„Við höfum reynt að fá samtal við ráðuneytið en ekki haft erindi sem erfiði. Þá hefur ráðherra ekki haft samráð við okkur sem þó höfum sérþekkingu á sviði loftmyndatöku. Það gæti því farið svo að 30 ára saga loftmyndatöku af Íslandi og sú…

„Við höfum reynt að fá samtal við ráðuneytið en ekki haft erindi sem erfiði. Þá hefur ráðherra ekki haft samráð við okkur sem þó höfum sérþekkingu á sviði loftmyndatöku. Það gæti því farið svo að 30 ára saga loftmyndatöku af Íslandi og sú sérþekking sem þegar er til glatist.“

Þetta segir Karl Arnar Arnarson framkvæmdastjóri Loftmynda ehf. í athugasemd sem hann hefur sent Morgunblaðinu vegna fréttar um útboð ríkisins á loftmyndaþekju af Íslandi, en þar kom m.a. fram að sparnaður vegna þess yrði á bilinu 79 til 90 milljónir króna á ári. Verkefnið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu í lok síðasta árs. Loftmyndir tóku ekki þátt í útboðinu og segir Karl að ástæðan sé sú að aðgangur að myndunum verði gjaldfrjáls, en Loftmyndir selji aðgang að sínum myndum.

Hann segir eðlilegt að opinber innkaup séu boðin út en í þessu tilfelli sé ekki verið að bjóða út þá þjónustu sem Loftmyndir ehf. hafi veitt íslenska ríkinu undanfarin ár. Verið sé að leggja að jöfnu tilbúinn gagnagrunn þar sem innifalið er reglubundið viðhald.

Þá standi aðeins til að taka loftmyndir með 10 cm upplausn af þremur þéttbýlissvæðum; höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Keflavík, en aðrir þéttbýlisstaðir verða skildir eftir. Myndir Loftmynda séu með tvöfalt meiri upplausn en þær sem til stendur að taka skv. útboðinu. Þá sé ekki boðin út nein uppfærsla sem verði þó að sinna, því loftmyndir úreldist hratt.

Bent er á að auk þess að taka loftmyndir hafi fyrirtækið safnað nákvæmum hæðargögnum úr þeim fyrir allt Ísland sem notuð séu í mannvirkjahönnun og neyðarstjórnun. Sambærileg gögn séu ekki til annars staðar. Þá kemur fram í athugasemdinni að þess misskilnings virðist gæta að útboðið snúist um að klára að taka nýjar loftmyndir af öllu Íslandi. Þeir verktakar sem samið hafi verið við muni hafa viðveru í landinu í allt að þrjá mánuði á ári næstu þrjú árin með mögulegri framlengingu í fimm ár. Á þeim tíma verði reynt að mynda landið, en áhættan sé mikil. Íslensk veðrátta verði að vera hagstæð fyrir loftmyndatöku og því geti svo farið að ekki náist að mynda landið allt á fimm árum, en það hafi tekið Loftmyndir níu ár að klára að mynda allt Ísland.