Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn láta VG ráða ferðinni í hvalamálinu?

Hjörleifur Hallgríms

Það er alveg ótrúlegt hvað getur gerst í íslenskri pólitík, svo ótrúlegt að algjörri furðu sætir. Að láta VG hafa matvælaráðuneytið er óskiljanlegt án skilyrða þar sem viðkomandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, brýtur lög í hvalamálinu án þess að depla auga að séð verður og sú sem tekur við, Bjarkey Olsen, virðist engu ætla að breyta.

Í tæpa fjóra mánuði hefur fyrirtækinu Hval ekki verið svarað um hvort hægt verður að byrja hvalveiðar og trúlega vegna ótrúlegs slóðaskapar er það úr sögunni í ár. Það verður að segjast eins og er að það verður að kenna um þeim kumpánum Bjarna Ben. og Sigurði Inga að svona er komið, að stöðvaðar eru hvalveiðar, til margra milljóna tjóns fyrir þjóðarbúið. Skemmst er að minnast orða skipstjórans sem á skipi sínu var fyrir skömmu staddur út af Snæfellsnesi og taldi þar um eitt hundrað hvali sem voru að gramsa í mjög stórri loðnuvöðu. Það dugir skammt að segja að ekki megi deyða hvali af því að þeir séu svo skynsamir, sem er eitt af fleiru sem slegið er fram. Því skyldi ekki mega grisja hvalastofninn eins og t.d. bara húsdýrin, kýr og kindur, svo eitthvað sé nefnt? Enginn má taka orð mín þannig að ég sé einhver óvinur hvalanna en ég reyni bara að taka skynsamlega á málinu eins og t.d. með húsdýrin sem ég nefndi. Ég tel einfaldlega nauðsyn á að grisja hvalastofninn þó ekki væri nema til að vernda loðnuna, sem hvalurinn gleypir í sig að sagt er í þúsundum milljónum tonna.

Það er stórfurðulegt að það skuli þurfa að vera hatrammt bitbein og ráðherra brjóti lög annars vegar og dragi lappirnar hins vegar. Og allt er þetta misvitrum pólitíkusum að kenna.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Hjörleifur Hallgríms