Margrét Þóra Þórsdóttir
Akureyri
Illa er farið með almannafé þegar kemur að nokkrum þáttum heilbrigðisþjónustu. Starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) benti þingmönnum NA-kjördæmis á dæmi þess á málþingi sem haldið var á sjúkrahúsinu. Þjónusta SAk hefur undanfarin misseri dregist verulega saman sem gerir það að verkum að íbúar á þjónustusvæði þess þurfa í auknum mæli að leita sér lækninga suður, ýmist á Landspítala eða hjá sérgreinalæknum á stofum. Allavega 22 þúsund einstaklingar fóru í slíkar læknaferðir á fyrstu tíu mánuðum liðins árs. Flest tilfellin hefði verið hægt að afgreiða á SAk.
Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um hvert hlutverk sjúkrahússins er, m.a. að það eigi að sinna þjónustu í nær öllum sérgreinum lækninga, vera kennslusjúkrahús og að það eigi að vera varasjúkrahús Landspítala. Að mati starfsmanna SAk nær sjúkrahúsið ekki að uppfylla þau lagaskilyrði eins og staðan er nú.
Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslæknir segir margt benda til að blikur séu á lofti. Um tvær leiðir sé væntanlega að velja. Önnur er að breyta lögum um hlutverk SAk þannig að það sjái einungis um fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu. Hin væri að fjárlög væru í raunhæfu samhengi við þá starfsemi sem sjúkrahúsinu er ætlað að veita. Fyrri leiðin væri óðs manns æði, sérstaklega þegar efla á Akureyri og gera hana að borg.
Sumt horfið, annað í hættu
Ýmis sérfræðiþjónusta sem áður var við SAk er þar ekki lengur í boði. Starfsemin hefur af þeim sökum dregist saman. Þar má nefna erfðaráðgjöf, lungnalækningar, augnlækningar, húðlækningar, innkirtlalækningar, inngrip myndgreiningadeildar og lýtalækningar. Auk þess eru aðrar sérgreinar eins og geðlækningar, barna- og unglingageðlækningar, skurðlækningar, endurhæfingarlækningar og öldrunarlækningar í verulegri hættu vegna skorts á fjármagni og sérhæfðum læknum. Fyrir utan þær þúsundir sem leita suður til lækninga eru margir sem komast hreinlega ekki burtu vegna þess hversu veikir þeir eru.
Friðbjörn segir að hægt væri að sinna stórum hluta þessarar þjónustu á Akureyri með mun minni kostnaði.
„Því miður hefur verið tregða hjá þeim sem ráða fjármálum að heimila SAk að semja við hina ýmsu sérfræðilækna um að veita þjónustu hér fyrir norðan. Augljóst er að það er mun ódýrara að flytja einn frískan sérfræðilækni norður en tugi sjúklinga og aðstandendur þeirra suður. Þjónusta við sjúklinga yrði einnig með þeim hætti mun betri. Þó að það geti verið mikilvægt að styðja við flugsamgöngur, þá telja margir að meiru skipti að nýta fjármuni til þess að unnt sé að veita læknisþjónustu á Norðurlandi. Þetta fyrirkomulag sem er við lýði er ekkert annað en bruðl með peninga,“ segir Friðbjörn.
Engar kröfur um að veita þjónustu utan höfuðborgarsvæðis
Friðbjörn bendir á að byggst hafi upp öflug þjónusta sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem hið opinbera taki að sér að fjármagna að mestu leyti.
„Stjórnvöld hafa ekki sett neinar kröfur á sérgreinalækna um að þjónusta þeirra verði í boði utan höfuðborgarsvæðisins. Við erum að leggja til að stjórnvöld geri samninga við sérgreinalækna um að 15% af þjónustu þeirra verði veitt á Akureyri, hvort heldur það er gert innan veggja hjá okkur eða á sjálfstæðum læknastofum,“ segir hann og bætir við að óskað hafi verið eftir viðræðum fagaðila og hins opinbera um hvernig sérfræðilæknaþjónusta verði best skipulögð í landinu.