María Ólafsdóttir Gros átti stórleik með Fortuna Sittard í fyrrakvöld þegar liðið vann stórsigur á Excelsior, 5:0, í undanúrslitum hollensku bikarkeppninnar í knattspyrnu. María, sem er 21 árs og hefur leikið 33 leiki með yngri landsliðum Íslands, skoraði þrennu á síðustu 15 mínútum leiksins þar sem hún gerði þrjú síðustu mörkin fyrir lið sitt. Íslendingaliðið Fortuna Sittard, sem Hildur Antonsdóttir og Lára Kristín Pedersen leika einnig með, mætir Ajax í úrslitaleik bikarkeppninnar á hvítasunnudag, 19. maí.
Emiliano Martínez, markvörður Aston Villa, fékk tvívegis gula spjaldið gegn Lille í Sambandsdeildinni í fótbolta en samt ekki það rauða og það kom mörgum á óvart. Fyrra spjaldið fékk hann í leiknum, fyrir tafir, og það seinna fyrir framkomu sína í vítaspyrnukeppni liðanna sem Villa vann. Samkvæmt alþjóðlegum reglum knattspyrnunnar er ekki refsað með rauðu spjaldi þó leikmaður fái sitt annað gula spjald í vítaspyrnukeppni.
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur sektað Barcelona vegna framkomu stuðningsmanna félagsins á útileiknum gegn París SG í Meistaradeildinni í fótbolta í síðustu viku. Þeir voru sakaðir um kynþáttafordóma auk þess sem kveikt var í flugeldum og skemmdir unnar á Parc des Princes, heimavelli PSG. Sektin nemur 32 þúsund evrum, eða tæpum fimm milljónum íslenskra króna.
Frá og með næsta tímabili munu leikir sem lyktar með jafntefli ekki verða endurteknir í ensku bikarkeppninni í karlaflokki. Enska knattspyrnusambandið og úrvalsdeildin hafa undirritað nýtt sex ára samkomulag þar sem ákveðið var að frá og með fyrstu umferð tímabilið 2024-25 verði jafnteflisleikir ekki endurteknir. Þess í stað verður gripið til framlengingar og vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram sigurvegara standi leikar jafnir að venjulegum leiktíma loknum. Á yfirstandandi tímabili var endurtekningu leikja hætt frá og með fimmtu umferð.
Roma á Ítalíu hefur staðfest að Daniele De Rossi verði knattspyrnustjóri félagsins á næsta tímabili. De Rossi var upphaflega ráðinn til loka tímabilsins eftir að Jose Mourinho var sagt upp störfum í janúar. Undir stjórn De Rossi hefur Roma klifrað úr 9. sæti upp í það 5. eftir sex sigra í fyrstu sjö leikjum hans við stjórnvölinn. De Rossi lék 616 leiki fyrir Roma frá 2001 til 2019 og vann ítölsku bikarkeppnina tvívegis.