Erna Arngrímsdóttir
Erna Arngrímsdóttir
Framtak Ástu Fjeldsted skipti miklu máli fyrir vöxt og viðgang hafarnarstofnsins á Íslandi.

Erna Arngrímsdóttir

Það var árið 1946 sem móðir mín, Ásta Fjeldsted, keypti eyjar á Breiðafirði. Árið eftir verpti örninn í Stönginni þar. Þegar við komum sáum við örsmáan fugl sem kúrði sig niður, nema þegar foreldrarnir komu með æti. Þau komu ævinlega á morgunfjörunni og svo á kvöldflæðinni, stundvís. Það var tilhlökkun hvern dag að skoða tignarlegasta fugl lífríkisins. Mér var kennt í skóla að örninn væri aldauða. Síðar þegar ég var í gagnfræðaskóla skrifaði ég ritgerð um ernina okkar og fékk núll fyrir lygina! Við komum að vestan, óþekkt á svæðinu þá, en ættir mömmu eru af Snæfellsnesi. Um leið og sást til báts frá landi snemma í maí '47 brenndi ég kaffibaunir, malaði og lagaði kaffi fyrir fimm vaska karla sem skipuðu hreppsnefndina. Fréttir höfðu borist af óvættinum og bændur vissu allt um skaða og tjón af illfyglinu. Ég reyndi að koma því að að örninn væri haförn og æti mest úr sjónum, en þeir vissu allt betur, og hlustuðu ekkert á krakkann. Þeir höfðu rætt af miklum hita og þekkingu um hættuna sem stafaði af ófétinu, hann tæki lömb og jafnvel börn og væri vargur í varpi. Ég reyndi að segja að ég hefði fundið tólf æðarkollur bitnar á háls á hreiðrum eftir minkinn en nefndin vissi að þetta var lygi, það var vísindalega sannað að minkur gat ekki lifað utan búrs! Það eina sem vafðist fyrir þeim var af hverju í ósköpunum örninn hefði kosið þetta hreiðurstæði, klett í ólgandi hafi. Ég þagði, því ég sá parið árið áður einmitt setjast um stund á verðandi óðal sitt, hélt að þetta væri tálsýn, því í skóla var kennt að íslenskir ernir væru ekki til. Bændur höfðu réttilega áhyggjur af afkomu sinni og Breiðafjörður hafði fyrr verið helsta kjörsvæði arna, en rétt fyrir aldamótin 1900 var stofnað Vargafélag sem hafði útrýmingu vargfugla á stefnuskrá með verðlaun fyrir hvern drepinn fugl. Útrýmingin varð ótrúlega hröð, hreppsnefndin hafði ekki séð kvikindi í sextíu ár. Mamma hugsaði þetta allt öðruvísi, veit ekki hvort hún gerði sér ljóst að stofninn var í hættu en henni fannst upphefð að þessi tignarlegi fugl valdi okkur, hún vildi dúnjörð og hann óðal. Loks komst hreppsnefndin að niðurstöðu: að drepa ungann í hreiðrinu! Hreppstjórinn sagði mynduglega: „Sendi skotmanninn í næstu viku!“ Mamma kipptist við og spurði hvort ætti að drepa varnarlausan ungann? Taldi e.t.v. eignarréttinn á klettinum duga til að tillit væri tekið til óska hennar. Nei! Bændur létu ekki arnarkvikindið taka lömbin þeirra. „Komið bara með hræin af lömbunum og ég borga í haust,“ sagði mamma mín! Þeir litu hver á annan, bætur fyrir tjón, þetta skildu þeir. Þeir tóku vel í þetta og fyrsti unginn okkar flaug brott seint í ágúst. Þá fyrst fórum við upp í hreiðrið og sáum ótal fiskbein og æti úr sjónum en enga bjóra af lömbum. Blessað parið kom aftur í tæpa þrjá áratugi og strax árið eftir komust upp tveir ungar og ævinlega eftir það. Parið var ávallt rólegt nálægt okkur, mamma kallaði oft til þeirra með mikill ástúð og sagði að þeim væri óhætt hjá okkur. Mamma taldi að parið gæti ekki aflað matar fyrir ungana og ég þurfti að vaða djúpan, ískaldan ál daglega með dauða svartbaksunga og álíka til að setja á klettanibburnar, því aldrei fórum við í hreiðrið. Steininn tók úr 1969, þá voru ungarnir þrír! Ég komst ekki í eyjarnar, en mamma lét frændur mína vaða daglega með mat. Alþingi hafði þá samþykkt fuglaverndarlög. Nú brá svo við að enginn friður var með blessaða fuglana. Þeir sem höfðu áður hæst um tjón og skaða sögðust nú alltaf hafa verið hlynntir erninum. Því nú komu pótintátar úr Reykjavík og þóttust hafa leyfi til að fara upp í hreiðrið! Ferðaþjónustan sigldi líka fast upp að Stönginni svo útlendingar gætu myndað. Aumingja mamma stóð í ströngu með þetta hyski sem skildi ekki hversu viðkvæmt varpið er.

Það kom líka fólk sem skildi gildi fjölbreytts vistkerfis. Björn Guðbrandsson barnalæknir kom henni til hjálpar ásamt fleirum. Hann var einlægur fuglaaðdáandi og virti móður mína mikils fyrir afrekið að bjarga stofni frá útrýmingu! Þegar rannsóknir hófust á arnarstofninum kom í ljós að ernirnir okkar voru afar frjósamir, næstum alltaf komust tveir ungar upp. Nú er svo komið að vistfræðingar telja stofninn of innræktaðan, allir komnir af parinu í Stönginni.

Það fór sorglega fyrir hreiðrinu okkar. Óboðnir menn komu í ágúst eitt árið, rétt áður en fuglinn varð fleygur, óðu upp í hreiðrið, aðeins einn ungi þá. Hann hraktist undan þeim, höldum við, og síðan hefur ekki sést örn í Stönginni okkar. Næsta ár verpti örninn í nálægri eyju, svo við fylgdumst með í kíki. Ég hef stundum velt fyrir mér, ef hreppsnefndin hefði fengið vilja sínum framgengt, hvort við hefðum farið inn í söguna sem síðustu arnardrápararnir? Líkt og Eldey er í sögubókum talin aðsetur síðustu geirfuglanna. Fjölbreytni vistkerfisins og lífríkisins alls er undirstaða lífsins. Nafn móður minnar verður alla tíð tengt fuglavernd. Enda gerði Fuglaverndarfélag Íslands hana að heiðursmeðlimi.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: Erna Arngrímsdóttir