Í fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029, sem nú er rædd á Alþingi, kemur fram að viðræður standi yfir um endurskoðun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Í þeim er gert ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði aukist um fjóra milljarða á ári, næstu fimm árin, umfram það sem áður var áætlað, samtals 20 milljarða.
Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að ríkissjóður „láni“ Betri samgöngum ohf. aðra 20 milljarða sem engin áform liggja fyrir um hvernig verða endurgreiddir í ríkissjóð, enda er að líkindum ekki reiknað með endurgreiðslu.
Þessi 40 milljarða innspýting, á næstu fimm árum, kemur sem fyrr segir til viðbótar við þegar áætlaðar fjárveitingar til samgöngusáttmálans og til viðbótar við afhendingu Keldnalandsins, sem hefur gert Betri samgöngur ehf. að helsta fasteignaþróunarfélagi landsins.
Þessu til viðbótar upplýsti fjármálaráðherra í gær að áform væru um að ríkissjóður kæmi að rekstri borgarlínunnar, sem var sagt útilokað þegar lög um stofnun Betri samgangna ohf. fóru í gegnum þingið.
Það þarf ekki að koma á óvart að starfandi formaður VG segi nú forsendur til að „koma borgarlínunni á flug“.
Til upprifjunar sagði Jón Gunnarsson, sem óhætt er að kalla talsmann Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum á þeim tíma, í umræðu um stofnun hins opinbera hlutafélags: „Erum við ekki sammála um að það sé algjörlega skilyrt að ríkið komi ekki nálægt rekstrarkostnaðinum sem hv. þingmanni var tíðrætt um? Það er sveitarfélaganna að sjá um hann.“ Svo mörg voru þau orð.
Nú er þetta allt breytt. Ekki bara skal ríkissjóður borga óteljandi tugi milljarða í framkvæmdakostnað umfram það sem upphaflega var áætlað, heldur skal ríkissjóður leggja til reksturs borgarlínunnar sem var aftekið með öllu að yrði raunin þegar áformin voru plötuð í gegnum þingið.
Eftir allan þennan tíma hefur ekki enn verið lögð fram rekstraráætlun fyrir borgarlínuna. Ekkert bólar á uppfærðu kostnaðarmati vegna framkvæmdahluta sáttmálans, sem átti fyrst að liggja fyrir síðasta sumar. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna samgöngusáttmálans og reksturs borgarlínunnar eru þingheimi dulin sem lottótölur næsta laugardags. Samt er ætlast til þess að þingmenn samþykki fjármálaáætlunina.
Eins og staðan er núna eru hvorki forsendur til að Alþingi afgreiði fjármálaáætlun óbreytta hvað samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins varðar, né heldur að Alþingi samþykki samgönguáætlun sem hefur legið í salti síðan í nóvember.
Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innviðaráðherra verða að sýna á spilin hvað endurmat samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins varðar. Að öðrum kosti er það beinlínis skylda þingmanna að stíga á bremsuna þar til birtir til.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is