Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Bandaríska gervigreindarmiðaða skýjafyrirtækið Crusoe mun hefja starfsemi í gagnaverum íslenska gagnaversfyrirtækisins atNorth í næsta mánuði. Um er að ræða fyrsta verið sem Crusoe nýtir sér utan Bandaríkjanna. Samningar milli félaganna tókust í desember síðastliðnum en síðan þá hefur verið unnið að því að setja upp myndvinnslukort (e. GPU, graphics processing unit) fyrirtækisins í gagnaverinu.
Kjörinn staður
Hui Wen Chan, yfirmaður sjálfbærni hjá Crusoe, sagði í erindi sínu á alþjóðlegu gagnaversráðstefnunni Datacloud ESG sem lauk í Hörpu í gær að Ísland væri kjörinn staður fyrir þá skýjaþjónustu sem Crusoe býður upp á. Félagið leggur einkum áherslu á að gera fyrirtækjum kleift að stunda gervigreindarvinnslu í sjálfbæru umhverfi.
Chan sagði í erindi sínu að á Íslandi væri góður aðgangur að endunýjanlegri orku. Hér væri hagfellt svalt veðurfar og reynslumikið starfsfólk sömuleiðis. Þá væri staðsetningin mitt á milli Bandaríkjanna og Evrópu mjög ákjósanleg. Enn fremur sagði hún að raforkuverð væri stöðugt. „Samanborið við Bandaríkin er raforkuverð og stöðugleiki þess frábær,“ segir Chan í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir að með stórkostlegum vexti gervigreindar síðustu misseri hafði algjör sprenging orðið í eftirspurn eftir þjónustu gagnavera og rafmagni sem knýr þau.
Eins og Svíþjóð
Hún segir að vöxturinn sé slíkur að áætluð orkuþörf fram til ársins 2026, samkvæmt spá Alþjóðaorkumálastofnunarinnar, jafngildi á öðrum endanum heildarorkunotkun Svíþjóðar á ári eða Þýskalands á hinum endanum. „Stærðin og flækjustigið hefur aukist mikið hjá gagnaverum undanfarið. Fjöldi breytna (e. parameters) í stórum tungumálalíkönum (e. large language models) var 100 milljónir árið 2018. GPT-3, sem notað er af OpenAI, gervigreindarfyrirtækinu sem býður upp á ChatGPT-fyrirspurnaþjónustuna, er til samanburðar með 175 milljarða breyta. GPT-4 kom á markaðinn í mars í fyrra og notar 1.800 milljarða breyta eða tíu sinnum meira en Chat GPT-3. Þeir milljarðar fyrirspurna sem lagðir eru fram daglega á ChatGPT og öðrum sambærilegum vefsíðum drífa áfram þennan mikla vöxt í gagnaversiðnaðinum,“ útskýrir Chan.
Hún segir að orka sé smátt og smátt að verða uppurin í Bandaríkjunum og hlutfall gagnavera sem í boði séu á tíu stærstu mörkuðum í Norður-Ameríku hafi farið niður í 2,88% árið 2023. Það hafi aldrei verið jafn lágt. „Bandaríski gagnaversmarkaðurinn mun þurfa 38 gígavött af orku fyrir árið 2030.“
Chan segir að fyrirtæki hennar og önnur í geiranum þurfi að finna leiðir til að knýja grunngerðina áfram með sjálfbærni að leiðarljósi.
Fresta lokunum
Hún segir að í Bandaríkjunum bregðist menn við orkuskorti með því að fresta lokunum kolavera og halda áfram að framleiða rafmagn með gasi. Crusoe leggi sitt af mörkum til sjálfbærni með því að þróa tækni til að nýta affallsgas frá olíulindum, sem hingað til hefur verið brennt og því farið í súginn. „Um 140 milljón rúmmetrar af slíku náttúrugasi eru brenndir í heiminum árlega, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðabankanum. Það myndi duga fyrir 2/3 af rafmagnsþörf Evrópu. Þessi tækni minnkar útblástur skaðlegra lofttegunda og hjálpar okkur að ná sjálfbærnimarkmiðum okkar.“
Chan segir að skyndilegur vöxtur gervigreindar hafi komið mörgum á óvart. „Bandarísk stórblöð birta reglulega fyrirsagnir eins og „Erum við að verða búin með orkuna?““ segir Chan.
Út fyrir kassann
Hún segir orkuver sem byggja á endurnýjanlegri orku vera í byggingu víða í Bandaríkjunum. Tíma taki hins vegar að koma þeim í gagnið og fá orku inn á dreifikerfið. Því sé ójafnvægi í framboði og eftirspurn að aukast. „Þess vegna erum við að horfa út fyrir rammann í átt að meira skapandi lausnum eins og með affallsgasið, sem er ónýtt auðlind í dag.“
Spurð að því að lokum hvort Crusoe sjái fyrir sér frekari vöxt Íslandi segir Chan að allar aðstæður hér á landi styðji það og að þau væru meira en til í það.