Brunarústir Slökkviliðsmenn við rústir Børsen eftir að hluti útveggjar byggingarinnar hrundi inn í húsið í gær.
Brunarústir Slökkviliðsmenn við rústir Børsen eftir að hluti útveggjar byggingarinnar hrundi inn í húsið í gær. — Ritzau Scanpix/AFP/Thomas Traasdahl
Enn logaði í glæðum í Børsen, gömlu kauphöllinni í Kaupmannahöfn, í gær en mikill eldur kom þar upp á þriðjudagsmorgun. Hluti af útvegg byggingarinnar hrundi í gær en slökkvilið borgarinnar hafði unnið við að styrkja útveggina

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Enn logaði í glæðum í Børsen, gömlu kauphöllinni í Kaupmannahöfn, í gær en mikill eldur kom þar upp á þriðjudagsmorgun. Hluti af útvegg byggingarinnar hrundi í gær en slökkvilið borgarinnar hafði unnið við að styrkja útveggina. Engan sakaði. Í kjölfarið lokaði lögregla Knipplesbrú og fleiri götum í nágrenninu. Sumar götur verða lokaðar fram á mánudag.

Tim Ole Simonsen, rekstrarstjóri slökkviliðs Kaupmannahafnar, sagði við danska ríkisútvarpið, DR, að ekki hefði tekist að styðja við vegginn með gámum og því hefði hann hrunið en útveggirnir hefðu veikst mjög vegna hitans frá eldinum. Vonast hefði verið til að hægt yrði að styrkja veggina en nú þyrfti að endurmeta þær áætlanir með tilliti til öryggis þeirra sem vinna á svæðinu og ekki væri hægt að útiloka frekara hrun.

Að minnsta kosti helmingur Børsen eyðilagðist í eldinum og 54 metra hár turn byggingarinnar féll logandi til jarðar. Eldurinn kviknaði undir koparþaki sem verið var að endurnýja í tilefni af 400 ára afmæli Børsen síðar á þessu ári. Fram kom á blaðamannafundi slökkviliðsins undir kvöld að nauðsynlegt væri að fjarlægja vinnupalla sem voru við bygginguna vegna framkvæmdanna, því eftir að veggurinn hrundi í gær væru þeir óstöðugir og þrýstu á þann hluta útveggjarins sem enn stendur. Talsmenn slökkviliðsins sögðu að hugsanlega yrði ekki hægt að bjarga veggjum þess hluta hússins sem brann.

Hluti af koparþakinu féll niður í húsið í eldinum og að sögn slökkviliðsins logaði í gær enn í glæðum þar undir. Nota þarf stóra krana til að fjarlægja koparþakið og annað brak úr byggingunni svo að hægt sé að ljúka slökkvistarfinu.

Upptök eldsins eru ekki ljós og lögreglan í Kaupmannahöfn sagði að rannsókn á eldsupptökunum gæti staðið yfir í nokkra mánuði.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Jens Kastvig, brunavarnaráðgjafa og sérfræðingi hjá verkfræðistofunni IDA, að hugsanlega hafi eldurinn kviknað í lokuðu rými í byggingunni strax á mánudagskvöld og mallað þar þangað til veggur brast og þá magnast skyndilega vegna súrefnis í andrúmsloftinu. Það kunni að skýra hve eldurinn breiddist hratt út á þriðjudagsmorguninn.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson