Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hyggst ekki draga til baka bréf matvælaráðherra til atvinnuveganefndar, sem sent var á síðasta degi Svandísar Svavarsdóttur í því embætti. Í bréfinu kom fram hörð gagnrýni á breytingar sem urðu á búvörulagafrumvarpi í…

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hyggst ekki draga til baka bréf matvælaráðherra til atvinnuveganefndar, sem sent var á síðasta degi Svandísar Svavarsdóttur í því embætti.

Í bréfinu kom fram hörð gagnrýni á breytingar sem urðu á búvörulagafrumvarpi í meðförum þingsins, en upphaflega var frumvarpið lagt fram af Svandísi ráðherra. Það flækti málið ögn að Bjarkey, sem síðan er orðin matvælaráðherra, sat í atvinnuveganefnd og er því meðal þeirra sem skammirnar beindust að.

Bréf matvælaráðherra, undirritað af Ásu Þórhildi Þórðardóttur og Elísabetu Önnu Jónsdóttur, lögfræðingum á landbúnaðarskrifstofu ráðuneytisins, vakti kurr á Alþingi, þar sem ekki er talið við hæfi að ráðherra, framkvæmdavaldið, leggi löggjafanum línurnar um störf hans.

Bjarkey matvælaráðherra svaraði í gær spurningum Morgunblaðsins frá liðinni viku og segir þar að bréfið verði ekki dregið til baka. Hins vegar lét hún vera að svara því hvort þingið yrði beðið afsökunar á afskiptunum.

„Í bréfinu koma fram ábendingar sem ráðuneytið taldi rétt og eðlilegt að kæmu fram, þar sem m.a. er bent á misræmi í nefndaráliti með breytingatillögu og hinum nýsamþykktu lögum sem hefur valdið misskilningi í opinberri umræðu.“

Bréfið á ábyrgð ráðherra

Í fyrri viku var Svandís spurð út í bréfaskriftirnar og hvort eðlilegt væri að ráðherra hefði slík afskipti af þinginu eftir að lögin hefðu verið samþykkt, en hún gerði lítið úr sínum þætti og lét í veðri vaka að frumkvæðið hefði ekki verið hjá sér:

„Það er ráðuneytið sem ákveður að gera það og ég held að það sé alveg eðlilegt að gera það.“

Morgunblaðið leitaði því einnig svara hjá nýjum matvælaráðherra um hvort fyrrnefndir starfsmenn landbúnaðarskrifstofu hefðu skrifað bréfið upp á sitt eindæmi og ef svo væri, hvort það hefði afleiðingar fyrir þá.

Bjarkey hafnar því.

„Sérfræðingar ráðuneytisins skrifuðu bréfið ekki upp á sitt eindæmi. Málið hlaut hefðbundna afgreiðslu innan ráðuneytisins.“

Hún var því einnig spurð hvort hún gerði greinarmun á ráðherraembættinu og ráðuneytinu, en hún kveður nei við og vísar til laga um Stjórnarráð Íslands, að ráðuneyti séu skrifstofur ráðherra, annað ekki,

Loks var ráðherra spurður hvort verkferlum í ráðuneytinu yrði breytt eða stjórnskipan landsins betur kynnt til að fyrirbyggja slík mistök.

„Ekki er gert ráð fyrir breytingum á verkferlum og ekki litið svo á að um mistök sé að ræða.“