Kristján Rafn Guðmundsson fæddist á Ísafirði 28. maí 1944. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 5. apríl 2024.
Foreldrar Kristjáns Rafns voru Guðmundur I. Guðmundsson, f. 16. apríl 1921, d. 24. júní 1975, og Helga Elísabet Kristjánsdóttir, f. 10. maí 1922, d. 25. september 2004.
Systkini Kristjáns Rafn eru Jónína Elísa, f. 17. júlí 1949, Albert, f. 9. maí 1952, d. 10. nóvember 2022, og óskírð stúlka, f. 18. janúar 1958, d. 5. febrúar 1958.
Kristján Rafn kvæntist Ásthildi Ingu Hermannsdóttur, f. 16. júlí 1945, þann 16. júní 1966. Þau skildu. Þeirra börn eru:
1) Guðmundur Rafn (Muggur), f. 23. nóvember 1966. Muggur er kvæntur Jónu Lind Kristjánsdóttur, f. 20. janúar 1968. Þau eiga þrjár dætur, Silju Rán, f. 26. nóvember 1992, í sambúð með Stefáni Snæ Stefánssyni, f. 20. júní 1992, eiga þau dótturina Sölku, f. 21. apríl 2020, Heklu Dögg, f. 24. apríl 1997, í sambúð með Adam Smára Ólafssyni, f. 7. ágúst 1997, og Eddu Lind, f. 18. desember 2001.
2) Ingveldur Birna, f. 2. september 1970, d. 3. mars 1980.
3) Helga Bryndís, f. 1. maí 1972. Helga Bryndís er gift Birgi Hrafnkelssyni, f. 1. febrúar 1969. Þeirra börn eru Ingveldur Birna, f. 6. maí 1994, er í sambúð með Robert Kuehicke, f. 14. september 1995, Embla Katrín, f. 21. ágúst 1996, Fanney, f. 29. nóvember 1999, í sambúð með Eggerti Halldórssyni, f. 5. janúar 1996, Sesselja Malín, f. 27. október 2002, Ásthildur Una, f. 23. apríl 2007, Salóme Lea, f. 4. nóvember 2012, og Kristján Breki, f. 3. júlí 2014.
Kristján Rafn bjó alla sína ævi á Ísafirði, fyrst í Grundargötu en síðar fluttist fjölskyldan inn á Grænagarð. Kristján Rafn og Ásthildur bjuggu fyrst á Seljalandsvegi, fluttu síðar í Túngötu þar til þau byggðu hús í Kjarrholti 1979. Síðustu árin bjó Kristján Rafn á Hlíf og síðasta árið á hjúkrunarheimilinu Eyri.
Kristján Rafn stundaði ýmsar íþróttir á sínum yngri árum en síðar var það skíðagangan sem áttu hug hans allan. Kristján Rafn vann Fossavatnsgönguna á Ísafirði fyrst 1962, rétt fyrir 18 ára afmæli sitt. Hann vann Fossavatnsgönguna alls 12 sinnum, oftast allra, og tók þátt í henni að minnsta kosti 42 sinnum. Hann varð tvisvar Íslandsmeistari í skíðagöngu. Hann varð fyrsti Íslendingurinn til að klára 10 og 20 km Vasagöngur í Svíþjóð og fór alls 22 sinnum. Einnig tók hann þátt í mörgum öðrum skíðagöngum á lífsleiðinni bæði hérlendis og erlendis. Kristján Rafn fór á fjölmörg skíðamót sem fararstjóri og smurningsmeistari, bæði hér heima og víða um Evrópu.
Kristján Rafn vann ýmis störf m.a. sem línumaður hjá Rarik, starfsmaður áhaldahúss Ísafjarðar, bílstjóri hjá Gunnari og Ebeneser, slökkviliðsstjóri á Ísafirði, varðstjóri í lögreglunni og tók einstaka túra á sjó. Lengst af vann hann á Netagerð Vestfjarða og lauk hann sveinsprófi í netagerð, einnig starfaði hann sem ökukennari í 45 ár.
Útför Kristjáns Rafns fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 19. apríl 2024, kl. 13.
„Það þýðir ekki að tala um það,“ sagði pabbi oft þegar eitthvað var orðið og ekki hægt, eða erfitt, að breyta því. Segja má að hann hafi í raun lifað svolítið eftir þessum orðum.
Fyrstu æviárin bjó pabbi ásamt fjölskyldu sinni í Grundargötu, allt til 1954 þegar Netagerð Vestfjarða var stofnuð og þau fluttust inn á Grænagarð. Pabbi tengdist svo Netagerðinni alla ævi, hann byrjaði að vinna þar tíu ára og vann þar, með öðru, bæði fyrri og seinni hluta ævinnar. Faðir hans, Muggur á Grænagarði, lést langt um aldur fram árið 1975. Ég hef trú á að þetta hafi haft talsverð áhrif á pabba þó ekki bæri mikið á því út á við.
Systir mín, Inga Birna, fæddist árið 1970 með ólæknandi sjúkdóm. Hún lést árið 1980 og það tók mörg ár, ef það hefur nokkurn tímann tekist, að vinna úr sorginni. Veikindi Ingu Birnu höfðu óneitanlega áhrif á fjölskylduna, því Inga Birna þurfti að dvelja langdvölum á sjúkrahúsi fyrir sunnan. Við áttum þó góða að hér fyrir vestan, sem hjálpuðu til við að halda öllu gangandi.
Ungur að árum fór pabbi að fara á gönguskíði, enda voru góðir skíðamenn í fjölskyldunni. Snemma fór hann að elta þá Gunnar og Odd Péturssyni þegar þeir fóru frá Grænagarði á æfingar upp á Seljalandsdal, eða inn í Skóg. Skíðagangan var alla tíð helsta áhugamál pabba og ef það var snjór þá fór hann á skíði, sama hvernig veðrið var, þó hann hafi unað sér best á skíðum í sól. Hann fór á skíði á ýmsum tímum sólarhrings og ef það var ljós á skíðasvæðinu seint á kvöldin þá var það yfirleitt hann sem var þar. Pabbi eignaðist fjölda kunningja og vina í tengslum við skíðin og ég geri fastlega ráð fyrir því að hann sé kominn með þeim sem látnir eru á skíði, þar sem eru eilífðar fannbreiður og sól.
Það var gaman að keyra með pabba um landið því hann þekkti landið vel og kunni Íslendingasögurnar nánast utan að og gat farið yfir þennan eða hinn bardagann eða nefnt hver bjó á þessum eða hinum bænum.
Það var mikil áfall fyrir pabba þegar Albert bróðir hans lést haustið 2022. Þeir áttu ákaflega gott samband og töluðu saman flesta daga. Albert var eiginlega akkeri hans í lífinu.
Síðari ár hafði sjónin versnað talsvert og er pabbi fékk blóðtappa í höfuð í lok júlí 2022 þá versnaði sjónin til muna, sem og hreyfigetan hægra megin í líkamanum. Vegna þessa flutti hann á hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði í maí á síðasta ári. Þar undi hans sér vel þrátt fyrir dapra sjón, hann hlustaði á sögur, fór fram í vinnustofu og á æfingahjólið sem hann var með inni hjá sér. Starfsfólk Eyrar talaði um að það hefði heyrst í hjólinu á ýmsum tímum sólarhrings. Fyrir hönd fjölskyldunnar langar mig að þakka starfsfólki Eyrar fyrir frábæra umönnun, en ekki síst alúð og góðvild.
Pabbi var barngóður og barnabörnin fengu svo sannarlega að njóta þess, svo ekki sé minnst á langafastelpuna, Sölku, sem var í miklu uppáhaldi. Þegar pabbi var fluttur á Eyri þurfti ekki nema að nefna Sölku og segja frá því hvað hún var að bardúsa til að fá fram bros. Við höfum því öll góðar minningar til að ylja okkur á.
Guðmundur Rafn (Muggur).
Það var enginn eins og afi. Það er óraunverulegt og óhugsandi að veröldin haldi áfram að snúast án hans.
Það er sárt að hafa ekki getað kvatt, og að hafa ekki vitað að síðasta skiptið sem við hittumst yrði það síðasta. Á sama tíma er minningin um þessa hversdagslegu stund svo falleg og dýrmæt, við pabbi hjá afa að spjalla um allt og ekkert. Í Skíðablaðinu, sem var nýkomið út, var grein um björgunarafrek frá árinu 1968 sem afi átti stóran þátt í. Ég hafði aldrei heyrt um þetta áður og það var áhugavert að geta rætt þetta við hann.
Afi kenndi mér á bíl, eins og svo mörgum öðrum. Það var stór stund þegar hann sótti mig á 16 ára afmælisdaginn til að fara í fyrsta ökutímann. Hann var þolinmæðin uppmáluð þegar ég keyrði á 20 km hraða út í bæ og í einum af fyrstu tímunum lét hann mig keyra ómokaðan veginn upp á Seljalandsdal í djúpum hjólförum, með einhverja trú á mér og mínum aksturshæfileikum sem ég hafði svo sannarlega ekki sjálf. Þetta var fyrsta af mörgum skiptum sem við keyrðum upp á dal, hann þurfti oft aðeins að taka stöðuna á sporinu.
Þegar ég vann í Hamraborg kom hann svo oft við á milli ökutíma. Reglulega kom hann með þykkan bunka af krumpuðum lottómiðum sem hann hafði fundið í bílnum eða í hinum ýmsu vösum. Hann vann nú aldrei háar fjárhæðir, en vinningarnir fóru yfirleitt í að kaupa ís – alltaf í vöffluformi og með lúxusídýfu.
Hann las mikið, sænskar glæpasögur, Halldór Laxness og hann kunni Íslendingasögurnar aftur á bak og áfram. Við keyrðum svo oft milli landshluta saman, sérstaklega á leiðinni á skíðamót, og hann gat farið yfir hvaða atburðir höfðu orðið í hvaða dal og gætt þá lífi með áhuga sínum. Það var mjög hjálplegt í menntaskóla að geta leitað til hans og fengið pælingar frá honum, um Njálu og Fóstbræðrasögu, Íslandsklukkuna og Sölku Völku.
Afi var svo stoltur af Sölku dóttur minni. Á meðan hann gat var hann yfirleitt kominn á gólfið að leika við hana, eins og hann lék við okkur frænkurnar þegar við vorum litlar. Hann var allra stoltastur að sjá hana á skíðum og síðustu jól gaf hann henni einmitt skíðaskó í jólagjöf.
Það er dýrmætt að hafa átt sameiginlegt áhugamál. Svo margar minningar af afa tengjast skíðagöngu. Hann kom oft með okkur í skíðaferðir, sem fararstjóri og smurningsmaður, enda sá allra besti í því að bera undir skíði. Hann hvatti okkur krakkana áfram og stundum keppti hann líka sjálfur. Eitt skiptið var ég að hvetja hann úti í braut og hann svarar til baka að „þetta komi nú allt með kalda vatninu“. Hógvær, rólegur en ákveðinn.
Það var enginn eins og afi. Það er fallegt í sorginni að kveðja afa einmitt þessa helgi, þegar keppt er í Fossavatnsgöngunni sem hann gekk svo oft og hefur unnið oftast allra. Einhvern veginn held ég að hans sumarland sé uppi á Seljalandsdal, snævi þakið.
Silja Rán Guðmundsdóttir.
Sumarið 1965 fór ungur maður að venja komur sínar í sumarbústaðinn okkar í Skóginum við Ísafjörð, Kitti Muggs, að finna Ásthildi systur mína. Árið eftir var haldið yndislegt sumarbrúðkaup, okkur fjölskyldunni til mikillar gleði, og svo bjuggu þau líka nánast í næsta húsi við okkur. Svo komu börnin eitt af öðru; fyrstur gleðigjafinn Muggur sem varð eins og yngsta systkinið á Engjavegi 32 og tilkynnti bísperrtur að hann væri hálfbróðir minn! Næst kom fjörkálfurinn og baráttujaxlinn hún Inga og síðust maddama Helga sem með sínu fallega tannlausa brosi tók lífinu með stóískri ró. Lífið brosti við ungu fjölskyldunni en síðar tóku við tímar þar sem skiptust á sorg og gleði þegar hún Inga okkar greindist með meðfæddan, ólæknandi sjúkdóm sem á þeim tíma var lítið þekktur og takmörkuð úrræði til lækninga. Ásthildur, Kristján og fjölskyldan öll lagðist á eitt um að gera lífið eins gott og hægt var fyrir Ingu og sérstaklega að hún nyti sem flestra möguleika og lífsgæða og unnt var. Þau fóru m.a. bæði til Noregs og Danmerkur til að finna færustu sérfræðinga um hennar sjúkdóm. Inga okkar þreytti þó hörðustu baráttuna sjálf og gafst aldrei upp og gladdi okkur með sínum smitandi hlátri og tilsvörum en náði aðeins níu ára aldri. En eins og einn sérfræðingurinn sagði þá átti hún þrátt fyrir allt gott líf. Enginn getur sett sig í spor foreldra sem missa barnið sitt nema þeir sem reynt hafa.
Kristján var fróður maður og vel lesinn. Hann þekkti alla bæi og ábúendur á vesturleiðinni og var mikill sögumaður og húmoristi. Um tíma bjuggum við tvær systur í Danmörku og þá sagði hann við tengdapabba sinn: „Ert þú nú ekki orðinn full dansksinnaður, Hermann Björnsson?“ Hann var ekki mikið fyrir ræðustóla en kom fjölskyldunni á óvart þegar hann stóð upp í 70 ára afmæli mömmu og hélt henni lofræðu! Kristján var sérlega barngóður og krakkarnir minnast hans með hlýju og þakklæti fyrir skemmtilegar samverustundir í Skóginum, í Kjarrholtinu og víðar. Hann gaf sér alltaf tíma fyrir þau og hafði gaman af að gantast við þau.
Kristjáns verður ekki síst minnst fyrir gönguskíðin. Hann var margfaldur vinningshafi á Íslandsmótum og fleiri mótum; gekk ótal Fossavatns- og Vasagöngur fyrir utan það að fara á gönguskíðin alla daga þegar gaf. Eins og Muggur sonur hans sagði: „Allir sem hafa stundað gönguskíði á Ísafirði þekktu Kitta Muggs.“ Hann var eftirsóttur fylgdarmaður og fararstjóri í skíðaferðir með börnum og unglingum. Þar kom sér vel hversu auðvelt honum var að eiga samskipti við unga fólkið þar eins og í ökukennslunni sem var atvinna hans til margra ára.
Helga dóttir hans sagði: „Ég trúi að nú hafi hann spennt á sig skíðin í síðasta sinn, sett á sig stafina og gengið á vit nýrra skíðaævintýra.“
Mér finnst ég sjái hann sitja með Ingu sinni og syngja fyrir hana eins og forðum: „Hættu að gráta hringaná.“
Við fjölskyldan þökkum Kristjáni góðar og gengnar stundir. Elsku Ásthildur, Muggur, Helga og fjölskyldur: Megi góðar minningar vera ykkur öllum styrkur.
Ásdís S.
Hermannsdóttir (Addý).
Nú þegar komið er að kveðjustund rifjast upp ótal ljúfar minningar um kæran frænda sem sýndi okkur ávallt skilyrðislausa væntumþykju og tryggð. Frænda sem hefur verið í lífi okkar alla tíð. Kristján Rafn var skemmtilegur stóri frændi, hann lék við okkur, stríddi og sagði sögur. Æskuheimili hans á Grænagarði er órjúfanlega tengt mörgum af okkar hlýjustu minningum.
Þegar Kristján Rafn kynntist Ásthildi fyrrverandi konu sinni fylgdumst við forvitin með og leið frekast eins og systkinum hans þegar við vorum boðin í brúðkaup hjá þessu stórglæsilega unga fólki sem við litum svo upp til. Góð og hlý kynni hafa einnig náð til afkomendanna þeirra.
Frændi okkar var mikill afreksmaður í skíðagöngu. Hann keppti fyrst á Íslandsmóti 15 ára og var að fram að fertugu. Hann náði Íslandsmeistaratitlum bæði í 15 km og 30 km göngu og hlaut einnig silfur og brons. Hann hafði alla tíð miklar mætur á Fossavatnsgöngunni og gekk hana fjörutíu og tvisvar sinnum, varð sigurvegari tólf sinnum, oftar en nokkur annar. Hann var jafnframt lengi vel sá Íslendingur sem hafði oftast farið í Vasagönguna í Svíþjóð, eða í 20 skipti.
Kristján Rafn var mikil fyrirmynd hjá yngri iðkendum. Hann fór iðulega sem fararstjóri þeirra á unglingamót og skilaði þannig reynslu sinni til nýrra kynslóða. Það hefði sannarlega glatt hann að vita að stofnaður hefur verið styrktarsjóður skíðabarna á Ísafirði í minningu hans.
Kristján var í nokkur ár í lögreglunni, gegndi starfi slökkvistjóra í tvö ár og ók flutningabíl um árabil. Hann byrjaði barnungur að vinna hjá Netagerð Vestfjarða og vann þar í áratugi með hléum. Á netaverkstæðinu var góður starfsandi, þar átti frændi okkar hlut að máli því hann var einstakur sögumaður og féll því vel inn í hópinn, eignaðist þar eins og víðar, ekki síst meðal skíðamanna, einhverja sína tryggustu vini.
Kristján kom afar vel að sér ungu fólki. Hann var vinsæll ökukennari í áratugi og kynntist því ótölulegum fjölda ungs fólks á Vestfjörðum. Hann var mjög vel að sér í ættfræði og þekkti því oftar en ekki foreldra, afa og ömmur nemendanna. Hafði hann þann sið þegar verðandi ökumenn æfðu akstur um Óshlíð út í Bolungarvík að biðja þau að leggja bílnum á Völusteinsstræti við hús foreldra okkar. Þar skaust hann inn, spjallaði örstutt og hélt svo út aftur. Þótt innlitið væri stutt var það hlýleg yfirlýsing og umhyggja sem foreldrar okkar kunnu að vel að meta.
Frændi okkar fór ekki varhluta af sorg og mótlæti. Dóttirin Ingveldur Birna greindist með meðfæddan ólæknandi sjúkdóm og eftir harða baráttu og aðdáunarverðan stuðning fjölskyldunnar lést þessi lífsglaða kjarkmikla stúlka tæplega tíu ára.
Kristján frændi okkar var eitt af elstu barnabörnunum í okkar góðu móðurfjölskyldu. Hann þekkti því betur og gat miðlað til okkar um líf fyrri kynslóða, enda stálminnugur og vel gefinn. Hans verður sárt saknað úr fjölskylduhópnum.
Með söknuði og einlægu þakklæti kveðjum við kæran frænda. Frændfólki okkar og vinum vottum við einlæga samúð.
Einar og Guðrún, Ester og Guðmundur, Kristján og Þorbjörg, Elías og Kristín (Disda), Heimir Salvar.
Hann Kristján Rafn eða Kitti Muggs, eins og hann var kallaður í góðum vinahópi, hefur nú lokið nálega áttatíu ára lífsgöngu. Við, hin svokallaða „lýðveldiskynslóð“ sem fæddist árið 1944, megum nú sakna góðs félaga úr tæplega 70 manna hópi. Ég kynntist Kitta frænda og vini þegar við fimm ára að aldri hófum nám í Barnaskóla Ísafjarðar í „stöfunardeild“ hjá þeim eðalkennara Jóni H. Guðmundssyni. Skólaár okkar Kitta saman urðu samtals 11 er við að lokum þreyttum landspróf saman frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði árið 1960. Öll skólaárin héldum við vinskap og góðri samveru. Fyrst og fremst voru það skíðin, þ.e. gönguskíðin, sem tengdu okkur saman.
Kristján var ímynd elju og hreysti og dró hvergi af sér. Á æsku- og unglingsárum bjó hann lengst af á Grænagarði sem er um 2 km frá skólanum. Þessa leið stikaði hann í kafsnjó eins og svo algengt var á Ísafirði á þessum árum. Í félagsstarfi lágu leiðir okkar saman í skátunum þar sem við níu ára gengum í ylfingasveit hjá tveimur úrvals foringjum eða „akelum“, þeim Gunnlaugi Jónassyni og Gunnari Jónssyni. Var það ómetanlegur tími í gamla skátaheimilinu við leik, próftökur og söngva. Auk þess útilegur og skíðakeppnir. Kitti var sigursæll í skíðakeppnum enda hár og þrekinn en ég var smápatti sem náði honum tæpast í öxl. Hann varð seinna landsfrægur skíðagöngumaður þar sem hann keppti fyrir félag „fjarðarpúka“, Ármann. En á sumrin tók fótbolti við og þar gekk Kristján í lið með okkur Harðverjum og háði með okkur marga hildi við andstæðinginn Vestra. Kristján var jafnan í marki og færði okkur sigra í þeirri stöðu. Handboltamaður var hann frábær í skóla og var eins gott að vera ekki fyrir þegar hann þaut eins og stormsveipur upp völlinn í gamla leikfimisalnum og raðaði inn mörkum.
Hann fetaði í fótspor föður síns og vann hjá því merka fyrirtæki Netagerð Vestfjarða (nú Hampiðjan) og stundaði að auki ökukennslu við miklar vinsældir yngri kynslóðar. M.a. tók hann mig í ökuskóla rúmlega sjötugan er skírteini mitt rann út í Frakklandsdvöl. Líklega minn síðasti skóli!
Það skildi leiðir með okkur um ein átta ár þegar ég hélt suður og seinna til útlanda til náms. En Kristján var ekki aðgerðalaus á meðan. Hann kom sér í hóp bestu skíðagöngumanna landsins enda með góðar fyrirmyndir, þá Grænagarðsbræður Odd og Gunnar Péturssyni. Þær skipta tugum Vasagöngur hans í Svíþjóð 90 km leið, Birkibeinagöngur í Noregi og Fossavatnsgöngur á Ísafirði sem urðu alls 42 á árunum 1962-2014. Allt þetta er órækt vitni um óbilandi þrek, elju og viljastyrk sem sýnir að hann var afreksmaður.
En nú er komið að kveðjustund góðs vinar á langri ævi. Það verður án efa minnisverð stund þegar okkar ágæti sr. Magnús Erlingsson flytur síðustu kveðjuræðu. Ég minnist með hlýju ótal góðra stunda með Kristjáni. Öðlingsdrengur hefur nú kvatt okkur. Afrek hans munu lifa um ókomna tíð. Ég votta öllum aðstandendum og vinum hans innilega samúð og bið góðan Guð að vernda Kristján Rafn.
Ólafur Bjarni Halldórsson.
Kitti Muggs var góður vinur og við fengum að njóta mannkosta hans. Nú síðustu tvö árin hafa lífsgæði hans farið þverrandi.
Kitti var annaðhvort á skíðum upp um öll fjöll eða í stígvélunum sínum, upp um sömu fjöll að sumri, hann leitaði uppi snjóbletti á heiði nánast allt árið. Oft hittumst við á þessum ferðum og ræddum lífið og tilveruna. Hann var mjög skemmtilegur og gat verið meinfyndinn. Hann var rennslisstjóri okkar Rannveigar alla tíð. Eitt árið hafði hann á orði að ég væri orðin svo kjarkmikil í brekkunum, þá bætti hann vel í með þeim afleiðingum að ég datt og axlarbrotnaði. Mikið tók hann það nærri sér, því honum fannst hann bera sök á fyrsta brotinu í hinni ævagömlu Fossavatnsgöngu. Hann mátti svo sem vita að það var sú sem datt sem stóð sig ekki nógu vel. Kitti var fylginn sér og sá um sína, hann kenndi Gunnari og Rannveigu til bílprófs og gætti þess að tímarnir væru skemmtilegir og prófin sanngjörn.
Um leið og Rannveig fór að stunda gönguskíði hvatti hann hana með ráðum og dáð. Hún og Silja Rán hafa alla tíð verið miklar vinkonur og föðmuðust þær eftir hverja keppni hvor þeirra sem var á undan, það var ekki aðalmálið.
Fyrir ári vorum við fjölskyldan daglega á sjúkrahúsinu. Þangað var Kitti kominn vegna veikinda, við gengum aldrei svo fram hjá að við heilsuðum þessum vini okkar ekki. Eftir að hann fór á Eyri áttu hann og Gunnar góðar stundir, hann var mjög stoltur og glaður þegar hann fékk að sitja með Margréti Rósu sem var í vinnuheimsókn hjá móðurbróður sínum. Genginn er góður og skemmtilegur maður sem við munum sakna. Vottum öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Kitta Muggs.
Margrét Gunnarsdóttir
og fjölskylda.
• Fleiri minningargreinar um Kristján Rafn Guðmundsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.