Magni Reynir Magnússon kaupmaður lést á Landspítalanum 16. apríl síðastliðinn, 88 ára að aldri.
Magni fæddist 5. nóvember 1935 í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum. Foreldrar hans voru Hjörný Tómasdóttir og Magnús Guðmundsson, en Magni ólst upp hjá föðurforeldrum sínum, Guðmundi Gíslasyni og Oddnýju Elínu Jónasdóttur.
Eftir próf frá Samvinnuskólanum hóf Magni störf hjá Loftleiðum og síðar hjá Landsbankanum. Hann stofnaði verslunina Frímerkjastöðina á Skólavörðustíg ásamt tveimur vinum sínum árið 1964 og ráku þeir verslunina saman til ársins 1979. Síðan stofnaði hann ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Steinunni Guðlaugsdóttur, verslunina Hjá Magna og ráku þau hana allt til ársins 2005.
Margir minnast Magna úr Frímerkjastöðinni og síðar verslun hans, sem stóð við Laugaveg 15. Var verslunin annað heimili frímerkja- og myntsafnara, auk áhugafólks um spil hvers konar. Magni hafði mikinn áhuga á söfnun frímerkja og fleiri muna og var margsinnis viðmælandi Morgunblaðsins í fréttum tengdum hans áhugamáli, enda var hann hafsjór fróðleiks á því sviði.
Magni og Steinunn, f. 1942, giftu sig á Eyrarbakka 11. júlí 1964. Börn þeirra eru Oddný Elín, f. 1964, Guðmundur Haukur, f. 1969, og Ingibjörg, f. 1974. Barnabörnin eru sex talsins og barnabarnabörnin þrjú.