Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Þegar ráðamenn skerða framlög til rannsóknasjóða og hafa enga skýra sýn um rannsóknir í lífvísindum er það líkt og andleg afstaða hjá kúm.

Vilhjálmur Bjarnason

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Jón sveitungi minn Ólafsson úr Grunnavík var iðjumaður hinn mesti. Jón horfði mikið aftur fyrir sig og leiðrétti villur sem aðrir höfðu búið til.

Það kann að vera að Íslandslýsing hans hafi verið mjög stuttorð; grjót og meira grjót. Á sama hátt hefur lýsing hans á Íslendingum verið „og bændur flugust á“.

Annar Jón

Það kann að vera að nafni hans úr nágrannasveit, Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, hafi horft nokkuð til framtíðar þegar hann tók saman lítið rit, „Lítil fiskibók“. Í þessu litla riti tók Jón sér fyrir hendur að leiðbeina um meðferð á sjávarafla til að aflinn héldi verðgildi frá verkun til markaðar. Með því var hann að leysa vandamál um gæði vöru á markaði. Mikið held ég Jón hefði glaðst yfir lausn Marel við að tína orma og bein úr fiskholdi og skurð á flökum til að auka verðmæti þeirra, en það var einnig tilgangurinn með „Lítilli fiskibók“, að auka verðmæti afla og bæta líf sjómanna og fiskverkafólks.

Á sama veg var Jón að leysa vandamál með því að safna upplýsingum um landshagi með því að safna landshagskýrslum. Vandamálið sem Jón sá fyrir sér var sjálfstæði landsins. Vandamálið var leyst með rökum en ekki vopnum. Með því var horft til framtíðar. Það kann að vera að einhvern tíma hafi Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri horft til fortíðar, sem hann taldi glæsta.

En var fortíðin svo glæst þegar bændur flugust á? Gjarnan með grjóti!

Sigurför mannsandans

Það er erfitt að dæma hvenær mannsandinn hefur farið sína mestu sigurför.

Var það með beislun kjarnorku eða rafmagns? Skrifari hefur löngum horft til gagnsemi lausna sem byggjast á lögmálum eðlisfræðinnar. Nægir þar að nefna sjónvarp og farsíma. Vissulega þarf hugvit og hyggjuvit að fara saman til að gera þessi undratæki að almenningseign, án þess að tæki og búnaður kosti augun úr.

Þar sem skrifari hefur lítið vit á lífvísindum en er þó fyrst og fremst áhugamaður verða ályktanir ekki mjög ábyggilegar.

Það er hægt að mæla árangur í lífvísindum með aðferðum stærðfræði og tölfræði.

Árangur í lífvísindum kemur fram í lengri lifun og betri lifun. Langlífi er ekki eftirsóknarvert nema lifunin sé góð.

Skrifari telur að aðgerðir í læknisfræði, ónæmisaðgerðir, sýklalyf og skurðlækningar hafi verið á samfelldri sigurför síðustu 200 árin.

Afrek í lifun á Íslandi

Skrifari er óþreytandi við að benda á að með einföldum aðgerðum í hjartasjúkdómum og flóknum skurðaðgerðum hefur tekist að draga úr ótímabærum andlátum vegna hjartasjúkdóma um 75% til 80%.

Með einfaldri ábendingu um skaðsemi reykinga hefur tekist að draga úr tíðni lungnakrabbameins. Með snemmbúinni skimun hjá konum hefur tekist að greina krabbamein í leghálsi og brjóstum og með því hafa batalíkur aukist.

Það er einn sjúkdómur sem skrifari er hættur að heyra talað um. Það er magasár. Í æsku minni máttu flestir búast við að fá magasár einhvern tíma á ævinni. Með þróun lyfja, þróun sem byggist á rannsóknum, hefur tekist að beita lyfjameðferð í stað síðbúinna skurðaðgerða til að koma í veg fyrir afleiðingar af magasári. Lykilorðið er rannsóknir.

Sama má segja um meðferð geðsjúkdóma. Ný lyf sem komu á markað og í almenna notkun um 1960 breyttu verulega lífsskilyrðum þeirra sem búa við geðsjúkdóma á þann veg að stofnanir eru ekki eina lausnin. Lyf og líf utan stofnana er lausnin.

Svo vill til að skrifari vann úr könnun á legutíma á Kleppsspítala á tveimur tímabilum, þ.e. á tímabilinu 1956-59 og 1966-69. Sjúklingum var fylgt eftir í þrjú ár eftir fyrstu innlögn. Læknirinn sem hafði umsjón með rannsókninni útskýrði fyrir reiknimeistaranum hvað mætti lesa úr útreikningum um árangur nýrra lyfja.

Árangurinn af virkninni var mældur, en þróun lyfjanna fór fram utan íslenskra landsteina.

Innlendar grunnrannsóknir skila árangri

Skrifari viðurkennir að hann áttar sig ekki á tekjuuppbyggingu Íslenskrar erfðagreiningar. Það liggur fyrir að „talningu“ eða „mælingu“ vísindarannsókna í íslensku samfélagi lífvísinda má að miklu leyti rekja til Íslenskrar erfðagreiningar. Vonandi leiða rannsóknir ÍE til betri og lengri lifunar, ef til vill á kostnað forsendna lífeyrissjóða. Þá kemur aðeins eitt til bjargar en það er frjáls sparnaður.

Aðrar lausnir í íslenskum lífvísindum eru mjög sýnilegar í Bandaríkjunum. Kerecis, með sína lausn við meðferð illviðráðanlegra sára, stundum vegna sykursýki, hefur verið metið til verðmætis. Guðmundur Fertram, höfundur lausnar Kerecis, er eins og Jón Ólafsson ættaður úr norðanverðu Ísafjarðardjúpi, úr Aðalvíkinni.

Vonandi lætur Guð gott á vita um árangur af lausn Kerecis á ókomnum árum.

Önnur lausn, við stundum skyldu vandamáli af völdum sykursýki, er lausn Oculis.

„Á heimsvísu þjást 37 milljónir manna af sjónudepilsbjúg af völdum sykursýki en það er helsta orsök blindu hjá sykursjúkum samkvæmt Alþjóðlegu sykursýkissamtökunum (IDF). Meðhöndlun sjónudepilsbjúgs og margra annarra augnsjúkdóma hefur hingað til falið í sér að sprauta lyfjum í bakhluta augans eða tímafreka og oft kostnaðarsama meðferð. Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson [prófessorar við Háskóla Íslands ] þróuðu tækni sem gerir kleift að þróa lyf í formi augndropa sem hægt er að ferja í afturhluta augans. Með tækninni er lyfjum komið á vatnsleysanlegt form og hægt er að ferja þau í hefðbundnum augndropum á rétta staði djúpt í auganu. Þetta gerir meðferðina aðgengilega fyrir stærri hóp sjúklinga.“

Á fjárfestaþingi voru prófessorarnir spurðir einfaldrar spurningar: „Hvaða vandamál eruð þið að leysa?“ Vandamál eru til að rannsaka og þróa lausnir.

Rannsóknir, þróun, samkeppni og lífskjör

Á liðnum 34 árum hefur kaupmáttur launa á Íslandi tvöfaldast. Vonandi hefur það leitt til bættrar lifunar. Hér að framan hefur skrifari rakið nokkrar ástæður fyrir þessum árangri. Kjarasamningar ráða þar litlu um. Rannsóknir og lausn vandamála með þróun hefur skilað þessum árangri að viðbættri samkeppni í flestum atvinnugreinum.

Áfram er þó haldið við að skerða lífskjör og auka fátækt bænda með því að afnema samkeppni í úrvinnslu og sölu landbúnaðarafurða.

Afstaða hjá kúm

Í Sölku Völku segir: „Síðan leit hún á gestina með þeim blendingi af nýjungagirni og fyrirlitningu, ótta og áhuga, frekju og sljóleika, sem er svo einkennilegur fyrir sérstaka andlega afstöðu hjá kúm.“

Þegar ráðamenn skerða framlög til rannsóknasjóða og hafa enga skýra sýn um rannsóknir í lífvísindum er það líkt og andleg afstaða hjá kúm.

Höfundur var alþingismaður og á sæti í stjórn vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins.