Ráðherra Annalena Baerbock kallaði sendiherra Rússa á sinn fund.
Ráðherra Annalena Baerbock kallaði sendiherra Rússa á sinn fund. — AFP/Gil Cohen-Magen
Tveir karlmenn voru handteknir í Þýskalandi í vikunni, grunaðir um njósnir fyrir Rússa og að hafa skipulagt árásir í Þýskalandi, þar á meðal á bandarískar herstöðvar, með það að markmiði að grafa undan hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu

Tveir karlmenn voru handteknir í Þýskalandi í vikunni, grunaðir um njósnir fyrir Rússa og að hafa skipulagt árásir í Þýskalandi, þar á meðal á bandarískar herstöðvar, með það að markmiði að grafa undan hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu.

Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands kallaði sendiherra Rússa í Þýskalandi á sinn fund í gær vegna málsins. Rússneska sendiráðið í Berlín skrifaði í kjölfarið á X að engar sannanir hefðu verið færðar fyrir ásökunum um tengsl mannanna við fulltrúa rússneska stofnana.

Mennirnir tveir, Þjóðverjar af rússneskum uppruna, voru handteknir í Bayreuth í Bæjaralandi á miðvikudag, að sögn saksóknara þar. Í yfirlýsingu þeirra eru mennirnir nefndir Dieter S. og Alexander J. Segir þar að Dieter S. hafi tekið myndir af hernaðarmannvirkjum og verið í sambandi við einstakling, sem tengist leyniþjónustu Rússlands, frá október á síðasta ári. Þeir hafi rætt hugsanleg skemdarverk og árásir á hernaðarinnviði og iðnaðarsvæði í Þýskalandi. Alexander J. hafi bæst í hópinn í mars sl.

Nancy Faeser innanríkisráðherra Þýskalands sagði í gær að njósnamálið væri alvarlegt og ítrekaði stuðning þýskra stjórnvalda við Úkraínu.