Páll Steingrímsson
Páll Steingrímsson
Án skrifa Páls hefði þetta ömurlega mál allt legið í þagnargildi. En nú hefur dómarinn kvittað upp á að um þetta mál eigi að þegja.

Páll Steingrímsson

Fyrir nokkrum vikum bar ég vitni í meiðyrðamáli gegn Páli Vilhjálmssyni en nú er dómur fallinn í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það má segja að það hafi verið eðlilegt að ég bæri vitni í málinu þar sem það snertir mig og fjölskyldu mína. Blaðamaðurinn Aðalsteinn Kjartansson stefndi nafna mínum og hafði meðal annars út úr því 450 þúsund krónur í miskabætur. Það er með ólíkindum að maður, sem hefur stöðu sakbornings í máli þar sem endurlífga þurfti brotaþola og hann svo smánaður opinberlega, skuli fá miskabætur án þess að öll kurl séu komin til grafar. Eins og málið blasir við mér er ekki ofsagt að umræddir blaðamenn hafi eitrað mitt líf og lagt þungar byrðar á mína fjölskyldu. En nú hafa þeir sem sagt uppskorið sitt réttlæti.

Það byggist meðal annars á því að vitnisburður minn hvarf eða var hafður að engu eins og sjá má þegar dómurinn er skoðaður. Þar er ég afgreiddur með þessum hætti:

„Fyrir dómi bar vitnið Páll Steingrímsson, en hann nýtur stöðu brotaþola við rannsókn fyrrgreinds sakamáls, að nafngreind kona hefði viðurkennt fyrir sér að hún hefði byrlað honum ólyfjan og að hann teldi hana hafa afritað gögn af farsíma hans og komið til fjölmiðlamanna. Síðar hefðu verið fluttar fréttir sem ritaðar hefðu verið á grundvelli þeirra upplýsinga. Eins og rakið er hér að framan er óumdeilt í málinu að fréttaflutningur stefnanda, sem hann hlaut verðlaun fyrir, byggðist að hluta til á gögnum sem tilheyrðu Páli Steingrímssyni.“

Það er furðulegt að lesa dómsorðið vegna þess að ég sagði aldrei stærstan hlut af þessu. Það staðfestist þegar ítarleg frétt Jakobs Bjarnars Grétarssonar, blaðamanns á Vísi, af málflutningnum er lesin. Hér hefur eitthvað skolast til.

En svo virðist sem vitnisburður minn í málum er mig varðar megi síns lítils. Í því ljósi var einfalt fyrir dómarann að ómerkja fjölda ummæla og skipti þá engu þó að ég staðfesti þau fyrir dómnum. Á það var ekki hlustað.

Þar má fyrst nefna setninguna „… og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“. Hún er ómerkt og breytti engu þó að ég, brotaþoli í rannsókn á hendur þessum sömu mönnum, telji hana algerlega rétta.

Öll gögn sem hafa verið tekin saman um rannsóknina á byrlun á hendur mér staðfesta þetta. Viðkomandi fréttamenn voru í miðri atburðarásinni og höfðu aðild, beina og óbeina, að því sem fyrir mig kom. Ég hef engar efasemdir um það. Eigi að síður strikar dómarinn yfir þetta.

Ég get haldið svona áfram með öll þau ummæli sem voru ómerkt. Hvernig er hægt að ómerkja ummæli sem lýsa því sem verið er að rannsaka?

Rétt er að benda á það, sem virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan í málinu, að flest það sem þessir tilteknu blaðamenn hafa haldið fram hefur reynst rangt. Á meðan hefur ekki neitt verið afsannað af því sem nafni hefur sagt.

Gott dæmi er grein sem kollegi Aðalsteins skrifaði 18. nóvember 2021, „Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar“. Þar segir m.a.: „Í þessum bloggfærslum heldur Páll því fram að lögreglurannsókn standi yfir …“ Páll hélt engu fram, þetta er og var staðreynd.

Áfram heldur blaðamaðurinn og fullyrðir að „skæruliðadeild Samherja“, sem er hvergi til nema í höfði þess sem þar hélt á penna, „hefði lagt á ráðin um að ráðast gegn“ nafngreindum aðilum „til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið“.

Enginn fótur er fyrir þessum staðhæfingum – heggur nærri meiðyrðum myndi einhver telja miðað við nýfallinn dóm. Þá er þeirri vitleysu haldið fram að „ekkert í umfjöllun um skæruliðadeildina hefur verið rengt“. Það er auðvitað rangt og hef ég margsinnis rakið það en RSK-fjölmiðlarnir sem Aðalsteinn og aðrir sakborningar tilheyra hafa aldrei sýnt því áhuga.

Óþarfi er að fara nánar í saumana á greininni, hún gengur annars út á að kæla nafna minn og þann vettvang þar sem skrif hans birtast, gera lítið úr þeim og niðurlægja. Það er ekki hátt risið á blaðamanni sem slíkt gerir en þorir á sama tíma ekki að svara símanum frá öðrum blaðamönnum sem ekki tilheyra RSK-deildinni.

Það réttlæti sem dómarinn veitir blaðamanninum Aðalsteini í þessu máli er um sumt hlálegt. Taktík Aðalsteins var að þegja, hann einfaldlega sagði ekki orð í réttarsalnum. Í eigin máli! Treysti sér greinilega ekki til að standa með sjálfum sér. Ég sat hins vegar í 15 mínútur í vitnastúkunni, áminntur um sannsögli, og svaraði spurningum lögmanns Aðalsteins um mitt mál. Ekkert af því var hrakið í dómnum.

Ég get ekki annað en hvatt Pál Vilhjálmsson til að halda áfram að leita að réttlæti í þessu máli. Ekki bara fyrir hann heldur líka okkur hin sem erum sem peð í höndum ósvífinna og óheiðarlegra blaðamanna. En það er líka áhyggjuefni að dómstólar skuli ekki geta veitt borgurum landsins eðlilegt tjáningarfrelsi til að veita valdamönnum eins og þessum eðlilegt aðhald. Án skrifa Páls hefði þetta ömurlega mál allt legið í þagnargildi. En nú hefur dómarinn kvittað upp á að um þetta mál eigi að þegja.

Höfundur er skipstjóri.

Höf.: Páll Steingrímsson