Birgir Óttar Ríkharðsson fæddist í Reykjavík 4. október 1950. Hann varð bráðkvaddur aðfaranótt 19. mars 2024.
Foreldrar Birgis voru Guðrún Lilja Dagnýsdóttir, f. 6. febrúar 1928, d. 26. júní 2006, og Richard J. Awe, f. 16. júlí 1921, látinn í Bandaríkjunum 26. mars 1984. Birgir fór í fóstur þriggja ára að aldri til Maríu Sigurrósar Skúladóttur, f. 23. júní 1914, d. 10. apríl 2010, og Ólafs Eysteinssonar, f. 16. febrúar 1920, d. 11. mars 2007, sem þá voru búsett á Klungurbrekku á Skógarströnd á Snæfellsnesi. María og Ólafur slitu síðar sambúð. Sammæðra systkini Birgis eru Bryndís Ósk Haraldsdóttir, f. 29. febrúar 1952, Ásmundur Sveinsson, f. 19. mars 1958, d. 23. apríl 2018, Dagný Sveinsdóttir, f. 2. nóvember 1959, Steinn Ómar Sveinsson, f. 2. maí 1961, og Emma Kristín Sveinsdóttir, f. 28. október 1963.
Birgir kvæntist Guðnýju Harðardóttur, f. 11. júní 1951, þann 19. júlí 1969. Börn Birgis og Guðnýjar eru: 1) Guðmundur Sævar, f. 20. maí 1969, maki hans Sigríður Sía Þórðardóttir, f. 14. september 1970. Börn þeirra Sæunn Rut og Viktor. 2) Erla Björk, f. 12. apríl 1972, maki hennar Ásmundur Helgi Steindórsson, f. 29. maí 1976. Börn þeirra Agnes Líf, Birgir Steinn og Eva María. 3) María Ósk, f. 11. september 1973, maki hennar Sigurður Örn Hallgrímsson, f. 11. nóvember 1968. Dóttir Maríu frá fyrri sambúð er Guðný Lilja og barn Maríu og Sigurðar er Pétur Helgi. Birgir og Guðný slitu samvistum 1980.
Birgir kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni Ástu Grétu Samúelsdóttur, f. 20. janúar 1949, sumarið 1982 og gengu þau í hjónaband þann 9. maí 1997. Synir Ástu Grétu frá fyrra hjónabandi eru: 1) Sigurður Þórðarson, f. 27. mars 1968, maki hans Jónína Sóley Halldórsdóttir, f. 23. júní 1975. Börn Sigurðar frá fyrra hjónabandi eru Auður Eir, Dagur og Logi Jarl. 2) Samúel Þórðarson, f. 30. júní 1970, maki hans Angela Corman, f. 23. júní 1977. Synir Samúels frá fyrra sambandi eru Sigurður og Samúel.
Birgir nam vélvirkjun hjá Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar og starfaði alla tíð við ýmis störf tengd vélvirkjun og fleira. Sem ungur maður sigldi hann með Skógafossi Eimskipafélags Íslands og starfaði hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Þá starfaði hann lengst af hjá vélsmiðju Orms og Víglundar og hjá fyrirtækjum Einars Þórkels Einarssonar, Gunnars Péturssonar og Hlyns Guðmundssonar vina sinna.
Útför hans fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 19. apríl 2024, klukkan 11.
Elsku hjartans pabbi minn.
Ég held að ég hafi aldrei gert neitt erfiðara en að skrifa þessi nokkur orð til þín, ef ég gæti nú bara lýst því hversu stolt ég er af því að hafa fengið þau forréttindi í hendurnar að eiga þig að.
Símtalið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, þú með elsku Ástu þinni í góðra vina hópi í fríi í sólinni, þú lagðist til svefns eftir góðan og skemmtilegan dag, en því miður fékkstu ekki að vakna aftur. Það er erfitt og sárt að sætta sig við þennan nýja veruleika án þín en ég trúi því að við munum hittast að nýju, þangað til sitja eftir allar þær dýrmætu og góðu minningar af þér sem ég mun aldrei gleyma. Þú varst einstakur, þú komst fram við alla af virðingu og settir sjálfan þig aldrei á háan hest. Þú óskaðir öllum þess besta í lífinu og varst duglegur að passa upp á fólkið þitt.
Það var fjör í Engihjallanum þegar við öll krakkarnir vorum heima hjá ykkur Ástu. Þarna vorum við öll fimm fædd á árunum 1968, 1969, 1970, 1972 og 1973. Ég var yngst og man ég að ég fékk oftast engu um það ráðið hvað var horft á í sjónvarpinu. Sú ákvörðun var oftast tekin af elstu strákunum þremur, en það kom fyrir að þú skikkaðir strákana til og leyfðir mér að horfa á Strumpana.
Ég man sérstaklega eftir sumarfríinu sem ég fór með þér og Ástu, 12 ára gömul, hringinn í kringum landið. Við gistum í tjaldi og fararskjótinn var gylltur Datsun 120, ekki svo ýkja stór en hann dugði vel. Ásta var búin að útbúa aftursætið kósí fyrir mig svo ég gæti lagt mig ef ég vildi. Þá var ekki mikið verið að stressa sig yfir bílbeltunum. Þar aftur í voru teppi og bækur og var ég alsæl með ferðatilhögunina. Þið Ásta lögðuð mikið upp úr því að mér liði vel og myndi ekki leiðast, verandi eina barnið í ferðinni. Í þessu ferðalagi veiddum við mikið af silungi og bleikju og þú varst ákveðinn í að kenna mér að beita maðki á öngul, sem ég og lærði. Fiskinn grilluðum við svo heilan, vafinn í álpappír og borðuðum hann svo með smjöri og salti. Þú sagðir mér í seinni tíð að þú hefðir aldrei þurft að hafa neitt fyrir mér, það eina sem þú þurftir að gera var að rétta mér veiðistöng, segja mér að setjast á stein og horfa á flotholtið, það gerði ég þangað til þú komst aftur til að tékka á beitunni, það er, ef ég veiddi ekki fisk í millitíðinni.
Heimsóknir okkar allra upp í bústað til ykkar Ástu voru dýrmætar, alltaf veisla og mikið hlegið. Þú þurftir alltaf að vera að brasa eitthvað í bústaðnum, alltaf að dytta að, smíða, stækka og mála. Enda byggðuð þið bústaðinn frá grunni og ykkur þótti óendanlega vænt um ykkar ófáu handtök. Þú áttir erfitt með að sitja kyrr og vildir alltaf nýta daginn vel, þú varst duglegur til vinnu og vildir gera hlutina vel.
Elsku pabbi minn, lífið verður ekki eins án þín. Við söknum þín öll, en þangað til næst: ég elska þig, sofðu rótt og ég sé þig síðar.
Þín
María Ósk (Maja).
Elsku pabbi minn.
Þú fékkst að fara eins og þú sjálfur vildir eftir margra ára þrotlausa baráttu. Við sem stöndum þér næst huggum okkur við það. Eftir situr þó ósætti við þá staðreynd að þú sért farinn frá okkur. Engar fleiri stundir með þér. Engin fleiri pabba- og afaknús. Það er kaldur raunveruleikinn sem erfitt er að sætta sig við. Þú varst sterkur og ósérhlífinn. Þitt takmark var alltaf að komast aftur í vinnuna og var það mikill skellur fyrir þig að sætta þig við að af því yrði líklega ekki. Vinnuhesturinn sem þú hefur alla tíð verið.
Ég er þakklát fyrir allar stundirnar okkar saman. Þú varst skemmtilegur maður á þinn rólega hátt. Gítarglamur, söngur, glens og grín einkenndu þig á góðum stundum. Jeppaferðir, skötuveislur, kubbasteik og útilegur. Við fjölskyldan þín eigum ótal minningar um ævintýraferðir og fjör. Fyrir okkur er það örlítil huggun að vita að þú varst glaður og í essinu þínu síðustu dagana þína með Ástu og vinahópnum á Kanarí.
Þú lagðir mikið á þig síðustu árin til að koma í heimsókn til okkar hér í Noregi. Verkirnir voru orðnir óbærilegir en þó kvartaðir þú aldrei. Þú bara beist á jaxlinn og bölvaðir í hljóði. Við „norska“ fjölskyldan þín erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið að verja tveimur vikum með þér og Ástu um síðustu jól og áramót. Ég vissi það ekki þá að það yrði í síðasta skipti sem ég fengi að faðma þig og það stingur sárt.
Sorgin og söknuðurinn er yfirþyrmandi. Lífið verður ekki eins án þín. Börnin sakna afa síns, ég sakna pabba míns og Addi minn saknar eins af sínum bestu vinum.
Sofðu rótt, elsku besti pabbi minn. Við lofum að passa vel upp á ástina þína. Við elskum þig.
Erla, Ásmundur Helgi (Addi), Agnes Líf, Birgir Steinn og Eva María.
Elsku hjartans afi okkar.
Heimurinn varð tómur þegar við fengum þær fréttir að þú værir farinn okkur frá.
Elsku afi okkar Biggi, afinn okkar sem var aldrei kyrr og var stöðugt að brasa og græja, afinn okkar sem hafði gaman af tónlist, sögu, vísindum, að ferðast og vissi ekki um neitt betra en að vera uppi í bústað í Svínadal með Ástu sinni og með einn ískaldan við höndina. Okkar bestu minningar eru frá samverunni í bústaðnum alveg frá því við vorum börn til dagsins í dag. Að fara með þér og ömmu á stóra hvíta jeppanum og hlusta á Papana, gömul eurovision-lög, Bubba og Johnny Cash. Ekki var leiðinlegt að fá að setja tásurnar út um gluggann, samt ekki fyrr en við værum komin úr Hvalfjarðargöngunum. Að koma upp í bústað var okkar stund með þér og ömmu, það sem við hlógum, spiluðum, skáluðum, fengum góðan mat, potturinn, spjallið og ævintýrin. Þetta eru minningar sem við munum aldrei gleyma og verða okkur dýrmætar alla ævi.
Skatan, jólaboðið annan í jólum, gistipartíin, ferðin okkar til Flateyjar sumarið 2023, fagnaður silfurbrúðkaupsins uppi í bústað 2022, stuðningurinn, brasið og þú varst alltaf tilbúinn að rétta okkur hjálparhönd.
Við getum talið endalaust upp.
Elsku afi okkar, við söknum þín alla daga en nú getur þú hvílt þig. Við pössum upp á ömmu.
Við skálum seinna í draumalandinu.
Þínar
Auður Eir og Guðný Lilja.
Birgir var fæddur 1950 í Reykjavík en var sendur í fóstur að Klungurbrekku á Skógarströnd mjög ungur að árum. Þrátt fyrir aðskilnað þá og þrátt fyrir aðskilnað nú áttum við alltaf samleið. Móðir okkar sá til þess að við systkinin fengum alltaf að vita hvort af öðru. Birgi leið vel í sveitinni og hafði gaman af sveitastörfum. Ég veit fyrir víst að hann varð strax liðtækur til allra starfa sem hentuðu ungum dreng. Man hve stoltur hann var að geta keyrt dráttarvél sem til var á bænum og sagði mér sögur af. Minningin lifir um ferðir vestur til Birgis með móður okkar. Það voru löng ferðalög með rútum á mjóum malarvegum. En gleðin tók öll völd hjá okkur krökkunum í leik og uppátækjum.
Þegar komið var fram á unglingsárin kom Birgir síðan í sveit að Brúarreykjum þar sem ég ólst upp. Þá vorum við orðin stærri og uppátækin einnig. Ég minnist sérstaklega þegar við ákváðum að sofa í tjaldi þó kalt væri. Fullorðna fólkið reyndi að telja okkur ofan af því en við vorum samhent. Um nóttina vöknuðum við köld en ekki sneypt. Læddumst í hlöðuna og grófum okkur ofan í volga nýslegna töðuna.
Ég minnist þín svo ótal ótal sinnum kæri bróðir. Það komu tímar þar sem við systkinin vorum sitt á hvorri leiðinni út í lífið en alltaf héldum við í spottann. Það er alltaf tími til alls. Tími til að syrgja en ekki síst tími til að gleðjast. Ljósið skín oft skærast þar sem myrkrið er mest.
Þegar stjarnan á himninum
blikandi skín
sendir ljós sitt um bláan himin geim.
Kátar bárur við ströndina kveða ljóðin sín
kæri vinur þá langar mig heim.
(bóh.)
Elsku Ásta, Sævar, Erla Björk, María Ósk, makar og afabörn, ykkur sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur og bið Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Kveðja,
Bryndís (Dísa) systir.