Hjónin Bjarney og Manuel í mexíkóska matarvagninum La Buena Vida.
Hjónin Bjarney og Manuel í mexíkóska matarvagninum La Buena Vida.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarney Hinriksdóttir fæddist á Akranesi 19. apríl 1974 og ólst upp þar. „Ég ólst upp að miklu leyti í móanum bak við húsið okkar á Esjubraut, á hárgreiðslustofunni hjá mömmu og bílasölunni hjá pabba og með vinkonum og vinum

Bjarney Hinriksdóttir fæddist á Akranesi 19. apríl 1974 og ólst upp þar. „Ég ólst upp að miklu leyti í móanum bak við húsið okkar á Esjubraut, á hárgreiðslustofunni hjá mömmu og bílasölunni hjá pabba og með vinkonum og vinum. Ég er þakklát fyrir að hafa alist upp á Akranesi, við vorum alltaf að skapa okkar heim og finna upp á einhverju. Ég og Sibba [Sigurbjörg Þrastardóttir] vinkona vorum í mikilli frumkvöðlastarfsemi frá sex ára aldri og seldum málverk á 50 aur og fórum svo í popptímaritaútgáfu, þar sem hún skrifaði greinar og ég teiknaði. Þar voru örlög okkar ráðin, hún varð rithöfundur og ég hönnuður. Svo var það dansinn, ég og æskuvinkonurnar vorum í danshópi og eyddum ófáum tímum í að semja og æfa dans í gegnum unglingsárin.“

Skólaganga Bjarneyjar hófst í Brekkubæjarskóla og þaðan fór hún í Fjölbrautaskóla Akraness og lauk stúdentsprófi árið 1994. Árið 1992 fór hún sem skiptinemi til Brasilíu. „Ævintýraþráin byrjaði snemma, ég á ljóð sem ég skrifaði þegar ég var sex ára um mig að vera að sigla burt frá Akranesi (Hopp og hæ nú burt ég ræ). Mér leið strax eins og heima hjá mér í Brasilíu og landið varð mér eins konar annað heimili í um tuttugu ár.“ Bjarney flutti svo til Mílanó á Ítalíu, þar sem hún stundaði nám í grafískri hönnun og bjó þar næstu sjö árin. „Ég elskaði að vera á Ítalíu. Ég bjó með góðum vinum, vann á írskum bar með náminu og sem fararstjóri. Ég eignaðist marga kæra vini og ferðaðist um. Þetta voru frábærir tímar.“ Bjarney flutti aftur heim árið 2002, fékk vinnu á auglýsingastofunni Hvíta húsinu og vann þar sem yfirumsjónarhönnuður í sjö ár. „Hvíta húsið var og er með eindæmum frábær vinnustaður og ég hefði ekki getað beðið um betri stað til að ala mig upp sem hönnuð.“

Heimur Bjarneyjar eins og hún þekkti hann breyttist árið 2008 þegar mamma hennar féll frá. „Hún var besta manneskja sem ég hef kynnst, mín helsta klappstýra og klettur í lífinu. Hún innprentaði mér jákvæðni og þakklæti.“ Árið 2009 tók Bjarney þá ákvörðun að flytja til Barcelona til að fara í mastersnám í hönnun. Þar bjó hún til ársins 2013. „Ég hætti í skólanum eftir eina önn af því að þá var ég byrjuð að fá verkefni og hafði ekki tíma fyrir skólann. Ég mun alltaf muna þessa mögnuðu tilfinningu að vera stödd á kaffihúsi í Barcelona að vinna fyrir íslenska kúnna. Ég upplifði svo mikið frelsi og það var þá sem ég ákvað að stofna fyrirtækið mitt Baddydesign og gerast einyrki. Ég er mjög þakklát fyrir að geta unnið við eitthvað sem ég elska enn þann dag í dag.“

Í ársbyrjun 2013 flutti Bjarney aftur heim til Íslands. „Ég byrjaði í sambandi og með því hófst líka mikil sjálfsskoðun og andleg vinna. Ég fór tvisvar í jógakennaranám til Balí árið 2015, og árið 2016 stofnaði ég mitt eigið jógastúdíó hér heima, Reykjavík Yoga, þar sem allt var kennt á ensku. Reksturinn er núna í höndum góðrar vinkonu og frábærs jógakennara, Klöru Kalkusova, og þrífst vel í miðbæ Reykjavíkur. Árið 2017 var ég svo lánsöm að komast í núvitundarkennaranám hjá Jack Kornfield og Töru Brach í Kalíforníu. Þetta var tveggja ára nám og hafði gífurleg áhrif á mitt líf. Ég fór svo líka í framhaldsnám í jógakennslu hjá Julie Martin, sem er góð vinkona mín og minn helsti mentor í jóganu síðustu ár. Núna kenni ég jóga og núvitund í viðburðum á vegum Magic Retreats, sem ég stofnaði með vinkonum mínum Klöru og Ingibjörgu Stefánsdóttur, og dans á vegum Salsa Iceland.

Ég hef mikinn áhuga á heilsu, og hreyfing og hollt mataræði er mjög mikilvægt fyrir mig. Ég stunda pole fitness hjá Eríal Pole, víkingaþrek hjá Mjölni, dansa mikið og er aðeins byrjuð í klifri.“

Árið 2019 fór Bjarney til Krítar í nokkra mánuði, þar sem hún tók að sér fimm litla hvolpa sem fundust á götunni og flutti þá heim. „Þetta var byrjunin á „hundaæðinu“ í mér. Ég elska dýr, en ég hafði aldrei átt hund áður. Þetta var risastórt verkefni og flókið að koma þeim öllum heim, en það hafðist og í framhaldi fór ég í hundaþjálfunarnám. Ég hélt einni tíkinni, Kissí, og fann heimili fyrir hin fjögur. Við eigum líka kött sem heitir Lynx.“

Árið 2020 kynntist Bjarney núverandi eiginmanni sínum, Manuel. „Við kynntumst í september 2020, á covid-tímum. Manuel er frá Mexíkó og við áttum í fjögurra mánaða „online“-sambandi áður en við hittumst af því að við gátum ekki ferðast. Ég varð fljótt ástfangin upp fyrir haus, en ég upplifi okkar ferðalag frá byrjun eins og fyrirframákveðið. Ég fór svo til Mexíkó í janúar 2021, þá hittumst við í eigin persónu í fyrsta skipti. Sú ferð var draumi líkust og við bara smullum saman. Við ferðuðumst fram og til baka fyrsta árið en svo varð Manuel svo hrifinn af Íslandi að það varð úr að hann flutti hingað.“

Bjarney og Manuel reka mexíkóska matarvagninn La Buena Vida og flakka um með vagninn á milli bæjarhátíða, stórra viðburða í borginni og einkaviðburða. „Það er oft krefjandi að vinna með maka sínum í pínulitlum vagni, en við fáum alltaf svo frábærar viðtökur, svo þetta er aðallega gaman og gefandi.“

Bjarney mun verja afmælisdeginum í Grikklandi með Manuel. „Við komum heim í lok apríl með þrjá dásamlega kvenkyns hvolpa sem voru á götunni og leitum nú að góðum heimilum fyrir þær á Íslandi.“

Fjölskylda

Eiginmaður Bjarneyjar Juan Manuel Torrealba Garcia, f. 13.1. 1976, veitingamaður. Þau eru búsett í Vesturbænum í Reykjavík. Móðir Manuels er Diana Garcia, f. 17.8. 1948, mannauðsstjóri lengst af, búsett í Mexíkóborg.

Dóttir Manuels er Sasha Elizabetha Torrealba Pettersson, f. 5.11. 1999, nemi í grafískri hönnun í Berlín.

Bróðir Bjarneyjar er Haraldur Valtýr Hinriksson, f. 9.10. 1968, hárskeri á Akranesi.

Foreldrar Bjarneyjar: Hinrik Haraldsson, f. 25.11. 1944, hárskeri á Akranesi, og Fjóla Verónika Bjarnadóttir, f. 5.10. 1944, d. 10.8. 2008, hárgreiðslukona á Akranesi. Þau voru gift frá 18 ára aldri. Hinrik er kvæntur Hrafnhildi Þórarinsdóttur, f. 28.6. 1954, sjúkraliða.