Á sýningunni Verk og vit má finna kraft sem þarf að leysa úr læðingi

Sýningin Verk og vit stendur yfir þessa dagana í Laugardalnum. Sýningin er haldin í sjötta sinn og þar er samankominn mikill fjöldi sýnenda og búist við tugþúsundum gesta líkt og fyrr, en sýningin er nú haldin í sjötta sinn, eins og fram kom í fróðlegu sérblaði Morgunblaðsins í gær.

Þar var meðal annars rætt um húsnæðismarkaðinn við forstöðumann hjá Landsbankanum, Hauk Ómarsson, sem bendir á að háir stýrivextir hafi hamlandi áhrif á fasteignamarkaði, sem kemur ekki á óvart enda tilgangurinn að draga úr spennu í hagkerfinu. En fleira kemur til og forstöðumaðurinn nefnir að of lítið framboð af byggingarhæfum lóðum á höfuðborgarsvæðinu sé stærsti akkillesarhællinn. „Verktakar þurfa að berjast um þær lóðir sem eru fáanlegar sem ýtir upp lóðaverðinu sem svo leiðir til þess að byggingarkostnaðurinn hækkar og söluverðið líka,“ segir Haukur.

Þá bætir hann því við að rík áhersla hafi verið lögð á að þétta byggðina á tilteknum reitum, sem sé góðra gjalda vert, en það þurfi líka að brjóta nýtt land undir íbúðabyggð á jöðrum höfuðborgarsvæðisins. Og Reykjavíkurborg hafi að auki sett ýmsar kvaðir á lóðir, á „þéttingarreitum hefur borgin t.d. kveðið á um að íbúðarsvæði skuli hafa tiltekið hlutfall verslunarhúsnæðis en stundum hefur reynst erfitt að finna kaupendur að þessum nýju verslunarrýmum, t.d. á Hlíðarendasvæðinu“.

Mikið framboð á fjölbreyttari lóðum væri að mati Hauks til þess fallið að lóðaverð yrði hagstæðara en um leið að framkvæmdir yrðu skilvirkari þar sem samfella í framkvæmdum gæti aukist.

Þessar ábendingar og fleiri sem Haukur nefnir hafa áður heyrst en því miður þarf að ítreka þær reglulega því að furðu erfitt virðist að ná fram breytingum í þessum efnum þó að löngu sé orðið augljóst hvar skórinn kreppir.