mörg ár.

Gulli var hugmyndaríkur, flinkur ljósmyndari og lipur penni. Hann var hvers manns hugljúfi, góðhjartaður, alvörugefinn en glaðsinna. Ekki var beint hægt að stilla dagatalið eftir því hvenær hann ætlaði að skila efni í blöðin, en þannig var Gulli bara.

Við minnumst Gulla Rögg með hlýju og þakklæti og vottum ástvinum hans samúð okkar.

Þórarinn Jón
Magnússon og
Ólafur Hauksson.

hinsta kveðja

Til litla bróður míns, Gulla.

Lítil hönd í lófa mínum.

Mín var lítið stærri.

Augun stór, leitandi, áköf.

Komdu systir,

komdu.

Við skulum finna ævintýri.

Prakkarast.

Hlaupa niður á Ægisíðu,

verða blaut í fæturna.

Skítug

Kíkja á hreiður í Vatnsmýrinni.

Týnast

En það verður allt í lagi,

ég veit að þú leiðir mig heim.

Ragna Rögnvaldsdóttir.