Fjörugir tónleikar Stórsveit Reykjavíkur heiðrar minningu Mancinis og flytur mörg af hans þekktustu lögum.
Fjörugir tónleikar Stórsveit Reykjavíkur heiðrar minningu Mancinis og flytur mörg af hans þekktustu lögum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stórsveit Reykjavíkur heiðrar minningu Henrys Mancinis, sem var eitt af þekktustu og vinsælustu kvikmyndatónskáldum sögunnar, á tónleikum í Silfurbergi í Hörpu sunnudaginn, 21. apríl, klukkan 20. Mancini fæddist 16

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Stórsveit Reykjavíkur heiðrar minningu Henrys Mancinis, sem var eitt af þekktustu og vinsælustu kvikmyndatónskáldum sögunnar, á tónleikum í Silfurbergi í Hörpu sunnudaginn,
21. apríl, klukkan 20.

Mancini fæddist 16. apríl 1924 og hefði því orðið 100 ára í vikunni en hann er meðal annars höfundur laga á borð við „Pink Panther Theme“, „Moon River“, „Peter Gunn“, „The Days of Wine and Roses“, „Baby Elephant Walk“ og „Charade“. Sérstakir gestir á þessum heiðurstónleikum verða þau Sigríður Thorlacius og Páll Óskar Hjálmtýsson og stjórnandi Stórsveitarinnar er Samúel Jón Samúelsson sem einnig hefur útsett hluta dagskrárinnar fyrir tilefnið.

Lögin hans mótað mann mikið

„Þetta er mikill meistari og við höfum allir hlustað mikið á tónlistina hans. Ég hef persónulega verið mikill aðdáandi hans síðan ég var krakki og komst meira og meira að því núna þegar ég var að útsetja lögin fyrir tónleikana hvað þau hafa mótað mann mikið. Öll stefin hans, eins og tónlistin úr Bleika pardusnum, og öll þessi kvikmyndalög hafa einhvern veginn verið órjúfanlegur hluti af lífi manns,“ segir Samúel spurður út í tónleikana.

„Þetta er svo flott músík, vel spiluð, vel tekin upp, vel útsett og vel samin. Það er líka bullandi húmor í þessu öllu sem er svo skemmtilegt.“

Segir Samúel að þegar hann hafi komist að því að í ár yrðu 100 ár frá fæðingu Mancinis hafi hann stungið því að sveitinni að halda sérstaka tónleika honum til heiðurs og minnast þessara tímamóta.

„Þetta er eitt af þessum kvikmyndatónskáldum sem hafa notað djass og big band-sándið mjög afgerandi. Það heyrist sérstaklega vel í Bleika pardus-stefinu en við munum að sjálfsögðu leika það. Þannig að Mancini er eitt af þessum tónskáldum sem tilheyra stórsveitararfleifðinni og einn af fáum sem hafa náð vinsældum út fyrir þann ramma. Hann samdi svo mikið af músík fyrir kvikmyndir að það þekkir hvert mannsbarn laglínurnar hans og lögin. Ég efast um að það sé til söngvari sem tekur sig alvarlega sem ekki hefur sungið lag eftir Henry Mancini,“ segir hann og bætir því við að lögin hans séu dæmi um klassík sem muni lifa um ókomna tíð.

Mjög skemmtilegur lagalisti

Þá segir Samúel að þrátt fyrir það gífurlega magn af lögum sem liggi eftir Mancini hafi verið erfitt að finna útsetningar til að spila. „Sumt var ekki endilega skrifað akkúrat fyrir þá hljóðfærasetningu heldur stærri stúdíóhljómsveitir sem voru notaðar í upptökum, eins og stórar strengjasveitir og kóra. Þannig að við erum búin að finna nokkrar útsetningar sem eru útsettar fyrir big band og alveg í anda þess sem hann var að gera. Svo er ég aðeins að útsetja, pikka upp og skrifa fyrir bandið. Það er til endalaust af flottum lögum eftir hann en ég held að ég sé búinn að detta niður á mjög skemmtilegan lagalista, bæði af þessu mest þekkta og eins perlur sem eru kannski ekki eins þekktar, þær sem hafa kannski verið í uppáhaldi hjá mér.“

Gaman að fylgja hugmyndinni alla leið

Inntur eftir því hvernig sé að vera í stjórnandahlutverkinu segir Samúel það ólýsanlega skemmtilegt. „En það er líka gefandi og krefjandi. Mér finnst þetta ótrúlega gaman og finn mig í því. Maður finnur líka til pressu að standa sig, reyna að halda utan um þetta og gera þetta almennilega. En ég elska að gera þetta og sérstaklega þegar þetta er svona músík sem stendur hjarta mínu nærri. Í þessu tilfelli var þetta hugmynd frá mér og ég fékk dálítið að móta hana þannig að það er mjög gaman að fá að fara með hana alla leið.“

Hvetur hann alla til að tryggja sér miða þar sem aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða.

„Það er ekkert á hverjum degi sem maður heyrir þessa músík, eins og opnunarstefið við Bleika pardusinn, spilað svona nákvæmlega eins og það á að hljóma þannig að ef fólk elskar þessa músík þá ætti það ekki að missa af þessu. Svo má ég að lokum til með að nefna mjög skemmtilega tónleika sem við endum starfsárið á en þar frumflytjum við nýja íslenska tónlist sem er sérskrifuð fyrir hljómsveitina. Það vill svo skemmtilega til að ég fæ að stjórna þeim tónleikum líka en þeir verða
26. maí.“ Miðar fást á tix.is.