Kjarnorkuknúni kafbáturinn USS New Hampshire sást úti fyrir Suðurnesjum í gær. Var hann hingað kominn að sækja vistir, samkvæmt þjónustusamningi sem bandaríski sjóherinn gerði við Landhelgisgæsluna í fyrra.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar sagði við mbl.is í gær að einnig hefði verið skipt um hluta áhafnarinnar. Er þetta fjórða heimsókn bandarísks kafbáts hingað eftir að samningurinn komst á. Fyrr á þessu ári var kafbáturinn USS California á ferð hér við land.
Varðskipið Þór fylgdi kafbátnum inn í landhelgina í gær og að heimsókninni lokinni mun Þór einnig fylgja honum sömu leið til baka.